28.03.1974
Neðri deild: 93. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3206 í B-deild Alþingistíðinda. (2892)

266. mál, viðskiptabankar

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Nú á s.l. árum hefur orðið vart vaxandi gremju hjá almenningi út af þenslu bankakerfisins og enn fremur þeim ólýðræðislegu vinnubrögðum, sem höfð eru uppi í sambandi við veitingu æðstu staða við bankakerfið, þ.e.a.s. við bankastjórastöðurnar. Gremja almennings hefur ekki að mínu viti beinst gegn því, að hann teldi þjónustuna sérlega slaklega, heldur fyrst og fremst vegna útþenslunnar og þess yfirgangs, sem pólitísku flokkarnir beita við að veita æðstu stöður við bankakerfið. Þetta hefur líka blasað við öllum. Það þarf ekki annað en líta á bankahallirnar, sem hér hafa risið upp á undanförnum árum. Útibúin skipta tugum hér á Laugavegi og Bankastræti, og út yfir allan þjófabálk tók, þegar Seðlabankinn ákvað að reisa hér enn eina höllina, sem átti að kosta um 500 millj. kr., og ekkert vald virðist vera í landinu til að stöðva þá óhæfu, eins og ástandið er í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Það er þetta fyrst og fremst, sem er að bankakerfinu, það er hin óhóflega útþensla, og það er hinn pólitíski yfirgangur í bankakerfinu. Og þá vaknar spurningin, þegar lagt er fram frv. af hálfu ríkisstj.: Hvernig verður frv. við þessum atriðum? Kemur frv. í veg fyrir frekari útþenslu bankakerfisins? Eykur það lýðræðið innan bankakerfisins? Og í þriðja lagi: Fylgir því aukin rekstrarhagkvæmni? Á þessum þremur forsendum verður að meta, hvort vert sé að styðja þetta frv., og skal ég nú reyna að víkja að þessu efni.

Ríkisstj. setti í málefnasamning sinn ákvæði um að endurskoða allt bankakerfið, þ. á m. löggjöf varðandi Seðlabankann og hlutverk hans, og vinna að sameiningu banka og fjárfestingarsjóða. Var ætlunin að endurskoða allt bankakerfið, og hæstv. bankamrh, lýsti því yfir, að þetta væri fyrsta stórbreytingin, sem boðuð væri með þessu frv., til þess að koma þessum málum í höfn. Það fer mjög vel á því að koma með þetta frv. á þessu skeiði, þegar ríkisstj. er að veslast upp af innanmeini og á eftir að lifa tvo, þrjá mánuði, ef ekki skemur. Það er því ágætt fyrir hæstv. bankamrh. að boða frv. af þessu tagi nú.

Þegar litið er á frv., undrast ég stórum, hvað það er íhaldssamt, einkanlega þegar það kemur frá manni, sem þykist vera sósíalisti. Þetta er annars hlægilegt. Allt gamla kerfið stendur óbreytt. Starfsmönnum eru ekki veitt þau frumréttindi að hafa samningsrétt um kaup og kjör, eins og tíðkast í þjóðfélaginu. Ekki nóg með það, það á að tryggja áfram yfirgang pólitísku flokkanna varðandi bankastjórastöður. Þar er engu haggað, og þetta er sósíalisti, fulltrúi Alþb. En þetta er sama íhaldið og annars staðar í bankakerfinu.

