05.11.1973
Neðri deild: 14. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í B-deild Alþingistíðinda. (280)

Umræður utan dagskrár

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson) :

Herra forseti. Ég er nú svo lítt þingvanur, að ég treysti mér ekki til að segja um, hvort það teljist þingleg vinnubrögð, að borin sé upp í d. til skiptis sama fsp., samdægurs og næstum á sömu mínútu. Þeim spurningum, sem bornar eru fram hér, var ég að enda við að svara í hv. Ed., þar sem hv. 3. þm. Reykn. bar þær fram. Það er skylt að geta þess, að bæði hann og 3. landsk. þm. höfðu gert mér viðvart fyrir fram, að þeir hygðust spyrjast fyrir um þetta mál, en þar sem 3. þm. Reykn. gaf sig fram á undan, lét ég það ganga fyrir að svara hans fsp. í hv. Ed.

Svar við þeim kjarna málsins, sem vakið hefur hreyfingu meðal læknanema og orðið tilefni til þessarar fsp., sem sé ákvörðun læknadeildar um að beita heimild til fjöldatakmörkunar, er í stuttu máli hið sama og ég veitti fulltrúum læknadeildar, þegar þeir ræddu við mig á föstudag. Það er afstaða mfn, að fjöldatakmörkun af því tagi, sem ákveðin hafði verið af læknadeild, sé óviðunandi, bæði, eins og fyrirspyrjandinn tók fram, gagnvart nemunum, sem í hlut eiga, og gagnvart því þjóðfélagi, sem á að njóta starfa þeirra að námi loknu. Þetta er mín afstaða í þessu máli.

Þá kemur að sjálfsögðu til álita, hverjar ráðstafanir unnt sé að gera til þess að bæta úr því, sem sérstaklega er áfátt í starfsaðstæðum læknadeildar og hefur orðið þess valdandi, að þar hefur verið tekin sú ákvörðun um fjöldatakmörkun, sem til umr. er. Um það vil ég í stuttu máli segja þetta:

Bráðabirgðaráðstafanir vegna húsnæðisskorts pre- og paraklínískra deilda hafa verið gerðar þessar á síðustu árum: Haustið 1971 voru með samþykki menntmrn.- og fjmrn. gerðir samningar um leigu af hálfu Háskóla Íslands á umfangsmiklu húsnæði á tveimur stöðum í borginni til afnota fyrir kennslu inngangsgreina í læknadeild. Var þar um að ræða um það bil 1100 m2 húsnæði í Ármúla 30, sem tekið var á leigu til 10 ára, og u. þ. b. 400 m2 húsn. að Grensásvegi 12, tekið á leigu til ársins 1975. Húsnæðið í Ármúla 30 var ætlað til kennslu í líffærafræði og lífefnafræði, svo og fyrirlestrakennslu í efnafræði og eðlisfræði. Einnig var ráðgert, að læknanemar á fyrri stigum náms fengju þar lestraraðstöðu. Að Grensásv. 12 var ætlaður staður fyrir kennslu í lífeðlisfræði, en í sama húsi fer einnig fram kennsla í þeirri grein ásamt líffræði á vegum verkfræði- og raunvísindadeildar. Hvort tveggja húsnæðið var innréttað sérstaklega vegna afnota Háskólans og kostnaður við það greiddur úr byggingarsjóði hans. Þetta húsnæði var tekið í notkun á sl. háskólaári. Með þessum ráðstöfunum var á sínum tíma talið, að húsnæðisþörf umræddrar greinar yrði að verulegu leyti leyst fyrir næstu ár, jafnvel allt þar til nýbyggingar fyrir læknadeild kæmu til skjalanna.

Á þessu ári hefur hins vegar komið í ljós, að læknadeild telur þörf frekari bráðabirgðaráðstafana, m. a. vegna líffærafræðikennslu. Er í því sambandi þess að geta, að óvenjulegur fjöldi stúdenta innritaðist í læknadeild haustið 1972 og mun meiri en gert hafði verið ráð fyrir. Þessi mál eru til meðferðar hjá stjórnvöldum Háskólans. Í ályktun háskólaráðs 1. nóv. s. l. er bent á þá leið, að húsnæðisskortur hinna svonefndu pre- og paraklínísku greina verði leystur með verksmiðjuframleiddum einingahúsum, er notuð verði sem rannsóknarstofur og kennsluhúsnæði, meðan undirbúningur og framkvæmdir nýbygginga standa yfir. Rn. telur sjálfsagt, að þessi leið verði könnuð á grundvelli ítarlegrar athugunar á umræddum húsnæðisþörfum. En það skal skýrt tekið fram, að sú samþykkt háskólaráðs frá 1. nóv., sem hv. fyrirspyrjandi greindi frá og hér er tekin afstaða til, er fyrsta ótvíræða afstaðan, sem háskólayfirvöld hafa beint til menntmrn. um það, hver nú sé þörf bráðabirgðaráðstafana á þessu sviði.

