27.03.1974
Efri deild: 89. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3149 í B-deild Alþingistíðinda. (2818)

181. mál, kaupstaðarréttindi til handa Grindavíkurhreppi

Frsm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Um þetta frv. gildir að mestu hið sama og um frv. það, sem hér var til umr. næst á undan, og vísast að því leyti til þeirra orða, sem þá féllu um það frv.

Félmn. mælir með samþykkt þessa frv. með breyt., sem eru í nál. á þskj. 568. Fyrri brtt., sem þar getur, lýtur að því, að sýslumaður Gullbringusýslu og bæjarfógetinn í Keflavik verði jafnframt bæjarfógeti kaupstaðarins. Hin síðari lýtur að niðurfellingu 3. gr. frv., þar sem þau málefni, sem í þeirri gr. getur, fara ekki á milli embætta, heldur verða eftir sem áður hjá sýslumanni Gullbringusýslu og bæjarfógeta Keflavíkur.

Ég held, að ég þurfi ekki frekar að greina frá þessu málefni. Það liggur alveg ljóst fyrir, og eins og ég sagði mælir n. eindregið með samþykkt þessa frv. með þeim breyt., sem greinir í nefndu þskj.