26.03.1974
Sameinað þing: 69. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3120 í B-deild Alþingistíðinda. (2780)

271. mál, vísitölutrygging bótafjár íbúðarhúsa vegna jarðeldanna á Heimaey

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh, svar hans. En það, sem fram kom í ræðu hans varðandi þann drátt, sem orðið hefur á þessu máli, kemur mér mjög á óvart. Ég minnist þess, þegar málið var rætt í þingflokki Sjálfstfl., var einróma mælt með samþykkt frv., ef til kæmi. Þá var ekki annað vitað en ríkissjóður mundi taka á sig hugsanlegar bætur í þessu sambandi. Ég vil ekki kannast við það, að um það hafi verið gerð nokkur samþykkt hjá stjórn Viðlagasjóðs, a.m.k. minnist ég þess ekki, sem heft hefði getað eða tafið framgang málsins. Þegar þetta mál var upphaflega rætt þar, — ég bygg, að þessi hugmynd sé þaðan komin frá stjórn Viðlagasjóðs og Seðlabankanum, — þá var stjórnin mjög hlynnt því og mælti mjög með því, að slíkum verðbótum yrði komið á, ef féð yrði notað til uppbyggingar íbúðarhúsnæðis í Vestmannaeyjum aftur. Hvað síðan hefur gerst, er mér ekki kunnugt, en ég hef alltaf haldið, að það hafi staðið á því, að ríkissjóður hafi kannske ekki treyst sér til þess að taka á sig þær verðbætur, sem þarna gæti orðið um að ræða. Að stjórn Viðlagasjóðs hafi nokkuð tafið málið, vil ég ekki við kannast og hygg, að fyrir því sé engin samþykkt í fundargerðum þeirrar stjórnar. Hvort formaður stjórnar Viðlagasjóðs hefur rætt við fjmrh. um málið, er mér ekki kunnugt um. En ég vil mjög undirstrika, að mér er ekki kunnugt um að stjórn Viðlagasjóðs hafi gert nokkra þá samþykkt, sem hefði getað orðið til þess að tefja þetta mál, því að hefði svo verið, þá hefði a.m.k. ég innan stjórnarinnar mjög mótmælt því, að slík samþykkt hefði verið þar gerð.