27.03.1974
Efri deild: 89. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3143 í B-deild Alþingistíðinda. (2810)

178. mál, Félagsmálaskóli alþýðu

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Hv. þm. Helgi Seljan verður að afsaka það, þótt ég beini ekki fsp. til hæstv. ráðh., þegar hann hefur tilkynnt veikindaforföll. Það var ekki um annað að gera en annaðhvort að láta vera að fjalla um frv. eða reyna að koma skoðunum sinum á framfæri.

Ég skal ekki tala frekar um það, að ég lýsi óánægju minni yfir því, að þannig skuli staðið að þessu máli, að ekki er ætlast til þess af hæstv. ríkisstj., að allir launþegar hafi þarna sama rétt, hvar sem þeir standa. Það eru til menn, hvernig sem litið er á orðið verkamaður, úr þeim hópi innan Farmanna- og fiskimannasambandsins og einnig innan Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Hvernig svo sem á það er litið og hvernig sem litið er á orðið verkalýðshreyfing, þá er ómögulegt gersamlega að útiloka þessi samtök af þeim ástæðum. Það er ekki nokkur leið, það veit þessi hv. þm. jafnvel og ég. Hinu hlýt ég að fagna, og það var tilgangurinn með því, að ég kvaddi mér nú hljóðs í annað sinn, að hv. þm. Helgi Seljan skyldi lýsa því yfir, að ekki skyldi standa á honum að standa með mér í því, að þessi félagsmálaskóli skuli ná til allra þessara aðila, bæði innan Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, innan Farmanna- og fiskimannasambandsins og einnig innan Alþýðusambands Íslands. Ég þykist því vita það, að hvernig svo sem fer við 2. umr. þessa máls, þá muni okkur takast á milli umr. að finna á því einhvern flöt, hvernig við getum samræmt þessi sjónarmið okkar, þannig að tryggt sé, að þessi félagsmálaskóli nái til allrar launþegahreyfingarinnar, og fundin verði leið til þess, að þeim aðilum, sem fúsir eru til samstarfs um slíkan skóla, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og Farmanna- og fiskimannasambandið, ef það liggur fyrir, að þessi samtök vilja taka þátt í þessum skóla, verði þeim tryggt það, bæði með því að skipa mann í stjórn skólans og einnig með því að tryggja þeim skólavist. Ber að harma í því sambandi, að þessu frv. skyldi ekki hafa verið vísað til þessara heildarsamtaka af n., eins og rétt hefði verið, m.a. vegna þeirrar ábendingar, sem ég kom með strax við 1. umr. málsins.