28.03.1974
Efri deild: 90. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3187 í B-deild Alþingistíðinda. (2868)

290. mál, skylduskil til safna

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Uppi hafa verið um nokkra hríð óskir, bæði hjá safnamönnum og bókaútgefendum um, að lög um afhendingu skyldueintaka til bókasafna, nr. 12 frá 8. mars 1949, væru tekin til endurskoðunar. Við þessari ósk var orðið, og nú er borið fram frv. til l. um skylduskil til safna, sem ætlað er að koma í stað þessara eldri laga. Af hálfu safnamanna var einkum á það lögð áhersla, að ekki væri kveðið á í hinum fyrri l. um markmið og tilgang með skylduskilunum, sömu leiðis mætti setja ákveðnari og traustari lagaákvæði um það, hvernig skylduskilin eiga sér stað, svo að síður væri hætta á, að efni, sem skila ber, yrði af einhverjum ástæðum utanveltu og kæmist ekki á þá staði til varðveislu, sem ætlað hefur verið.

Leitast er við að uppfylla þessa ósk um skilgreindan tilgang skylduskilanna með 1. gr. þessa lagafrv., sem fyrir er lagt. Þar er greint frá þrenns konar tilgangi með skilaskyldu á því fjölfaldaða efni, sem um er fjallað í l., sem sé, að skilaskyldan sé á lögð:

1. Til þess að unnt sé að varðveita til frambúðar það efni, sem um er að ræða.

2. Að unnt sé að gefa út um þetta efni eða einhverja hluta þess tæmandi skrár.

3. Að þetta efni sé tiltækt til nota vegna rannsókna opinberrar stjórnsýslu eða annarra brýnna þarfa.

Hér er talað um efni, vegna þess að frv. gerir ráð fyrir því, að ekki sé einungis um það fjallað, sem fjölfaldað er með hefðbundnum prent- og fjölritunaraðferðum, heldur sömuleiðis það efni, sem dreift er í mismunandi stórum upplögum með hljóðritun eða myndritun. Þessir fjölföldunarhættir fara mjög vaxandi og eiga þó sýnilega eftir að breiðast út enn meira, svo að augljóst þykir, að nauðsyn beri til, að skilaskyldan nái til hljómplatna tónbanda talbanda og annars slíks ef nást eigi sá tilgangur að koma saman til kerfisbundinnar varðveislu því efni, sem út er gefið í verulegum upplögum með þeim aðferðum, sem nú eru tíðkanlegar. Þá eru gerð skýrari og ákveðnari ýmis ákvæði, sem fjalla um, hverjir ábyrgð beri á að sjá um, að skylduskilaeintökum sé haldið eftir af upplögum, og þeim sé safnað saman á viðhlítandi hátt.

Tilgangur útgefenda með óskum þeirra um að breyta eldri lagaákvæðum beinist fyrst og fremst að því að fá fækkað skyldueintökunum, en þau hafa verið 12 og útgefendur litu svo á, að meðan ekki væri skilgreindur tilgangurinn með þessari kvöð, þá væri í raun og veru um að ræða sérstaka skattlagningu á þeirra framleiðslu. Ég fyrir mitt leyti fellst á þennan rökstuðning, að mjög orki tvímælis að leggja þannig á eina starfsgrein sérstaka kvöð um endurgjaldslausa afhendingu á tilteknum hluta framleiðslu hennar, nema unnt sé að sýna fram á ríka ástæðu og setja fram knýjandi rök fyrir þessari skyldu. Það tel ég, að gert hafi verið í tilgangsgrein þessa frv., og verkefnið er þá að meta, hversu mikill eintakafjöldi fullnægi þessum tilgangi. Niðurstaðan hefur orðið sú, að fækka beri skyldueintökunum, sem hafa verið 12 af almennu prentuðu efni, í fjögur, og í frv. er kveðið á um, hvernig með þessi skyldueintök skuli farið. Þar er kveðið svo á, að Landsbókasafn Íslands, Amtsbókasafnið á Akureyri og Háskólabókasafnið varðveiti skyldueintökin og þar af Landsbókasafn Íslands 2. annað þessara eintaka Landsbókasafns sé eingöngu varðveislueintak, sem ekki sé í notkun. Eintakið til Amtsbókasafnsins á Akureyri er talið sjálfsagt vegna þess aukna öryggis, sem fæst með því að varðveita eintök af öllu fjölfölduðu efni á tveim stöðum, sitt í hvorum landshluta. Loks er eintakið til Háskólabókasafns ætlað til þess, að það geti komið að haldi við rannsóknir og afnot í opinbera þágu.

Ég tel mig þá, herra forseti, hafa gert grein fyrir meginatriðum þessa frv. og nýmælum, sem í því felast. Ég legg að endingu til, að því verði að umr. þessari lokinni vísað til hv. menntmn.