27.03.1974
Efri deild: 89. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3140 í B-deild Alþingistíðinda. (2809)

178. mál, Félagsmálaskóli alþýðu

Frsm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Það er dálítið skemmtilegt og í raun og veru svolítið virðulegt að vera allt í einu kominn hátt í það í aðstöðu ráðh. hér uppi og svara spurningum af því tagi, sem hér voru bornar fram. Ég tala nú ekki um það, eins og hv. síðasti ræðumaður talaði um, að honum fyndist ósköp eðlilegt, að ég vissi einnig hugsun hæstv. ráðh. í þessu máli. Það er vissulega mikið traust, sem mér er sýnt með því, að ég geti áttað mig á því, hver hafi verið hugsun hæstv. ráðh. í einstökum atriðum hvað frv. þetta snertir. Ég er ekki svo vel að mér, að ég geti sagt til um það, og eins er nú um sumar þessara spurninga, að þær eru hreinlega þess eðlis, að þar hlýtur ráðh. einn úr að skera, enda held ég, að það sé nú svo með flest þeirra lagafrv., sem hér eru lögð fram að þar séu ótalin atriði, sem sé blátt áfram ráðið fram úr með reglugerðarákvæðum, og þau fari hér í gegnum þingið einfaldlega án þess, að þau liggi ljóst fyrir, eins og hv. ræðumaður var að benda á.

Ég skal hins vegar alveg lýsa því yfir, að einmitt það, hvað mikið vald felst oft í hinum einstöku reglugerðum og hvað túlkun þeirra getur oft verið ákveðin á ýmsum greinum og afgerandi í sambandi við ýmsar greinar lagafrv., sú stefna að láta reglugerðirnar jafnvel stjórna að töluverðu leyti framkvæmd laganna, jafnvel meira en mætti lesa út úr sjálfum lagagr., er stefna, sem á ekki upp á pallborðið hjá mér yfirleitt. En ég reikna með því, að sum af þessum atriðum, sem hér var spurt um, eigi þarna hreinlega við hvað snertir reglugerðarákvæði og komi síðar til álita.

Hv. þm. Halldór Blöndal sagði, að hann hefði hreyft þessu hér við 1. umr. Mér þykir nú örlítið leitt, að ég skyldi ekki hafa athugað það að lesa Alþingistíðindin í sambandi við þetta mál, vegna þess að ég var fjarverandi, þegar þetta mál kom til umr. Ég vil hins vegar mótmæla því algerlega, að hæstv. ríkisstj. sé að draga launþega í einhverja dilka varðandi þennan skóla t.d. Það vill nú einu sinni svo til, að launþegasamtökin sjálf hafa dregið sig í vissa dilka, aðskilda dilka, sem ekki hefur verið allt of gott samstarf á milli oft og tíðum, og þetta veit hv. ræðumaður ákaflega vel um. Það eru þessi félög sjálf og félagsmenn þeirra, sem hafa skipað sér í hin ýmsu hagsmunafélög, og ég held, að hæstv. ríkisstj. hafi ekkert beitt sér fyrir því að skilja þar meira í sundur en saman hefur verið tengt eða til stofnað af þessum félögum sjálfum. Ég held þess vegna, að það sé misskilningur. Ég hef hins vegar litið á þetta frv., eins og ég tók fram áðan, sem frv. um félagsmálaskóla verkalýðshreyfingarinnar, eins og segir í aths. við frv. Og ég ræddi þetta mál einmitt við hæstv. félmrh., sem sagði það eindregið sína skoðun, að þetta væri félagsmálaskóli sem væri í beinum tengslum við þessi stéttasamtök, við Alþýðusamband Íslands. Þetta væri gert skv. sérstöku samkomulagi við þessi samtök. Um það vil ég svo ekki fara neitt frekari orðum, því að það er ekki rétt, að hér sé verið að hafa allt of mikið eftir fjarstöddum ráðh., ég vil ekki gera það. Og ég býst ekki við því, að hvorki félögum BSRB né Farmanna- og fiskimannasambandsins verði beinlínis meinaður aðgangur að skólanum. Ég hef ekki mikla trú á því út af fyrir sig. En ég hef bara litið svo á, að þetta væri skóli verkalýðshreyfingarinnar, og hvað sem líður öllum launamismun innan hinna einstöku samtaka, hef ég hingað til lagt þann skilning á í sambandi við verkalýðshreyfinguna, að það væru þau félagasamtök, sem væru innan Alþýðusambands Íslands. Ég er t.d. ekkert viss um það, að félagar okkar í Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja séu á því, að þeir eigi að teljast til hinnar eiginlegu verkalýðshreyfingar, — ég stórefa það. Það er langt frá því, að ég sé í nokkru andvigur því, að slíkur félagsmálaskóli komist á fyrir alla þessa aðila. Það er langur vegur frá. Ég álít það einmitt mjög eðlilegt og sjálfsagt, að ríkisvaldið stuðli að því, að allir þessir aðilar eigi kost á að njóta þessarar fræðslu, sem hér er um rætt. Ég hef aðeins litið svo á, að þetta væri það einangrað við verkalýðshreyfinguna, og hef skilið það á hæstv. ráðh., og ef menn ætluðu að breyta þessu, þá yrði það ekki með skólanefndarskipan einni, heldur yrði hreinlega að breyta frv. verulega og taka það skýrt og skorinort fram, að þessir aðilar allir ættu hreinlega aðild og möguleika á því að sækja þennan skóla. Ég skyldi út af fyrir sig ekki hafa neitt á móti því, en þá yrði það um leið að vera tryggt, að samstarf þessara þriggja aðila: Alþýðusambands Íslands, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og Farmanna- og fiskimannasambandsins, um þetta mál lægi fyrir, að þessir aðilar væru reiðubúnir til þess að standa sameiginlega að slíkum skóla. Um það þori ég ekkert að fullyrða. Það kann vel að vera, að þessir aðilar séu til þess reiðubúnir, en um það þori ég ekkert að fullyrða á þessu stigi málsins. Ég hef litið á þetta sem algerlega einangrað við verkalýðshreyfinguna og hef því talið, að skólanefndaraðild í þessu tilfelli ætti að vera fyrir hana eina.

