27.03.1974
Efri deild: 89. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3144 í B-deild Alþingistíðinda. (2811)

178. mál, Félagsmálaskóli alþýðu

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hv. 2. þm. Norðurl. e. hefur komið inn á ýmis atriði, sem ég hefði talið ástæðu til að víkja að, en ég skal ekki gera það þess vegna.

Ég verð að segja það, að ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum með afstöðu hv. 6. landsk. þm., því að hann hafði í raun og veru allt á hornum sér varðandi það, að þessi launþegasamtök, sem nefnd eru í till. okkar hv. 6. þm. Reykv., skuli geta staðið að félagsmálaskólanum. En eftir því sem leið á, varð ég nokkru ánægðari með afstöðu hv. 6. landsk., og í raun og veru hef ég kannske ekki að svo stöddu undan neinu að kvarta frá hans hendi. Ég vil þó aðeins víkja að einu eða tveim atriðum, sem hann gat um eða fullyrti um.

Hann fullyrti, að það þyrfti að breyta frv. í heild, ef till. okkar hv. 6 þm. Reykv. væri samþ. um skipan skólanefndar. Ég mótmæli þessari fullyrðingu algerlega. Ég tel, að frv. þurfi af þessum sökum ekki að breyta neitt. Það eru svo rúm ákvæði um skólann, — um hlutverk hans, í 1. gr. frv., um starfsemi hans í 2. gr., og raunar um önnur atriði, sem máli skipta, að það þarf ekki að gera neina gerbreytingu á þessu frv., þó að sú regla sé tekin upp um skipan skólanefndar, sem við hér leggjum til.

Hv. þm. vildi ekki mótmæla því, að það gæti verið í sjálfu sér góðra gjalda vert, ef með þessum skóla væri hægt að stuðla að skilningi milli aðila vinnumarkaðarins. En það var svo að heyra á honum, að hann óttaðist, að það gæti verið gengið of langt í þessu efni, og hann tók það fram, að ekki mætti ríkja eintómur kærleikur þarna á milli. Ég verð að segja það, að flestir, sem hugsa alvarlega um þessi mál í dag, mundu segja, að það skaðaði ekkert og það væri hættulaust, þó að við ynnum afdráttarlaust og af eindrægni að því að efla skilning milli aðila vinnumarkaðarins, og við þyrftum ekkert að óttast, þó að kærleikurinn ykist milli þessara aðila.

Mér þykir þessi ummæli benda til nokkurs skilningsskorts hv. þm. á grundvallaratriði í okkar þjóðfélagi og þeirri þjóðfélagsuppbyggingu.

Þá sagði hv. þm., hv. 6. landsk., að það þyrfti að kanna, hvort nokkur vilji væri fyrir hendi hjá hinum fjölmennu launþegasamtökum, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, um að eiga aðild að þessum skóla, og það þyrfti að koma sér saman um fyrirkomulag þessarar aðildar. Hv. þm. talaði svo sem hann héldi, að það, sem hér væri um að ræða, væri það að leggja sérstaklega miklar byrðar og skyldur eða kvaðir á hendur þessum aðilum. Það er alger misskilningur. Í raun og veru er ekki hægt að tala um, að það yrðu lagðar neinar kvaðir á þessi launþegasamtök, þó að þau fengju réttinn til þess að skipa, hvort fyrir sig, einn mann í skólanefnd. Við skulum hafa í huga, að þetta frv. gerir ráð fyrir því, að allur kostnaður af þessum skóla verði greiddur úr ríkissjóði. Og auðvitað mundi engin breyting verða á því, þó að launþegasamtökin, sem ættu aðild að skólanefnd, væru þrjú í staðinn fyrir eitt. En fyrst það er komin hér upp sú skoðun, að það kunni að vera svo, að þessum launþegasamtökum, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, sé ekki hugleikið að eiga aðild að skólanum, þá þykir mér, sjálfsagt að athuga þetta. Ég hygg, að það sé auðgert og fljótgert og það megi gera á milli umr. Með tilliti til þess, að ég þykist vita, að allir hv. þdm., og ekki síður hv. 6. landsk., en aðrir muni vilja hafa það, sem sannara reynist, og muni þá styðja þá brtt., sem hér liggur fyrir, ef það kemur jákvætt svar frá þeim aðilum, sem hér um ræðir, þykir mér rétt að draga brtt. okkar hv. 6. þm. Reykv. til baka við þessa umr. til 3. umr.