Um klíníska kennslu á Borgarspítala og Landakotsspítala má segja, að í bréfi til deildarforseta læknadeildar Háskóla Íslands 14. júní s. l. lýsti menntmrn. þeirri stefnu, að við menntun lækna bæri að leitast við að nýta sem best aðstöðu í öllum sjúkrahúsum í Reykjavík og öðrum heilbrigðisstofnunum. Var talið æskilegt, að læknadeild gerði í samráði við forráðamenn viðkomandi stofnana áætlun um, hvernig slíku samstarfi milli stofnananna og Háskólans yrði með hagkvæmum hætti á komið. Um sama leyti beitti rn. sér fyrir því, að fengin var heimild til að stofna tvær hlutastöður dósenta, tengdar sérfræðistörfum við handlækningadeild og lyflækningadeild Borgarspítalans. Eftir viðræður milli forráðamanna Borgarspítalans og læknad. óskuðu þessir aðilar eftir því í bréfi til menntmrn. 17. sept. s. l., að þessar tvær dósentsstöður yrðu auglýstar lausar til umsóknar, og hefur það verið gert. Í framangreindu erindi var tekið fram, að samkomulag um stöður þessar væri bundið því skilyrði, að Háskóli Íslands og menntmrn. skuldbyndu sig til að sjá fyrir viðunandi kennsluaðstöðu, bæði hvað snertir húsnæði og tækjabúnað, umfram það, sem Borgarspítalinn gæti þegar látið í té. Í tilefni af því óskaði rn. eftir því með bréfi 26. sept. s. l., að forráðamenn læknadeildar Háskóla Íslands og Borgarspítalans hefðu samstarf um samantekt grg. um, hvaða úrbætur væru taldar nauðsynlegar, til þess að kennsluaðstaðan yrði talin viðunandi.

Í fjárl. 1973 var veitt fé til að koma á nýjum kennarastöðum í læknadeild sem hér segir: Prófessorsembætti í heimilislækningum, hlutastöðu dósents í stað hlutastöðu lektors í líffærameinafræði, þremur hlutastöðum dósenta í stað fullrar lektorsstöðu í lífefnafræði, fullri lektorsstöðu í lífeðlisfræði, fullri lektorsstöðu í lyfjafræði, hálfri lektorsstöðu í lífefnafræði, tveimur öðrum hlutastöðum lektora og loks aðjúnktstarfi í lyfjafræði. Hafa allar þessar stöður verið auglýstar lausar til umsóknar nema prófessorsembættið í heimilislækningum, sem læknadeild taldi ekki tímabært að stofna á þessu ári.

Í frv. til fjárl. fyrir árið 1974 er gert ráð fyrir fjárveitingum til nýrra kennslustarfa í læknadeild sem hér segir: Prófessor í taugasjúkdómum, sem kemur í stað hlutastöðu dósents í þeirri grein. Fullt dósentsstarf í bæklunarlækningum, 4 hlutastöður dósenta í lyflæknis- og handlæknisfræði og aðjúnktstarfi í verklegi lífeðlisfræði. Menntmrn. hafði við undirbúning fjárlagafrv. lagt til, að til viðbótar yrði veitt til prófessorsembættis í félagslækningum, hálfrar dósentsstöðu í lífeðlisfræði, tveggja hlutastaða dósenta í lyflæknis- og handlæknisfræði og annars aðjúnktstarfs í verklegri lífeðlisfræði. Þá hafði menntmrn. og lagt til, að veitt yrði fé til stöðu deildarritara fyrir læknadeild, en sú fjárveiting er ekki í fjárlagafrv. Hins vegar telur rn. brýna nauðsyn á, að leiðrétting verði gerð í því efni, og hefur gert ráðstafanir til. að það mál verði tekið upp við meðferð fjárlagafrv. á Alþ.

Þetta tel ég þau svör, sem ég get sem stendur gefið við fyrstu spurningu fyrirspyrjanda. Önnur spurningin er sú, hvort ég telji ekki athugandi að nema úr gildi ákvæði í reglugerð um takmörkun á aðgangi að læknanámi. Þar er til að svara, að telji ég, að þess gæti nokkru sinni, meðan ég fjalla um þessi mál, að læknadeild sýni óbilgirni og misnoti þetta ákvæði, þá mun ég ekki hika við að nema það úr gildi.

Þá er þriðja spurningin, hversu tryggja beri eðlilega þróun læknadeildar og kennslu læknanema á næstu árum. Ég vil vekja athygli á því, að það er ekki nýtilkomið, að erfiðleika gæti í læknadeild vegna kennsluaðstöðu. Það eru nú liðin, að ég held 16 ár síðan í fyrsta skipti var teiknað læknadeildarhús. Það hús er órisið enn, og byggingarmál læknadeildar hafa verið á hrakhólum, ég vil segja áratugum saman. Ég ætla mér ekki að rekja á þessum stað, — mig brestur bæði tíma og nákvæma þekkingu til þess, — að lýsa því með vissu, hverjir beri þar ábyrgð á, en mín afstaða er sú, að eins og nú er komið sé úrræðið, þegar fram í tímann er litið, eitt og aðeins eitt: að knýja á með, að framkvæmd verði sú áætlun, sem þegar liggur fyrir um byggingu yfir kennsluspítala á lóð Landsspítalans.