Ég skal ekki fara út í það, sem hv. 5. þm. Vestf. talaði um, þennan aukna skilning milli launþegasamtaka og atvinnurekenda. Vafalaust er mikið til í því, og ekki skal ég neita því, að þar þurfi að vera góður skilningur. En hagsmunaástæðurnar rekast þar svo harkalega á og gera ævinlega, að þar hlýtur margt annað að verða að gilda en eintómur kærleikur.

Hv. þm. Halldór Blöndal býsnaðist hér mikið yfir því, hvernig hæstv. ríkisstj. hefði misgert við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja. Ekki skal ég fara út í það, hvort hún hefur á einhvern hátt brotið á því lög. Hafi hún gert það, þá er það auðvitað staðreynd, að það hefur áður verið gert, og það þyrfti þá fleiri að sækja til saka varðandi það atriði, ef út í það mál ætti að fara nánar. Og ég held, að við hv. þm. ættum ekkert að vera að metast á um það hér, hvor þeirra ríkisstj., hæstv. núv. ríkisstj. eða sú hæstv. ríkisstj., sem hann marglofar í sífellu af eðlilegum ástæðum, viðreisnarstjórnin, hafi meira misgert við opinbera starfsmenn. Ég vil einnig benda á það, að sú skipan mála, sem í málefnum opinberra starfsmanna hefur verið tekin upp varðandi það, þegar ekki næst samkomulag um kjör þeirra, þ.e.a.s. kjaradómur, var ekki heldur fundin upp af hæstv. núv. ríkisstj. Það var önnur ríkisstj., sem kom honum á, og við getum vafalaust deilt um það, hvort þessi kjaradómur sé réttlátur eða ekki og hversu réttlát verk hans hafa verið. En sem sagt, ég skal standa að því með hv. þm., að koma á þeim félagsmálaskóla sem allir þessir aðilar ættu aðild að. Það skal ég svo sannarlega gera. En þá vil ég, að það sé fullkomlega tryggt og liggi ljóst fyrir og hafi áður farið fram um það viðræður milli þessara hagsmunasamtaka, að þau geti sameiginlega staðið að skóla og komið sér saman um allt fyrirkomulag þar. Það skal ekki standa á því.

En varðandi aðrar spurningar, eins og t.d. um það, hvort kennarar þessara skóla verði opinberir starfsmenn, og önnur þau atriði, sem þar eru, um þau skal ég játa mig fáfróðan. Ég hef ekki hugsað það mál til fulls eða spurst beinlínis fyrir um það, en þar sem ríkissjóður er þarna kostnaðaraðili að, þá held ég í fljótu bragði, að það hljóti að vera eðlilegast, að þeir séu opinberir starfsmenn. Ég legg líka sérstaka áherslu á það, að þeir, sem verða ráðnir að þessum skóla, og þá að félagsmálaskóla launþegasamtakanna yfirleitt, ef bann kæmist á, mega vitanlega ekki vera aðrir en vel menntaðir menn í sínum greinum og hafa til þess fulla getu, að bera þá fræðslu á borð, sem þar á að halda uppi.