Ég ætla að víkja strax að stjórn þessa nýja banka. Þar stendur í fyrsta lagi: „Yfirstjórn ríkisviðskiptabanka er í höndum ráðh. þess, er fer með bankamál.“ Hvað merkir orðið yfirstjórn þarna? Það er ekki nóg, að það standi orðið yfirstjórn. Það vantar skilgreiningu á því, hvað merkir yfirstjórn. Þetta hefur reynst þannig, þegar Seðlabankinn ætlaði að reisa sína höll upp á 500 millj. kr., þá stóð í þeim lögum, að bankamrh. færi með yfirstjórn Seðlabankans, en það kom bara í ljós, að veslings viðsk.- og bankamrh., sem fór með yfirstjórn á Seðlabankanum, gat ekki einu sinni stöðvað fjárfestingar upp á hálfan milljarð kr., svo að það er fyrsta skilyrði að vita, hvað yfirstjórn merkir þarna. Í öðru lagi vil ég benda á, að bankaráðin ráða bankastjórana, að sjálfsögðu er „pólitískt“ undirskilið. Síðar í skilgreiningu 13. gr. segir, hvað bankaráðin eigi að gera, en hvað er þá eftir handa veslings ráðh.? Væri ekki nokkuð gott að fá að vita það, hvað merkir yfirstjórn.

Síðan segir í 9. gr.: „Bankaráð hefur yfirumsjón með málefnum ríkisviðskiptabanka í samræmi við lög og reglugerðir.“ Mér vitanlega eru þessi lög og reglugerðir ekki til. Og það er ágætt að kasta þessu á milli sín, einn hefur yfirumsjón, annar hefur yfirstjórn og hver veit hvað. Væri nú ekki reynandi að skilgreina þessi orð, þannig að menn viti raunverulega, hver hefur völdin? M.ö.o.: sömu óljósu orðin, sem eru tekin upp úr lögum, sem fyrir voru, engin vandamál leyst í þessu efni.

En hvað á að gerast? Bankaráðin eiga ekki lengur að vera skipuð 5 mönnum, það eru allt of fáir menn. Nú á að fjölga þeim upp í 7. Af hverju? segir í grg. Jú, það eru 7 menn í stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins og 7 menn voru kosnir í Viðlagasjóð. Þetta er eins og einhver skopleikur. Eins og það eigi að skipta nokkru máli, hve margir eru kosnir í bankaráð og hve margir kosnir í stjórn Viðlagasjóðs. En er ekki ástæðan sú, að ástandið er þannig á þingi, að allir flokkar vilja fá sína bitlingastöðu í bankaráðinu, þess vegna eru þeir 7. En það er ekki þar með sagt, að á næsta þingi verði hér sami fjöldi flokka. Ég tel alveg fráleitt að vera að miða fjölda baukaráðsmanna við það, hvað margir eru í stjórn Framkvæmdastofnunarinnar. En þetta sýnir, að aðalatriðið í þessu öllu saman eru bitlingar handa flokkunum til starfslítilla ráða, eins og bankaráðin eru í raun og veru, og fróðir menn segja, að þetta séu að mestu leyti kaffisamsæti.

Nú kem ég að meginatriðinu. Bankaráðin eiga að fara með nokkur verkefni, sbr. 13. gr., þar á meðal byggingu, kaup, sölu, skiptingu, veðsetningu á fasteignum bankans o.s.frv. Bankaráðin hafa reynst vanmegnug að hafa heildarstjórn á útþenslu bankanna, vegna þess að bankaráðin verða fljótlega hagsmunahópar, sem vinnur fyrir einstakan banka, en hefur enga aðstöðu til þess að vita um heildarfjárfestingu bankanna. Þess vegna hefur hver banki keppt við annan, komið upp útibúi, hvort sem þörf var á eða ekki, og þess vegna er engin stjórn á hlutunum. Og sama óstjórnin á að halda áfram. Þess vegna verður að koma inn í þetta eftirlit frá ríkisvaldinu. Það skortir í frv. og er aðalgallinn á því. Það vantar eftirlit með útþenslu bankanna og endurskoðun reikninga bankanna. Það á að setja bankana undir sama eftirlit og aðrar ríkisstofnanir. Það á ekki að vera sérstakur flokkur fyrir bankastjóra og aðra, sem vinna í ríkisbönkunum. Megingallinn er að bankakerfið er jafneftirlitslaust og áður, og svo talar hæstv. viðsk.- og bankamrh. um það, að einn aðaltilgangurinn með þessu sé að draga úr þenslu í bankakerfinu. Ég hef ekki séð, að það sé nokkur leið að koma því heim, því að það eru sömu aðilarnir, sem eiga að stjórna þessu.

