27.03.1974
Efri deild: 89. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3137 í B-deild Alþingistíðinda. (2807)

178. mál, Félagsmálaskóli alþýðu

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Eins og þegar hefur komið fram og hv. frsm. vék að, höfum við hv. 6. þm. Reykv. borið fram brtt. á þskj. 563. Þessi till. felur í sér breytingu á stjórn skólans frá því, sem frv. gerir ráð fyrir.

Í frv. er gert ráð fyrir að stjórn skólans sé í höndum þriggja manna skólanefndar. Við hv. 6. þm. Reykv. leggjum til, að stjórn skólans sé í höndum 5 manna skólanefndar, sem félmrh. skipar. Skulu tveir skólanm. skipaðir eftir sameiginlegri tilnefningu Menningar- og fræðslusambands alþýðu og Alþýðusambands Íslands, það er eins og frv. sjálft gerir ráð fyrir, einn verði skipaður eftir tilnefningu Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, einn eftir tilnefningu Bandalags starfsmanna ríks og bæja og einn eftir tilnefningu Vinnuveitendasambands Íslands. Þá gerir brtt. okkar ráð fyrir, að ráðh. skipi formann skólanefndar úr hópi þeirra, sem tilnefndir eru, og varamenn verði skipaðir með sama hætti.

Hv. frsm. n. vék að þessari till. og mælti gegn henni. Sérstaklega vék hann að þýðingu þess, ef Vinnuveitendasamband Íslands fengi aðild að þessum skóla. Taldi hv. þm., að það væri ekki spor í rétta átt og með þeim hætti væri verksvið skólans, eins og gert er ráð fyrir því í frv., útvíkkað. Það væri farið út fyrir þann ramma, sem frv. gerir ráð fyrir. Ég verð algerlega að mótmæla þessari fullyrðingu. Þvert á móti tel ég, að við fyllum eðlilega út í þann ramma, sem frv. gerir ráð fyrir, með því að ætla Vinnuveitendasambandi Íslands aðild að stjórn skólans. Þetta segi ég vegna þess, að það er skýrt tekið fram, hvert verkefni skólans eigi að vera, í 2. gr. frv. Þar er m.a. tekið fram, að Félagsmálaskóli alþýðu skuli veita fræðslu um hagsmunasamtök atvinnurekenda, starfshætti þeirra og markmið. Þetta verkefni er sett jafnfætis hinu verkefninu, sem félagsmálaskólanum er ætlað, þ.e.a.s. að veita fræðslu um sögu, starf og stjórn stéttarfélaga og baráttu þeirra fyrir bættum lífskjörum alþýðustéttanna. Ég fæ ekki betur séð en það sé í fullkomnu samræmi við þetta ákvæði einmitt að gera ráð fyrir, að Vinnuveitendasamband Íslands hafi aðild að stjórn skólans og hafi einn fulltrúa af 5 í skólanefnd.

Eins og kom fram hjá hv. frsm. mælti Vinnuveitendasamband Íslands með samþykkt þessa frv. Vinnuveitendasambandið kom með tvær ábendingar um breytingar, önnur varðar námsatriði og hin um stjórn skólans, að fá 1 fulltrúa í skólann. Eins og þegar hefur komið fram, var n. sammála um að taka tillit til óska Vinnuveitendasambandsins varðandi námsefni, og gengur því brtt. 1 á þskj. 556 í þá átt, sem Vinnuveitendasambandið óskaði. Einmitt það, að félmn. féllst á þessa till. Vinnuveitendasambandsins skýtur enn stoðum undir þá sjálfsögðu afstöðu að taka og tillit til hinnar óskarinnar, þ.e.a.s. að Vinnuveitendasambandið fái aðild að stjórn skólans. Það var ástæða til að gera slíkt, þó að þessi breyting væri ekki gerð á námsefninu, sem Vinnuveitendasambandið fór fram á, hvað þá þegar búið er að ganga til móts við Vinnuveitendasambandið í þessu efni.

Það mætti færa ýmis rök fyrir því, að sjálfsagt sé, að einmitt á þessum vettvangi mætist á vissan hátt báðir aðilar vinnumarkaðarins, Alþýðusamband Íslands og Vinnuveitendasamband Íslands. Það væri að sjálfsögðu eðlilegt, ef menn meina eitthvað með því, að stuðla að auknum skilningi milli aðila vinnumarkaðarins, sem gæti leitt til aukins vinnufriðar í landinu, en ég skal ekki fara út í þessa sálma nú. Mér virðist, að þetta sé svo augljóst mál. að þess gerist ekki þörf.

Þá er það annað atriði í brtt. okkar hv. 6. þm. Reykv., sem ég vil koma að og hv. frsm. n. vék og að. Það er till. okkar um það, að Farmanna- og fiskimannasamband Íslands tilnefndi einn mann í skólann, og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja annan.

Það fer ekki á milli mála, hve þýðingarmikil þessi samtök hæði eru varðandi samskipti vinnuveitenda og launþega í landinu. Og í raun og veru eru öll sömu rökin fyrir því, að þessi mikilvægu samtök launþega eigi aðild að skólan., og að veita Alþýðusambandi Íslands aðild. Þó tel ég fullkomlega eðlilegt, að aðild Alþýðusambands Íslands sé meiri en þessara samtaka hvors fyrir sig, enda gerum við, sem stöndum að brtt. á þskj. 563, ráð fyrir því, að það haldist óbreytt, sem frv. sjálft gerir ráð fyrir, að Alþýðusambandið raunverulega hafi 2 fulltrúa í skólanefnd.

Mér þykir, hæstv. forseti, þetta mál vera þess eðlis, að full ástæða sé til að vænta þess, að hv. dm. sjái ástæðu til að samþykkja þessa brtt. okkar á þskj. 563, því hún mundi verða til þess að styrkja og búa betur að þeirri stofnun, sem við erum öll sammála um, að sett sé á fót, Félagsmálaskóla alþýðu.