26.03.1974
Sameinað þing: 70. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3126 í B-deild Alþingistíðinda. (2789)

234. mál, fjáraukalög 1971

(Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 398 er frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1971. Eins og fram er tekið í aths. með frv. þessu, hafa yfirskoðunarmenn ríkisreikninganna afhent fjmrn. í þessu tilfelli till. sínar til fjárveitinga í fjáraukalögum fyrir árið 1971. Þeir leggja til, að aukafjárveiting sé veitt fyrir öllum umframgjöldum, sem eru í ríkisreikningnum 1971, en á þessu ári urðu allmiklar umframfjárgreiðslur.

Á því eru nokkrar eðlilegar skýringar, m.a. vegna þess, að eftir að fjárlög voru samþykkt, var samþ. hér á hv. Alþ. frv. um breyt. á vegal. á þann veg, að bensinskattur var hækkaður verulega frá því, sem gert hafði verið ráð fyrir, þegar fjárlög voru afgreidd. Sömuleiðis var á fjárl. ekki gert ráð fyrir því að halda niðurgreiðslum þeim, sem þá voru ákveðnar, nema til 1. sept., en síðan var ákveðið að halda þeim út allt árið 1971. Í þriðja lagi reyndust útflutningsuppbætur allmiklu meiri á þessu ári en reiknað hafði verið með. Í fjórða lagi var það svo, að þegar fjárlög voru afgreidd, voru kjarasamningar opinberra starfsmanna nýgerðir, eða gerðir nóttina áður en endanlega var gengið frá fjárl. hér á hv. Alþ. og launahækkanir því ekki færðar á einstök rn., svo sem síðar var gert, þegar ríkisreikningurinn var afgreiddur.

Samkv. þessum fjáraukal. hafa fjárlagagreiðslur farið 23% fram úr því, sem fjárlög gerðu ráð fyrir á þessu ári, en hæstu umframgreiðslur, sem hafa verið, voru á árunum 1964, þá 25%, 1965 28% og 1966 24.6%.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta fjáraukalagafrv., enda gerði ég grein fyrir ríkisreikningnum, sem það er byggt á, hér í hv. d. Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til síðari umr. og hv. fjvn.