26.03.1974
Sameinað þing: 69. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3125 í B-deild Alþingistíðinda. (2785)

273. mál, uppbætur á útfluttar ullarvörur

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég vil benda á, að það hefur verið að gerast mjög ánægjuleg þróun á undanförnum árum í sambandi við útflutningsiðnaðinn. Iðnaðarvörur hafa verið mjög vaxandi þáttur í heildarútflutninginum. Hitt er annað mál, að það er jafnljóst, að núv, gengisskráning er óhagstæð útflutningsiðnaðinum, og er mikil þörf á að kanna í því sambandi sérþarfir iðnaðarins.

Ég gat ekki betur heyrt í ræðu hæstv. ráðh. hér áðan en það væri verið að kanna þessi mál hjá ríkisstj., og efa ég ekki, að svo muni vera. Og ég vil jafnframt leggja mikla áherslu á það við hæstv. ráðh, að gefnu þessu tilefni, að það er mikil þörf á því að hraða þessum málum sem allra mest, vegna þess að hagur útflutningsiðnaðarins við það gengisskráningarkerfi, sem við nú búum við, er síður en svo góður. En þar með er ekki sagt, að það þurfi að taka upp neitt sérgengi eða fara að breyta genginu vegna iðnaðarins, eitthvað slíkt. Ég held, að það sé ekki heppilegri ráðstöfun. Enn sem komið er er hér ekki um svo stórar fúlgur að ræða, að ekki sé möguleiki á því að koma við öðrum efnahagsráðstöfunum, eins og t.d. því, sem hér hefur verið hreyft, að stofna sérstakan verðjöfnunarsjóð eða hreinlega að koma upp sérstöku uppbótakerfi í því sambandi. En það, sem ég vil alveg sérstaklega leggja áherslu á, er þetta, að það þarf að hraða aðgerðum til þess að tryggja hag útflutningsiðnaðarins.