27.03.1974
Neðri deild: 91. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3178 í B-deild Alþingistíðinda. (2849)

46. mál, jarðalög

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ég mun ekki eyða miklum tíma í þetta mál hér við 1. umr., aðeins lýsa skoðunum mínum á nokkrum meginþáttum, sem fram koma í þessu frv.

Eins og fram hefur komið, er ýmis nýmæli að finna í frv. um meðferð á landi og eignarhald á jörðum, landi og landsspildum. Þar eru ákvæði um byggðaráð, sagt er fyrir um, hvernig skuli fara með hvers konar aðilaskipti að umráðum yfir fasteignum og fasteignaréttindum, um forkaupsrétt á jörðum o.fl. Þetta frv. snertir m.a. tvö meginatriði, þ.e. eignar- og umráðarétt yfir fasteignum eða öllu heldur yfir vissum tegundum fasteigna, og að hinu leytinu stjórn þessara mála yfirleitt. Það fjallar um efni, sem mjög varðar sveitarfélögin í landinu eða sveitarfélög í dreifbýli. Um þetta allt er fjallað á nokkuð sérstæðan hátt. Það er allt saman dreifbýli og þéttbýli. Aukin er aðgreining frá því, sem nú er í l., milli skipulagsskyldra staða og annarra. Reynt er með sérstökum reglum að skerða það verð, sem bændur geta fengið fyrir fasteignir sínar, með reglum, sem gilda aðeins fyrir þá, en ekki aðra þjóðfélagsborgara í landinu. Smákóngakerfið sem svo mætti kalla, fær kraftmikla vítamínsprautu með tilkomu byggðaráðanna. Í ósamræmi við málefnasamning stjórnarflokkanna er sjálfstæði sveitarfélaganna skert með því að taka frá þeim verkefni, sem þau hafa haft, og unnið er að dreifingu valdsins með því að binda ákvarðanir, sem áður voru hjá sveitarstjórn, leyfum ráðh., byggðaráðs og Búnaðarfélags Íslands. En þrátt fyrir þetta eru öðru hvoru gefnar yfirlýsingar hér á hv. Alþ. um, að ætlunin sé að standa við málefnasamninginn.

Ég ætla að fara örfáum orðum um þau atriði, sem ég hef tæpt hér á.

Í 1. gr. frv. eru ákvæði um tilgang l. Þau eiga að tryggja, að nýting lands utan skipulagðra þéttbýlissvæða sé eðlileg og hagkvæm frá þjóðhagslegu sjónarmiði. Það er hins vegar ekkert sagt um, hver sé eðlileg og hagkvæm nýting lands. Eignarráð á landi og búseta á jörðum á að vera í samræmi við hagsmuni sveitarfélaga, en það er látið ósagt, hverjir eiga að meta þetta.

Hæstv. landbrh. hefur sagt efnislega á þá leið, að spurningin sé um það, hverjir eigi að eiga landið: einstaklingar, sveitarfélög eða ríkið eða þá nokkrir fjársterkir aðilar, sem enginn trygging er fyrir að hafi boðið það verð, sem sveitarfélögin verði að ganga frá. — Ég leyfi mér að draga í efa, að þetta frv. svari þessari spurningu. Hitt er aftur á móti rétt; að eftirspurn eftir landi til annarra nota en landbúnaðar hefur vaxið mjög á undanförnum árum, og verðið á þessu landi hefur því hækkað, eins og á öðrum eftirsóttum gæðum. En fráleitt verður að teljast, að það sé í samræmi við grundvallarreglur íslensks réttar, að eitthvert ráð geti komið í veg fyrir aðilaskipti að eign, aðeins ef viðkomandi ráði sýnist svo. Ég bendi í því sambandi á 8. gr. frv., sem segir, að byggðaráð skuli ekki veita leyfi sitt til ráðstöfunar fasteigna, sbr. 1. mgr. 7. gr., ef um óeðlilega ráðstöfun er að ræða miðað við almennar viðskiptavenjur, ef ætla má, að ráðstöfunin sé gerð til að hafa af henni sérstakan fjárhagslegan ávinning eða til að ráðstafa eigninni eða hluta af henni fljótlega aftur í hagnaðarskyni. Þetta er sem sagt mat byggðaráðs, sem þarna á að gilda.

Og í 10. gr. eru ákvæði þessa efnis: „Nú neitar byggðaráð að samþykkja áformaða sölu fasteignar, og rn. staðfestir þá ákvörðun, getur þá eigandi eða umráðamaður eignarinnar gert kröfu til þess að ríkissj. kaupi eign þá, sem hann vildi láta af hendi.“ — Náist ekki samkomulag, skal fara eftir ákveðnum kafla í ábúðarlögum.

Um I. kafla frv. þarf ég ekki að hafa mörg orð. Það hafa komið fram athugasemdir við hann frá skipulagsstjórn ríkisins og reyndar fleiri aðilum. Ég ætla ekki að tefja tímann á því að fara að lesa hér upp úr þessum athugasemdum, enda hafa þær nokkuð verið tíundaðar hér.

