27.03.1974
Neðri deild: 90. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3169 í B-deild Alþingistíðinda. (2838)

176. mál, jarðgufuvirkjun við Kröflu eða Námafjall

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir því, að enginn ágreiningur verði um það hér í hv. d. að veita hæstv. ríkisstj. þá heimild, sem farið er fram á með flutningi þessa frv., þ.e. að virkja við Kröflu eða Námafjall í Suður-Þingeyjarsýslu.

Reynsla er fengin fyrir því, eins og fram hefur komið, að það er unnt að virkja jarðgufu með góðum árangri hér á landi. Það var 1969, sem fyrsta jarðgufuvirkjunin var tekin í notkun, og hefur, eins og sagt var hér áðan, fengist allgóð reynsla af henni. En þessi stöð er smá, aðeins 3.2 mw., og hefur verið notuð aðallega fyrir Kísiliðjuna. En þótt hæstv. ríkisstj. fái heimild til þess að virkja, virðist þurfa að gera ýmislegt, áður en ráðist er í virkjunina. Aðallega er talað um Kröfluvirkjun. En það er eftir að gera ýmsar lokarannsóknir þar, áður en unnt er að ákveða virkjun á þessum stað. Það er þess vegna alveg óljóst enn, hvort virkjað verður við Námafjall eða Kröflu.

En þá er spurningin þessi: Verða ljón á veginum vegna landeigenda fyrir norðan? Það er spurning. Það er minnst á í aths. við frv. ýmis atriði sem sýna, að þetta er ekki alveg ljóst. Það má vera, að hæstv, iðnrh. hafi kynnt sér þessi mál alveg sérstaklega og viti meira um þau en fram kemur í grg. Ég tel, að það sé nauðsynlegt, að hæstv. ríkisstj. noti tímann, þangað til unnt er að hefja framkvæmdir, til þess að undirbúa þetta, kynna sér, hvaða kröfur kynnu fram að koma, o.s.frv. og ná samkomulagi við landeigendur, ef um það er að ræða, að þess þurfi með. Kannske er það misskilningur hjá mér og ekki þurfi að búast við neinum kröfum, sem erfitt verður að uppfylla. En sjálfsagt tel ég, að það verði skoðað og sá tími, sem nú er fyrir hendi, áður en ráðist verður í framkvæmdir, verði sérstaklega notaður til þess,

Það er talað um, að óráðlegt sé að virkja vestan Námafjalls vegna frárennslis út í Mývatn. Það er enn fremur talað um, að ríkissjóður hafi jarðhitaréttindi og landssvæði þau, er skipta máli samkv. samningnum frá 18. mars 1971. En þrátt fyrir þetta er áætlað, að þegar virkjunaraðili, virkjunarstaður og gerð virkjunarmannvirkja hafi verið ákveðin, auglýsi ráðh. þessa ákvörðun og gefi þeim, sem telja sig geta beðið tjón af framkvæmdum þessum, tækifæri til að koma fram með kröfur sínar og aths. innan tiltekins tíma. Ég vil aðeins varpa því fram til athugunar fyrir hæstv, ráðh., hvort ekki væri eðlilegt að auglýsa eftir þessum kröfum strax til þess að vinna tíma. Jafnvel þótt ríkissjóður hefði fullan rétt, þá mætti búast við, að þarna gætu komið kröfur og jafnvel málaferli, sem tækju tíma og gætu tafið fyrir því, að unnt yrði að hefja framkvæmdir.

Þá kemur enn fremur hér fram í grg., að ekki hefur endilega verið ákveðið, hvar jarðgufuaflsstöð þessi verði reist, en að áliti sérfræðinga er um tvo staði að ræða, eins og áður er getið. Við staðarvalið verður bæði að gæta jarðhitatæknilegra aðstæðna og umhverfisþátta. Mun um það haft samráð við Náttúruverndarráð og sérfræðinga í orkuvinnslu.málum. Þarna kemur Náttúruverndarráð til, og einnig í sambandi við það vil ég vekja athygli á því, hvort ekki væri rétt nú strax að hafa samband við Náttúruverndarráð og tryggja sér aðstöðuna og samkomulagið við Náttúruverndarráð strax og nota tímann, sem nú er fyrir hendi, á meðan fullnaðarrannsóknir eru gerðar og undirbúningur að virkjuninni að öðru leyti.

Þá segir enn fremur: „Þá er nauðsynlegt að leggja á virkjunina að gera þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru til að draga úr hugsanlegum áhrifum virkjunarinnar á lífríki Mývatns, og telja kostnað af því til virkjunarkostnaðar. Hvað er um mikinn kostnað hér að ræða, og hvaða kröfur verða uppi til þess að tryggja lífríki Mývatns? Það skal þó tekið fram, að taldar eru mjög litlar líkur á því, að virkjunarframkvæmdir þessar hafi áhrif á vistkerfi Mývatns.“ Við skulum vona, að það verði lítið. En er ekki nauðsynlegt einmitt nú strax að nota tímann til þessarar rannsókna?

Þetta eru aðeins ábendingar vegna reynslunnar af Laxárdeilunni, og minni ég á, að það er vitanlega alveg nauðsynlegt fyrir Norðurland að fá virkjun sem allra fyrst. Það má vel vera, að það reynist heppilegast að virkja við Kröflu eða Námafjall, og rannsóknir á þeim stöðum eru áreiðanlega komnar lengst á veg. Má þess vegna reikna með, að það verði fljótlegast að afla orku fyrir Norðurland með þeim hætti. En þarna gætu verið einhverjir erfiðleikar á leiðinni, sem þarf að yfirstiga, og þótti mér eðlilegt að benda hæstv. ráðh. á það, ef þá hæstv. ráðh, hefur ekki þegar gert ráðstafanir til þess að tryggja, að ekki verði tafir af þessu, sem ég hef hér bent á, þegar til framkvæmda á að taka.