27.03.1974
Efri deild: 89. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3145 í B-deild Alþingistíðinda. (2812)

178. mál, Félagsmálaskóli alþýðu

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Það mál, sem hér er til umr., hefur átt sér margra ára aðdraganda hér á hv. Alþingi, og búið að ræða það með ýmsu móti, bæði sem þál. og í frv.- formi. Ég verð að játa það, sem mína persónulegu skoðun, að ég tel það mjög eðlilegt, að þær brtt., sem hér hafa verið fram lagðar, séu dregnar til baka til 3. umr., þannig að tími gefist til þess að átta sig á þeim.

Í öðru lagi vildi ég þó ekki, að þessari umr. lyki svo, að mín persónulega skoðun kæmi ekki fram á till. sjálfum. Ég tel það vera því skólaformi, sem hér er hugsað, til góðs, að þátttakendur að stjórn skólans séu fleiri aðilar en gert er ráð fyrir í hinu upphaflega frv., enda hafa Alþfl: menn flutt um það till. oft áður. Ég tel einnig, að vinnumarkaðinum sjálfum veiti ekki af því að bæta svo sem verða má um fræðslu þeirra aðila, sem þar eigast við með eðlilegum og lýðræðislegum bætti, enda beinlínis gert ráð fyrir því, að eitt af þeim atriðum, sem um skal fjallað eða frætt um í þessum skóla, sé starfsemi vinnuveitendasamtakanna. Nú ætti það e.t.v. ekki að vera sérstakt verkefni mitt, sem Alþfl: manns að mæla með þátttöku atvinnurekenda í stjórn skólans, en ég tel með hliðsjón af því kerfi, sem þar á í gang að komast með stofnun skólans, að þá sé eðlilegt, að ein rödd af t.d. fimm heyrðist, og gæti ekki með nokkrum hætti, að ég best fæ séð, skaðað skólann á einn eða annan hátt, heldur ætti að vera honum til frekari fyllingar í daglegu starfi. Ég sakna þess einnig, að ekki skuli vera gert ráð fyrir samtökum opinberra starfsmanna og Farmannasambandsins í slíkum skóla sem þessum. Það er svo veigamikið atriði, sem þarna á að fræða alþýðu fólks um, og að gera menn hæfari til samningagerðar með hagfræðilegum upplýsingum og öðru slíku, að ég sé ekki í dag, að það geti skaðað slíka skólastofnun á einn eða annan hátt, þó að þessir aðilar ættu þarna sinn fulltrúa í. Mér finnst málið vera sanngirnismál og gæti ekki leitt til annars en að meiri eining ríkti á þessum sviðum, sem svo mjög hefur á skort á undanförnum árum og áratugum.

Það er jafnframt alveg eindregin skoðun mín, að verkalýðssamtökin eigi að hafa þarna óskoraðan meiri hl. og ráða allri framvindu skólans. En jafnframt undirstrika ég þá skoðun mína, að ég fæ ekki í dag séð, að þátttaka fleiri aðila um stjórn skólans gæti með nokkrum hætti skaðað hann.

Vandamálið við þetta hygg ég vera það, hvar eigi að draga línuna um það, hverjir séu launþegar. Það finnst mér vera aðalvandinn. Ef við hefðum tekið inn, sem mér finnst heldur ekki óeðlilegt, BSRB og Farmannasambandið, hví þá ekki einhverja fleiri, sem í dag eru utan ASÍ. Þennan vanda skil ég vel og vil reyna að setja mig inn í og nota til þess tímann á milli umr., en mér finnst hin hliðin, sem ég áðan minntist á, um þátttöku fleiri aðila vera hreint sanngirnismál, svo eðlilegt, að ekki geti með neinum hætti skaðað skólann.