M.ö.o.: ég tel höfuðnauðsyn á, að ríkisvaldið fái aðild að endurskoðun reikninga bankanna og jafnvel, ef svo ber undir, fái líka aðild að bankaráðunum. Það er höfuðnauðsyn að reyna að hafa stjórn á þessari þenslu. Hver á að gera það? Ráðh. er valdalaus. Hæstv. bankamrh. er valdalaus gagnvart bönkunum. Hver á þá að stjórna þessu? Svo þarf náttúrlega ekki að spyrja um það með blessaðar bankastjórastöðurnar. Það hvarflar ekki að þessum vinstri manni og sósíalista og fulltrúa alþýðunnar að láta sér koma til hugar að auglýsa stöðurnar, til þess að menn gætu sótt um þær. Ónei, eftir þeirri harðdrægu og flokkspólitísku línum á að veita stöðurnar.

Sami háttur er í Alþb. og hjá öðrum flokkum í þessu efni. Hitt er náttúrlega annað mál, að hæstv. bankamrh. státar sig af því að vera vinstri maður, sem hann er náttúrlega ekki og hefur aldrei verið, — því að einkenni á þessu bankamálafrv. er, að það er eins íhaldsamt og það getur verið. Þarna er verið að tryggja í fyrsta lagi, að það er ekkert hreyft við sjálfum yfirstjórnarstrúktúrnum í kerfinu. Sama útþenslan heldur áfram eftir sem áður. Og hvernig væri að auglýsa ýmsar aðalstöður, t.d. stöður aðstoðarbankastjóra og útibússtjóra, og gera þetta lýðræðislegt og veita bankastarfsmönnum almenn lýðréttindi að semja um kaup sitt og kjör? Ekkert af þessu sést í frv. Það er alveg stórkostlegt að sjá þetta frá manni, sem þykist vera sósíalisti og Alþb.-maður.

Það verður að koma til eftirlitsaðili við bankana, og það verður að vera ríkisvaldið. Það þarf að fá fulltrúa inn í bankaráðin eða við bókhald bankanna og láta bankana sitja við sama borð og aðrar ríkisstofnanir. Það er ekki hægt að horfa upp á það, að hver einasta ríkisstofnun skuli þurfa að koma hér til 60 manna samkundu og betla hvern einasta eyri, á meðan bankarnir leika sér að millj. kr., að því er virðist eftirlitslaust. Og svo þykist ríkisstj. vera gjörsamlega vanmegnug, þó að einstakar stofnanir ætli að byggja húsakynni upp á hálfan milljarð eða meira.

Ég hef lengi verið hlynntur sameiningu og rekstrarhagkvæmni á lánastofnunum og bönkum á Íslandi, og ég hef lengi ímyndað mér, að með því að sameina t.d. Búnaðarbankann og Útvegsbankann mætti vinna eitthvað í sambandi við kostnað. Þá er spurningin: hvað sparast? En þessu er ekki svarað. Mér er ógerningur að samþykkja frv., þar sem talað er um rekstrarhagkvæmni með sameiningu tveggja banka og hvergi er hægt að gera grein fyrir því, hvað vinnst með sameiningunni, hvað sparast með sameiningunni.

Hæstv. bankamrh. nefndi ýmis önnur rök, sem að mínu mati voru afskaplega léttvæg. Hann talaði um gjaldeyrisviðskiptin, að Útvegsbankinn hefði réttindi til gjaldeyrisviðskipta, en ekki Búnaðarbankinn, og þess vegna væri hagkvæmt að sameina þá. Þetta eru engin rök fyrir sameiningu, vegna þess að Verslunarbankinn hefur líka áhuga á gjaldeyrisviðskiptum og fleiri bankar, og það mætti þá út frá því sjónarmiði séð sameina þá. En þetta eru engin rök.

