28.03.1974
Efri deild: 90. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3188 í B-deild Alþingistíðinda. (2870)

261. mál, dýralæknar

Frsm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Landbn. þessarar hv. d. hefur haft þetta frv., sem hér er til umr., til meðferðar um nokkurt skeið. Hér er fjallað um breyt. á l. nr. 31 frá 1970, um dýralækna. Samkv. gildandi l. um dýralækna er eitt af höfuðverkefnum þeirra að fylgjast með framleiðslustöðum mjólkur og heilbrigði nautgripa. Eins og okkur öllum er kunnugt um, er mjólkin matvara, sem er mjög vandmeðfarin og viðkvæm, og við framleiðslu hennar verður að gera hinar ströngustu heilbrigðiskröfur þess vegna, bæði um hreinlæti og eins um heilbrigði gripanna. Það er því nauðsynlegt, að héraðsdýralæknar hafi heimild til þess að stöðva sölu á mjólk frá þeim stöðum, sem fullnægja ekki settum reglum og reglugerðum um hreinlæti.

Heimild héraðsdýralækna til slíkra aðgerða hefur verið mjög vefengd fram að þessu, en til þess að taka af öll tvímæli um þetta atriði er frv. lagt fram. Landbn. féllst á að mæla með samþykkt þessa frv., en jafnframt hefur hún leyft sér að gera eina breyt. við það. Sú breyt. er á þá lund, að eigi einungis héraðsdýralæknir fjalli um sölustöðvun á mjólk og hans úrskurður sé ekki endanlegur. Okkur hefur þótt töluvert viðurhlutamikið að hafa ekki nema eitt úrskurðarstig, og í till. okkar gerum við þess vegna ráð fyrir því, að úrskurðarstig í þessu efni verði tvö, þannig að heimilt sé að áfrýja ákvörðun héraðsdýralæknis um sölustöðvun þegar í stað til yfirdýralæknis, sem fellir síðan fullnaðarúrskurð. Að öðru leyti, eins og ég hef sagt, mælir landbn. með samþykkt frv.