05.11.1973
Neðri deild: 15. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í B-deild Alþingistíðinda. (288)

44. mál, orkulög

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég vil mjög eindregið taka undir það efni, sem felst í því máli, sem nú hefur verið mælt fyrir.

Það hefur lengi verið ljóst, að hitaveitur eru einhverjar nauðsynlegustu og um leið þjóðhagslega hagkvæmustu framkvæmdir, sem Íslendingar geta ráðist í, og mönnum verður það nú betur ljóst með hverjum mánuði sem líður, það má næstum því segja hverri viku sem líður, hversu hættulegt og dýrt það er að vera um of háður olíu eða öðru innfluttu brennsluefni. Ég tel því sjálfsagt, að ríkisvaldið geri eins mikið og því framast er unnt til þess að greiða fyrir þeim sveitarfélögum, sem verða að kosta miklu fé til að fá heitt vatn til upphitunar og koma upp hitaveitum.

Í þessu sambandi vil ég leyfa mér að benda á, að ýmsir fleiri þm. hafa hreyft svipuðum málum og að Bragi Sigurjónsson og tveir aðrir hv. þm. Alþfl. hafa nýlega lagt fram till. til þál., sem er á þá lund, að reynt verði að gera heildarskýrslu um alla þá möguleika, sem eru á skjótum nýframkvæmdum til hitunar húsa með jarðvarma eða á annan hátt, þannig að Íslendingar hagnýti sér betur þá miklu orku, sem við eigum í landinu.

Þær þjóðir, sem nú verða að draga úr orkunotkun sinni, byrja að sjálfsögðu á samgöngum, ónauðsynlegum flutningum eða ónauðsynlegri notkun farartækja, en þjóðir verða e. t. v. að skammta eldsneyti til húsahitunar. Þær mundu telja það sjálfsagðan hlut fyrir þjóð eins og Íslendinga, sem á jafngífurlega mikla ónotaða orku, að það yrði gert eitt af forgangsverkefnum í öllum opinberum framkvæmdum að reyna að hagnýta þessa orku til hins ítrasta á hvern þann hátt, sem hentugast kann að reynast hverju sinni.

Ég tel, að sveitarfélögunum sjálfum sé kannske allra aðila best treystandi til þess að hafa frumkvæði hvert á sínum stað, láta jafnvel leita þar, sem örugg vissa er ekki fyrir hendi um nægjanlegt vatn, og það væri því mjög vel til fundið með öðrum ráðstöfunum og innan viðtækara kerfis, sem nær yfir landið allt, að styðja þau eins og framast er unnt, til þess að þau geti leitað að þessari orku og hagnýtt hana, þar sem hún finnst nægileg.