27.03.1974
Neðri deild: 90. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3167 í B-deild Alþingistíðinda. (2837)

176. mál, jarðgufuvirkjun við Kröflu eða Námafjall

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Ég vil í fyrsta lagi lýsa ánægju minni yfir því, að þetta frv. skuli hafa verið borið fram hér á hinu háa Alþ. um að stofna til jarðgufuvirkjunar við Kröflu eða við Námafjall. Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að sú leið mun verða fljótvirkust og hagkvæmust til þess að leysa úr þeim hörmulega vanda, sem orkumál Norðlendinga eru í nú. Við höfum reynslu af því, að slíkar stöðvar sem þessar hafa mikið rekstraröryggi.

Í nokkur ár hefur á vegum Laxárvirkjunar verið rekin lítil jarðgufustöð í Bjarnarflagi í Námaskarði og við höfum fengið mjög góða reynslu af rekstri slíkrar stöðvar. — Annars staðar, t.d. á Ítalíu, er geysilega góð reynsla fengin á rekstri slíkra stöðva. Í því sambandi vil ég geta þess, að ég var staddur á s.l. ári á einu aðalsvæði Ítalanna, þar sem þeir hafa aðalstöðvar sínar staðsettar, Lardarello-svæðinu, ekki langt frá Pisa. Sem dæmi um, hve mikið rekstraröryggi er í slíkri stöð, get ég getið þess, að árið 1950 var tekin í notkun stöð, sem framleiðir á annað hundrað mw, og þegar ég var þar, þá var það í fyrsta skipti, frá því að stöðin var tekin til notkunar 1950, þ.e. eftir 23 ár, að verið var að taka til yfirferðar eitt aðalstykki orkuvélanna. Þetta hafði snúist samfleytt í 22 ár, án þess að nokkur hefði litið á það.

Ég hef kvatt mér hljóðs hér í sambandi við þetta mál vegna þess, að 1. gr. gerir ráð fyrir því að fela væntanlegri Norðurlandsvirkjun, sem yrði sameignarfélag ríkis og sveitarfélaga á Norðurlandi, eða öðrum aðila að reisa og reka þessa stöð. Nú er því ekki að leyna, að persónulega er ég nokkuð í vafa um, hvort ekki taki of langan tíma að stofna til þessarar Norðurlandsvirkjunar. Ég vil þó geta þess, að strax þegar hugmynd var sett fyrir Laxárvirkjunarstjórn, um stofnun Norðurlandsvirkjunar, þá létum við samstundis í ljós jákvæða afstöðu til þeirrar hugmyndar. En um þetta mál hafa verið haldnir nokkrir umræðufundir, og einhvern veginn segir mér hugur um, að það líði alllangur tími enn, þangað til við verðum búnir að ná þeim árangri, að stofngrunnur eða stofnsamningur geti verið fyrir hendi, til þess að þetta fyrirtæki sem slíkt taki til starfa á löglegan hátt. Og það er einmitt vegna þess, að við erum í tímahraki, að mér finnst, að það megi engan tíma missa, til þess að framkvæmdir í þessu máli verði hafnar sem sem allra fyrst. Því var það á sínum tíma, að Laxárvirkjunarstjórn lét skriflega í ljós ósk í sambandi við þetta frv., þegar það var fyrst borið fram, um að gerast framkvæmdaraðill að þessu máli. Nú getur vel verið, að það eigi ekki hljómgrunn á hinu háa Alþ. eða meðal hv. þm. að fela Laxárvirkjunarstjórn að vera virkjunaraðili að þessari stöð, og skal ég ekkert fjölyrða um það frekar. En ég vildi þá leyfa mér í því sambandi að benda á, hvort ekki mundi vera hagkvæmt sem bráðabirgðalausn á þessu máli að fela Laxárvirkjun nú þegar allan framkvæmdaundirbúning þessa máls. Ég held, að okkur öllum sé kunnugt um það, að Orkustofnun er önnum kafin, og mér er það mjög til efs, að þar sé mannafli og tæki til ráðstöfunar, að hægt sé að fylgja þessu máli fram, og eins er lífsnauðsynjamál að hefja framkvæmdir hið allra fyrsta og hafa mjög skjótan hraða á þeim.