Varðandi útibúakerfið er, eins og hæstv. bankamrh. tók fram, nauðsynlegt að hafa stjórn á því. En það vinnst ekki sérstaklega með þessu frv., vegna þess að það þarf að fá samþykki Seðlabankans hverju sinni við stofnun útibúa, þannig að það er algjörlega út í hött að halda því fram, að sameiningin sjálf tryggi skipulega dreifingu útibúa um landið.

Hæstv. bankamrh. minntist og á það, að með því að sameina þessa tvo banka fengist stærri rekstrargrundvöllur og unnt væri þá að veita atvinnuvegunum meiri þjónustu. Í sjálfu sér er þetta gott og blessað. En væri þá ekki nær að byrja á minni bönkunum, á hlutafjárbönkunum, þar sem ríkið er a.m.k. eignaraðili að?

Ég verð því miður að taka undir það, sem fyrri ræðumaður sagði, að allur málatilbúnaður í kringum þetta frv. er með eindæmum. Að vísu gerði ræðumaður skýra grein fyrir samskiptum eða öllu heldur samskiptaleysi hæstv. bankamrh. við starfsmenn viðkomandi banka, en þetta er með þeim eindæmum, að ég hlýt líka að eyða nokkrum tíma til þess að skýra frá þessu til þess að sýna, að þetta er eitt með öðru, sem sýnir hvernig ráðh., sem kennir sig við fólkið og kallar sig ráðh. Alþb., vinnur í reynd. Í fyrsta lagi setur hann á stofn bankamálanefnd, sem í eru 6 bankastjórar. Maður skyldi ætla, að fulltrúi fólksins reyndi að ná í þessa óbreyttu í nefndina, það væri kannske ráð að fá einhvern af starfsmönnum úr bönkunum. Nei, fulltrúi fólksins fer auðvitað í þessa pólitísku bankastjóra til að rannsaka þetta, — ekki talað við starfsfólkið. Svo loks er samið þetta frv. Þá er leitað til Seðlabankans, en enginn fulltrúi frá starfsfólkinu í viðkomandi bönkum til að koma með till. varðandi frv.- gerðina. Hvers konar vinnubrögð eru þetta eiginlega — og það hjá fulltrúa í flokki, sem nefnir sig Alþýðubandalag? Öll þessi vinnubrögð eru forkastanleg, enda hafa komið fram vitur af hálfu starfsmanna út af þessum vinnubrögðum, og ég hlýt að taka undir þær. En ég vil segja það, að ég get ekki fyrir mitt leyti samþykkt frv. um sameiningu banka, nema það liggi fyrir rækileg könnun á því, hvað sparast, hvað vinnst og hver er árangur og ávinningur sameiningarinnar. Þetta er grundvallaratriði. Ég hef alltaf gert mér vonir um, að það mætti spara verulega með sameiningunni, og ég stend enn í þeirri trú. En ég fer ekki að samþykkja frv. án þess að hafa hugboð um, hvað vinnst við þessa sameiningu hvað varðar sparnað og rekstrarhagkvæmni.

Mig langar að koma að tveimur atriðum, áður en ég lýk máli mínu. Ég ætla að lesa hér, einkanlega fyrir hæstv. bankamrh., smákafla úr áliti Starfsmannafélags Búnaðarbankans. Það er á bls. 4, ég ætla að lesa það, með leyfi hæstv. forseta:

„Búast hefði mátt við, að í löggjöf um viðskiptabanka ríkisins bryddaði á langþráðum nýmælum um yfirstjórn þessara banka, t.d. varðandi ráðningar bankastjóra. Það hefur viðgengist, að pólitískt tillit sæti í fyrirrúmi við skipun í bankastjórastöður, sem stundum hefur leitt til beinnar valdníðslu stjórnmálaflokka.“ — Ég bið hæstv. bankamrh. að leggja vel við hlustirnar. — „Slíkt fyrirkomulag virðist fremur bjóða upp á meiri hættu á mistökum heldur en væri, ef lögfest yrði, að hæfir bankastarfsmenn skuli að öllu jöfnu sitja fyrir um bankastjórastöður og þær skuli auglýstar opinberlega til umsóknar. Með því móti virðist betur tryggt, að bankastjóri tæki aðeins tillit til þess, sem er bankanum heilbrigt og fyrst og fremst ætlað til að þjóna, og gæti jafnframt fremur hlutleysis í störfum gagnvart pólitískum aðilum. Þetta á við jafnt, þó að bankastarfsmenn hafi sínar pólitísku skoðanir eins og aðrir. Þó að margir ágætir bankastjórar hafi valist eftir eldra fyrirkomulagi, er samt full ástæða til að endurskoða það, m.a. með tilliti til almenningsálits og rekstrar bankanna sem hverra annarra fyrirtækja. Bankaráðin geta eftir sem áður gætt pólitísks jafnvægis, og er gott, að starfssvið þeirra væri skýrara markað í frv. en áður var.“

M.ö.o.: grundvallaratriðið er, að á meðan þetta er ekki lagað, þá heldur áfram gremja almennings og starfsmanna bankakerfisins, og meðan ekki er sett eftirlit af hálfu ríkisins með þenslunni, þá heldur þetta áfram. Hvað er þá unnið ef ekki er hægt að vekja traust almennings til bankakerfisins? Það er spurningin.

Og að lokum eitt. Einn lítill banki hefur vaxið verulega á undanförnum árum. Hann heitir Seðlabanki, fullu nafni Seðlabanki Íslands. Nú vill svo til, að það var ætlunin samkvæmt málefnasamningi ríkisstj. að endurskoða löggjöf Seðlabankans. Hvað bólar á því? Mér er fullkunnugt um, að það var ætlunin að stýfa Seðlabankann, þegar ríkisstj. var mynduð, og færa eitthvað af hans valdssviði og verkum yfir í Framkvæmdastofnunina. En þróunin hefur ekki orðið eins og til var ætlast. Seðlabankinn vex stöðugt að mannafla og valdi, og samkvæmt áliti bankamálanefndar á enn að auka vald Seðlabankans á verulegum sviðum, og það er ekki einu sinni hægt að leggja fram sæmilegt frv. hér um viðskiptabankana, án þess að Seðlabankinn sé með fingur í því. Hér á að mynda samstarfsnefnd milli hins nýja banka, sem á að heita hinu furðulega nafni Búnaðar- og Útvegsbanki Íslands. Þetta minnir á Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Skipa á samstarfsnefnd viðskiptabanka ríkisins. Þar á að skipa 5 menn í nefnd, ríkisviðskiptabankarnir skipa 2 nm. hvor og Seðlabankinn einn. Elsku Seðlabankinn á þá að vera með nefið niðri í þessu líka.

Það er svo komið í þjóðfélaginu, að Seðlabankinn er fyrir ofan og handan bæði Alþingi og ríkisstj. Það er að myndast að mínu viti hættulegt fjármálavald utan við Alþingi og ríkisstj. Ég tel eitt af meginskilyrðunum í sambandi við endurskoðun á bankalöggjöfinni að taka löggjöf Seðlabankans til endurskoðunar. Hver ræður yfir Seðlabankanum? Ekki hæstv. viðsk.- og bankamrh. Hann hefur að vísu yfirumsjón með Seðlabankanum, en hann ræður þar engu að eigin sögn. Ef ætlunin er að taka tillit til vilja þjóðarinnar, þá hvílir sú skylda á alþm. og ríkisstj. að sýna þjóðinni, hver hefur valdið í þeim banka. Og ég lýk svo máli mínu með því að segja. Svona frv.- ræksni styð ég ekki.