Í 3. gr. er þó ákvæði, sem ég vildi aðeins gera að umræðuefni. Þar er gert ráð fyrir, að landbrn. sjái um, að haldin verði skrá af einum aðila yfir allar jarðir og að gerðir verði uppdrættir með landamerkjum af sveitum landsins. Ég vil í þessu sambandi benda á, að til meðferðar í hv. Ed. er frv. til l. um skráningu og mat fasteigna og þar er gert ráð fyrir, að sérstök stofnun taki til starfa, þ.e. fasteignaskrá, og hún hafi þessi störf m.a. með höndum, og það er líka gert ráð fyrir, að sú stofnun, fasteignaskráin, heyri undir annað ráðuneyti, þ.e. fjmrn.

Í II. kafla frv. er svo að finna helstu nýmæli, þ.e. um byggðaráðin og verkefni þeirra. Með stofnun þeirra sýnist mér, að hægt verði að koma allt að 144 mönnum til nokkurra metorða. Jafnframt er gengið á rétt hinna einstöku sveitarfélaga, sem til þessa hafa farið með þau verkefni, sem byggðaráðunum eru m.a. ætluð. Meginverkefni þessara ráða eru í eðli sínu sveitarstjórnarmálefni. Það er því sjálfsagt, að sveitarstjórnir eða samtök sveitarfélaga, lýðræðislega kjörnir fulltrúar allra íbúa viðkomandi byggðarlaga, standi að baki ákvörðunum um þau mál, sem byggðaráðunum eru ætluð, en byggðaráðin eru hins vegar skipuð fulltrúum eins og greint er frá í 5. gr. frv., fulltrúum frá sýslunefndum, Búnaðarsambandi og ráðherra.

6. gr. frv. fjallar um verkefni byggðaráðanna. Í 1. tölul. 6. gr. er talað um, að þau skuli fylgjast með og taka ákvarðanir varðandi eigendaskipti og aðrar ráðstafanir fasteigna samkv. nánari fyrirmælum þessara laga. Ég nefndi áðan frv. um skráningu og mat fasteigna, sem er til meðferðar hér í hv. Ed. Í því frv. er Fasteignaskrá ríkisins ætlað þetta hlutverk, en byggðaráðunum er hins vegar ætlað til viðbótar að leyfa og banna eigendaskipti.

Í 2. tölul. þessarar gr. er gert ráð fyrir, að byggðaráðin gangi inn í verkefni Landnáms ríkisins, einstakra sveitarfélaga, skipulagsstjórnar ríkisins, náttúruverndarnefnda og Náttúruverndarráðs. Er nú ekki hér fulllangt gengið?

Í 7.–11. gr. frv. er gert ráð fyrir, að bændur og aðrir jarðeigendur þurfi leyfi byggðaráðs til að ráðstafa eða breyta notkun á jörðum sínum. Þar er einnig tíundað, hvernig ráðin og aðrar opinberar stofnanir geti farið að því að þrengja eignar- og umráðarétt bænda yfir eignum sínum svo og takmarka verðlagsþróun þessara eigna umfram annarra þjóðfélagsborgara. Hér er farið inn á þá braut í lagasetningu, sem ég leyfi mér að efast um að standist fyrir ákvæðum stjórnarskrárinnar.

Í 13.–16. gr. er fjallað um ýmis atriði varðandi landnýtingu. Allt eru það ráðstafanir, sem varða viðkomandi sveitarfélög miklu. Í upphaflega frv. var gjörsamlega gengið fram hjá sveitarstjórnum sem umsagnaraðila eða ráðandi aðila varðandi þessi efni. Í hv. Ed. var þó hætt nokkuð úr þessu, þar var bætt inn orðinu sveitarstjórn á 5 stöðum í þessum fjórum greinum. Það hefur líklega átt að leysa allan vandann, en gerir það bara ekki. Þarna er gert ráð fyrir, að byggðaráðin verði enn einn aðilinn, sem fari með skipulagsmál. Ég fullyrði, að slíkt er ekki til bóta. Reyndar virðist svo, að landbrn. eigi að verða einhvers konar yfirskipulagsstofnun fyrir strjálbýlið. Það má m.a. sjá á því, að gert er ráð fyrir, að Landnám ríkisins verði lagt niður.

13. gr. geymir ákvæði um það, að land, sem við gildistöku l. er nýtt til landbúnaðar, megi ekki taka til annarra nota, nema heimild sé til slíks í l., að öðrum kosti þurfi samþykki ráðh., enda hafi það áður verið samþ. af sveitarstjórn, byggðaráði og Búnaðarfélagi Íslands. Þessi ákvæði eru í hæsta máta óeðlileg, þegar um er að ræða nauðsynlega útfærslu byggðar eða framkvæmd skipulags, og er vafasamt, að þetta ákvæði samrýmist ákvæðum skipulagslaganna.

Ég mun ekki, herra forseti, gera þetta frv. að nánara umræðuefni við þessa umr., þótt vissulega sé af mörgu að taka. Ég hef aðeins drepið hér á nokkra þætti, — þætti, sem lúta að eignarréttinum, og aðra, sem snerta stjórnkerfið í landinu. Ákvæðin um þessa þætti eru svo meingölluð og reyndar vafasamt, að þau fái staðist, að frv. hlýtur að verða að fara til sérstakrar athugunar að nýju. Ég hef ekki trú á, að sú athugun verði framkvæmd í þn. á þeim tíma, sem eftir er til þinglausna, og því væri skynsamlegast að fresta þessu máli öllu.