Eftir því sem ég tel heppilegast, þá held ég og hef nokkurn grundvöll til að byggja á um það, að slíkar stöðvar sem þessar sé hægt að fá fullhannaðar hjá erlendum aðilum. Það eru margir framleiðsluaðilar, t.a.m. á Ítalíu, sem taka að sér að hanna algjörlega slík verk sem þessi frá byrjun og gera tilboð í þau. En a.m.k. vildi ég leggja áherslu á eitt, sem er aðalatriðið í þessu máli, en það er, að nú þegar sé hafist handa að koma pöntun á vélum í væntanlega gufuvirkjun í svokallaða afgreiðsluröð með pöntun á nauðsynlegum vélakosti. Það tekur óskaplega langan tíma að afgreiða vélar og öll tæki, sem þarf til virkjunar sem þessarar, og það er enginn áhætta tekin, þó að þeirri framkvæmd verði komið á að koma okkur í svokallaða afgreiðsluröð. Ég er svo bjartsýnn á, að ef vel tækist til um að tilnefna framkvæmdaaðila að þessu verki, þá ætti verkið ekki að taka lengri tíma en svo, að það ætti að geta haldist í hendur, að þegar afgreiðsla liggur fyrir á vélum og tækjum, þá sé annað til frá okkar hendi hér innanlands.

Úr því að ég er kominn hér í ræðustól, langar mig til þess að beina þeirri fyrirspurn til hv. orkumrh., hvað liði fsp. frá í vetur frá Laxárvirkjunarstjórn til Orkustofnunar, að ég hygg, um leyfi til þess að auka orkuframleiðslu litlu stöðvarinnar, sem við rekum nú í Bjarnarflagi. Er af tæknifræðingum talið nokkurn veginn öruggt, að hægt væri án aukins vélakostnaðar að auka þá framleiðslu, sem þarna fer fram, sem er eitthvað rúm 3 mw, upp í allt að 11 mw. Slík aukning sem þessi kæmi að geysilega góðum notum. Því miður hafa ekki borist svör frá Orkustofnun þessu viðvíkjandi, en ég vildi vinsamlegast mælast til þess við hæstv. ráðh., að hann beitti áhrifum sínum til þess, að jákvæð svör fengjust sem allra fyrst við þessum tilmælum Laxárvirkjunarstjórnar, svo að hægt væri að hefja nú þegar framkvæmdir á þessu sviði, og mundi það leysa úr nokkrum vanda, sem blasir við í þessum málum. Ég vil í því sambandi benda á, að það er ákaflega erfitt með rekstur á þessari litlu jarðgufustöð, sem við rekum þarna í Bjarnarflagi, því að við verðum að kaupa gufuaflið af Orkustofnun og verðútreikningar hennar eru bundnir við byggingarvísitölu, þannig að okkur hefur reiknast til í sambandi við þessar holur, sem boraðar voru til þess að afla þessari litlu stöð orku, að séum við búnir að borga 5 eða 6 sinnum þann kostnað. En það sjá allir, að ef við ætlum að kaupa orku til þess að reka stöð sem þessa og miða orkuverðið á gufunni við byggingarvísitölu, er það algerlega óhæft. Aðilinn, sem rekur slíka stöð sem þessa, verður um leið að vera orkuframleiðandi með eðlilegum kostnaði.

Sem sagt, ég styð þetta frv. heils hugar, en vildi beina þeim tilmælum til þeirrar hv. n., sem fær málið til afgreiðslu, að leggja ber umfram allt áhersluna á, að byrjunarframkvæmdum verði flýtt eins og fært er, þannig að það verði ekki farið að deila um keisarans skegg, um það, hver eigi að vera framkvæmdaaðilinn, en við getum fundið einhvern þann aðila, sem hefði það til samkomulags að verða kallaður bráðabirgðaaðili, til að hefjast nú handa um nauðsynlegar byrjunarframkvæmdir hið allra fyrsta. Það skiptir höfuðmáli.