26.03.1974
Sameinað þing: 69. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3124 í B-deild Alþingistíðinda. (2784)

273. mál, uppbætur á útfluttar ullarvörur

Jón Árnason:

Herra forseti. Um það mál, sem hér er hreyft, má segja, að það sé fyllilega tímabært að vekja athygli á því, og ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir þau svör, sem hann hefur gefið í sambandi við það. En eins og fram hefur komið í þeim umr., sem hér hafa þegar átt sér stað af hendi fyrirspyrjanda, og eins því, sem fram kom frá hæstv. ráðh., þá má öllum vera ljóst, að hér er um mjög alvarlegt mál að ræða hvað við kemur iðnaðinum í landinu og framtíðarmöguleikum hans til áframhaldandi rekstrar. Það segir sig sjálft, að eins og sveiflurnar eru miklar í sambandi við okkar útflutningsframleiðslu og þá ekki síst í sjávarútveginum, þá hefur það áhrif á alla aðra útflutningsframleiðslu í landinu og hinn unga iðnað; sem hér hefur verið gerður sérstaklega að umtalsefni. Og þegar það er svo, eins og átti sér stað á s.l. ári, að jafnvel ein tegund af sjávarútvegsframleiðslunni er tekin út úr og látin ráða, hver gengisskráningin er, og svo verða aðrir að starfa eftir því, þá sjá allir, að það er langt frá því að vera nokkurt vit í því að vera með slíkt kák í sambandi við gengisskráninguna. Það er enn þá síður ástæða til að vera með slíkar örar breytingar í þessu sambandi, þar sem starfandi er verðjöfnunarsjóður. Það er tekinn verulegur hluti, ef um verðhækkanir er að ræða hjá sjávarútveginum, og lagður til hliðar í verðjöfnunarsjóð, sem síðan er notaður til þess að mæta verðlækkun, þegar hún á sér stað.

Það er talað um að setja á stofn verðjöfnunarsjóð fyrir iðnaðinn. Það skiptir vitanlega miklu máli, hvernig á að byggja þann verðjöfnunarsjóð upp. Hann hefur orðið til í sambandi við sjávarútveginn, eins og fram hefur komið í þessum umr., vegna þess að það hafa verið svo miklar og örar verðhækkanir, sem hafa átt sér stað. En hjá framleiðslu eins og útflutningsiðnaðinum, hinum unga atvinnuvegi okkar Íslendinga, sem hefur alltaf haft of knappan rekstrargrundvöll, ef hann á að byggja sjálfur upp verðjöfnunarsjóðinn, þá segir það sig sjálft, að hann verður seint tilbúinn undir þeim kringumstæðum, Það verður því vitanlega að byggja á því, að verðjöfnunarsjóðurinn fái framlag úr ríkissjóði, til þess að hann geti orðið nokkurs megnugur til þess að koma að gagni í sambandi við þann rekstur.

Ég vil svo aðeins segja í þessu sambandi, að þegar það liggur fyrir, að atvinnuvegirnir standa jafnhöllum fæti og upplýst er og viðurkennt, þá gegnir það furðu, þegar hæstv. forsrh. kemur inn á Alþ., þegar verið er að ganga frá skattal. hér fyrir nokkrum dögum, og upplýsir, að innan fárra daga muni hann þurfa að leggja fyrir Alþingi sérstakar efnahagsráðstafanir vegna þess, hvað atvinnuvegirnir standa höllum fæti. En um leið og hæstv. forsrh. gerir þetta, leggur hann á þessa atvinnuvegi nýja þunga skatta, eins og launaskattinn upp á 2%, sem skiptir hundruðum millj. kr. Þetta eiga þessir atvinnuvegir að bera og bæta á sig, sem síðan þarf að gera sérstakar ráðstafanir fyrir alveg á næstu dögum, að því er upplýst er af hæstv, ríkisstj. Nei, það verður að taka þessi mál alvarlegri tökum en núv. ríkisstj. gerir, það segir sig sjálft.