28.03.1974
Neðri deild: 92. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3189 í B-deild Alþingistíðinda. (2873)

168. mál, lífeyrissjóður sjómanna

Frsm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. á þskj. 581, hefur fjh.- og viðskn. orðið sammála um afgreiðslu þessa frv. og leggur til, að það verði samþ. með nokkrum breytingum, sem fluttar eru á sérstöku þskj. Á meðan málið var til meðferðar í n., bárust tilmæli frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands um, að tilteknar breytingar yrðu gerðar á frv. N. tók þetta sérstaklega til athugunar. Hún hafði samráð við stjórn lífeyrissjóðsins um málið og kvaddi sér til ráðuneytis sérstaklega um tæknileg atriði, Guðjón Hansen tryggingafræðing.

Ég skal með örfáum orðum gera grein fyrir þeim brtt., sem hér liggja fyrir á þskj. 582.

Í 1. brtt., sem er við 2. gr., er lagt til, að aðild yfirmanna á farskipum þeirra skipafélaga, sem starfandi eru við gildistöku l., verði með sama hætti og hingað til, en yfirmenn hjá nýjum skipafélögum verði sjálfkrafa sjóðfélagar í lífeyrissjóði sjómanna. Þessi breyting kemur í veg fyrir óvissu um lífeyrisréttindi við stofnun nýrra skipafélaga.

Svo er stafliður b, að 3. málsl. 2. málsgr. falli niður. Við það er sú skýring, að lagt er til. að undanþáguákvæði 2, mgr. 2. gr. frv. fyrstu fjóra mánuði í starfi verði fellt niður, en bent á, að undanþága þessi hafi lítið verið notuð og ekkert slíkt ákvæði gildi um aðild verkafólks í landi að hinum almennu lífeyrissjóðum verkalýðsfélaga. Þetta er m.a. flutt til samræmingar á milli þessara tveggja sjóða.

Um c-liðinn í l. brtt. er það að segja, að þar er gert ráð fyrir, að komið verði á skyldutryggingu skipverja eftir afskráningu, meðan þeir taka laun samkv. kjarasamningi sínum sem sjómenn, sbr. 4. mgr. 2. gr. frv.

Þá er það 2. brtt. Hún er við 10. gr., að 2. mgr. orðist eins og þar hermir. Þar er lagt til, að iðgjöld bátasjómanna samkv. 10. gr. frv. fari eftir kjarasamningi á hverjum tíma, í stað þess, að fjárhæðir séu tilteknar í lögum, og breytist síðan einu sinni á ári. Þetta er talin eðlilegri tilhögun.

Þá eru 3. og 4. brtt. og raunar einnig brtt. 8 við bráðabirgðaákvæði frv. Þessar brtt. hanga allar saman. Þær eru fluttar eftir ósk stjórnar lífeyrissjóða sjómanna, en stjórnin óskar eftir jöfnun lífeyrisréttinda á þann veg, að elli-, örorku- og makalífeyrir reiknist aldrei af lægri fjárhæð en 4/5 grundvallarlauna á þeim tíma, er taka lífeyris hefst, þótt aðalreglan um 5 ára meðaltal mundi leiða til lægri niðurstöðu. Veitir þessi breyting aukna tryggingu þeim, sem hefja töku lífeyris á tímum mikilla verðlags- og launabreytinga. Þær hanga sem sagt saman, allar þessar þrjár brtt. og snerta 12, og 14. gr. frv. og svo bráðabirgðaákvæði.

Þá er 5. brtt. Hún er við 23. gr. og er um breytingu á ártölum, og þarfnast það raunar engra sérstakra skýringa.

Sama gildir um 7. brtt. Hún er einnig um breytingu á ártölum.

Þá er 6. brtt. og sú síðasta, sem eftir er að gera grein fyrir. Þar er gert ráð fyrir nýrri frvgr. á eftir 23. gr., sem verður þá 24. gr.gr. inniheldur ákvæði um skyldur lífeyrissjóðs sjómanna í sambandi við lög nr. 63 1971, um eftirlaun til aldraðra félaga í stéttarfélögum, sams konar ákvæði og þau, sem í því efni gilda um lífeyrissjóði verkalýðsfélaga. Hér er nánast aðeins um samræmingu að ræða.

Þá hef ég, herra forseti, gert grein fyrir þessum brtt. og árétta það, sem ég sagði í upphafi, að n. leggur til, að frv. verði samþ. með þessum breytingum.