28.03.1974
Efri deild: 90. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3182 í B-deild Alþingistíðinda. (2858)

274. mál, almenn hegningarlög

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það frv. um breyt. á almennum hegningarl., sem hér er lagt fyrir hv. Ed. á þskj. 553, er annað tveggja frv., sem flutt eru í tengslum við frv. til l. um ávana- og fíkniefni, sem lagt hefur verið fyrir hv. Ed. og er hér einnig á dagskrá í dag og kemur til umr. hér á eftir. Þessi þrjú frv.eru niðurstaða endurskoðunar á löggjöf varðandi meðferð ávana- og fíkniefna, og hefur endurskoðun þessi verið unnin sameiginlega á vegum dóms- og kirkjumrn. og heilbr.- og trmrn.

Í frv. þessu er lagt til. að meiri háttar brot á ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni verði færð undir almenn hegningarlög, og jafnframt verði hámarksrefsing við slíkum brotum hækkuð úr 6 ára fangelsi í 10 ára fangelsi. Um slík brot gildir nú ákvæði 6. gr. l. um tilbúning og verslun með ópíum o.fl., nr. 77 1970, en sú gr. var tekin upp með lagabreytingu, sem gerð var árið 1970. Hér er því um tvíþætta breyt. að ræða. Hámarksviðurlögin eru þyngd og brotin færð undir almenn hegningarlög í stað þess að vera sérrefsilagaákvæði.

Skilgreining á brotum, sem falla undir ákvæði þessa frv., er í meginatriðum sú sama og nú er notuð um stórfellt brot í 6. gr. l. um tilbúning á verslun með ópfum o.fl. Í þessu frv. er svo bætt við nýjum brotaþætti, sem varðað getur hámarksrefsingu, og það er ef um er að ræða afhendingu andstæða ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni, sem fram fer á sérstaklega saknæman hátt, annan en þann að láta mörgum mönnum í té ávana- og fíkniefni eða afhenda þau gegn verulegu gjaldi. Með þessu hugtaki er ákæruvaldi og dómstólum veitt færi á að heimfæra ýmis tilvik undir ákvæði þessa frv. eða laga, ef telja má þau sérstaklega saknæm, svo sem ef mjög hættulegt efni er afhent gegn vægu gjaldi.

Lagt er til, að þessari nýju hegningarlagagrein, sem frv. þetta fjallar um, verði skipað í XVIII. kafla almennra hegningarl., sem ber fyrirsögnina: „Brot, sem hafa í för með sér almenna hættu: Telja verður, að viðtæk dreifing eða sala ávana- og fíkniefna hafi í sér fólgna hættu fyrir velferð þjóðfélagsins á svipaðan hátt og ýmisleg tilvik, sem talin eru í öðrum gr. þessa kafla, er hækkun refsihámarksins í 10 ára fangelsi er beint að fordæmi Norðmanna og Svía, sem þegar hafa lögfest þetta refsihámark við slíkum brotum, og fyrir danska þjóðþinginu liggur nú frv., sem fjallar um hækkun refsinga við þessum brotum úr 6 ára í 10 ára fangelsi. Rétt þykir að gera till. um, að refsihámark íslenskra laga verði samræmt ákvæðum laga annarra Norðurlandaþjóða, þegar gerð er endurskoðun á lagaákvæðum á þessu sviði, enda þótt vandamál vegna dreifingar ávana- og fíkniefna hér á landi séu, sem betur fer, vil ég vona, vart komin á það stig, að þörf sé að beita hámarksrefsingu þeirri, sem í þessu frv. felst. Reynsla annarra þjóða bendir til þess, að rétt sé að lögfesta þegar svo þung viðurlög við meiri háttar brotum í ávana- og fíknilöggjöfinni.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að óska eftir því, að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.