26.03.1974
Sameinað þing: 69. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3124 í B-deild Alþingistíðinda. (2783)

273. mál, uppbætur á útfluttar ullarvörur

Fyrirspyrjandi (Pétur Pétursson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir svör hans, svo langt sem þau náðu. Mér þykir leitt, ef fsp. hefur ekki komist til hans fyrr en í gær, hún var nú lögð inn í s.l. viku. En ég verð því miður að segja, að ég hef orðið fyrir nokkrum vonbrigðum af svari hæstv. ráðh. Mér fannst það vera ákaflega einfaldar spurningar, en af svörunum finnst mér helst mega ráða, að það eigi að athuga eða gera eitthvað fyrir útflutningsiðnaðinn.

Hæstv. ráðh. tók jákvætt undir það, að vel kæmi til greina að stofna verðjöfnunarsjóð fyrir útflutningsiðnaðinn, eins og lagt hefur verið til við hann, en það eru þó nokkrar vikur ef ekki mánuðir síðan þessar till. voru settar fram, og ég hef ekki orðið var við nein viðbrögð til að koma þessu í kring. En ég vil fullvissa hæstv. ráðh. um það, að hér er um mál að ræða, sem því miður þolir ekki bið, vegna þess að vissar greinar útflutningsiðnaðarins hrökkva saman og hætta, ef ekki verður eitthvað að gert mjög bráðlega. Rekstrargrundvöllur fyrir mörgum greinum útflutningsiðnaðarins er hreinlega ekki fyrir hendi, eins og sannast best á þeim samningum, sem gerðir voru við Sovétríkin, þar sem verðið var sett fast, en framleiðendur gátu ekki framleitt vörurnar nema með umtalsverðum útflutningsuppbótum. Þetta er staðreynd, sem mér finnst að þurfi að taka nokkuð fljótlega á, ef ekki á að verða slys. Ég efast ekki um, að þessi mál koma inn í almennar efnahagsráðstafanir, þegar þær koma. En það er ekki neitt komið fram um það enn þá a.m.k. Ég vil því eindregið leyfa mér að skora á hæstv. iðnrh., að bann taki á þessum málum mjög fljótlega, og þegar ég segi fljótlega, þá meina ég á allra næstu vikum, og einhverra úrræða verði leitað til að bæta þetta ástand. En ég vil endurtaka þakklæti mitt til hans fyrir að svara þessu svo fljótt.