28.03.1974
Neðri deild: 93. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3211 í B-deild Alþingistíðinda. (2893)

266. mál, viðskiptabankar

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég vil segja nokkur orð í sambandi við það frv., sem hér er til umr, og virðist vera, eins og hv. síðasti ræðumaður talaði um „frv.-ræksni“. Það má kannske segja, að það sé ekki þinglegt mál að tala um frv.- ræksni. Það er a.m.k, nýyrði hér í þessari hv. d. En það er enginn vafi á því, að það er ástæða til, hvort sem frv. er kallað ræksni eða ekki að gera ýmsar aths. við það.

Með þessu frv. er ætlast til að sameina tvo banka, tvo ríkisbanka, þ.e. Búnaðarbankann og Útvegsbankann. Þessir tveir bankar eru nú orðnir nokkuð gamlir að árum báðir tveir. Annar mun vera 44 ára og hinn 70 ára. Báðir þessir bankar eru stórir á íslenskan mælikvarða. Báðir voru þeir stofnaðir með sérstöku markmiði, það var að þjóna atvinnuvegunum. Búnaðarbankinn skyldi sérstaklega þjóna hagsmunum landbúnaðarins, og Útvegsbankinn, eftir að honum var breytt úr því að vera Íslandsbanki, eins og hann var kallaður, þá skyldi Útvegsbankinn sérstaklega þjóna sjávarútveginum. Jafnframt því að vera trúir sínu upprunalega markmiði hafa báðir þessir bankar veitt alhliða bankaþjónustu. Ég held, að það fari ekki á milli mála. En á ummælum hæstv. viðskrh. áðan var að heyra, að þessir bankar veittu ekki alhliða bankaþjónustu. Það gera þeir áreiðanlega og það í ríkum mæli, að undanskildu því, að Búnaðarbankinn hefur ekki enn fengið gjaldeyrisréttindi. Búnaðarbankinn ætti vitanlega að fá gjaldeyrisréttindi, því að hann er annar stærsti bankinn í landinu. Búnaðarbankinn hefur áhuga á því að fá gjaldeyrisréttindi, en ekki fengið enn, þrátt fyrir það að hann sé annar stærsti bankinn.

Þessir bankar samanlagt eru eins stórir og Landsbankinn. Hæstv. ráðh. sagði hér áðan, að með því að sameina bankana mundi verða mikill sparnaður. En það er vitanlega það, sem spurt verður um. Til hvers er verið að sameina bankana? Er það til þess að spara útgjöld? Er það til þess að draga úr rekstrarkostnaði, án þess að draga úr þjónustu eða þægindum, sem þessar stofnanir hafa veitt sínum viðskiptaaðilum? Við athugun kemur í ljós, að Landsbankinn, sem er jafnstór og Búnaðarbankinn og Útvegsbankinn samanlagt, hefur fleira starfslið en hinir bankarnir báðir. Það er sagt, að það séu nokkru fleiri starfsmenn í Landsbankanum en í Búnaðarbankanum og Útvegsbankanum samanlagt. Ég hef aldrei heyrt talað um, að það væri of margt fólk í Landsbankanum. En ef það er hæfilega margt fólk í Landsbankanum. sem er jafnstór og hinir bankarnir báðir, en Landsbankinn hafi meira starfslið, held ég, að hægt sé að afskrifa þá hugmynd fyrir fram, að hægt sé að fækka starfsfólki, þótt Búnaðarbankinn og Útvegsbankinn verði sameinaðir. Mér dettur ekki í hug að halda því fram, að Landsbankinn sé með of margt fólk eða þar sé ekki haldið uppi hagræðingu í rekstri. Útkoma Landsbankans á undanförnum árum hefur sýnt það, rekstrarútkoma bankans, að hún hefur verið með ágætum. En ég hygg, að bæði Búnaðarbankinn og Útvegsbankinn hafi haft mikið aðhald í sambandi við starfsmannahald. Óvist er, að lengra verði gengið, en þar hefur verið gert hvað það snertir. Í báðum bönkunum nú eru 5 aðalbankastjórar, en í sameinaða bankanum er gert ráð fyrir, að aðalbankastjórar verði 3. Hins vegar er gert ráð fyrir því, að það megi ráða varabankastjóra eftir þörfum, og þeir gætu orðið margir, ef frv. verður samþ. eins og það nú er orðað. Þá munu flestir ætla, að sparnaðurinn við fækkun aðalbankastjóra sé rokinn út í veður og vind. Það eru tvö bankaráð, 5 manna bankaráð, í þessum tveimur ríkisbönkum nú, en í sameinaða bankanum á að vera að sjálfsögðu aðeins eitt bankaráð, 7 manna. Þarna sparast 3 menn. En það er spurning, hvort það verður samt sem áður sparnaður. Bankaráð sameinaða bankans, stærri bankans, verður að sjálfsögðu betur launað, af því að þetta er stór og sameinaður banki, en bankaráð Útvegsbankans og Búnaðarbankans, á meðan þeir eru sitt í hvoru lagi og minni. Ekki verður þarna um sparnað að ræða, a.m.k. ekki umtalsverðan. En það skiptir ekki höfuðmáli, hvort bankastjórar væru 3 eða 5, hvort bankaráðsmenn væru 7 eða 10. Það er ekki stórt mál. heldur skiptir það máli, hvernig reksturinn er í aðalatriðum.

Í Ólafskveri er fram tekið, að ríkisstj. ætli sér að láta endurskoða bankakerfið allt frá grunni, það eigi að draga saman í bankakerfinu, og það eigi að endurskoða lög Seðlabankans einnig og þá náttúrlega skerða vald hans, vegna þess að margir muna, að meðan núv. stjórnarflokkar voru í stjórnarandstöðu, töluðu þeir oft um bankavaldið og vald Seðlabankans. Þess vegna ætlaði núv. hæstv. ríkisstj. að skerða þetta ofurvald bankanna og sérstaklega Seðlabankans og breyta lögum til þess að ráðh. gætu verið húsbændur yfir bönkunum. En árangurinn sjáum við. Það er þetta frv., sem hér liggur frammi og nú er verið að ræða. Hefur verið drepið á það af tveimur hæstv. ræðumönnum, hvernig þetta frv. er, hvaða tilgangi það nær. Það hefur verið fullyrt, og það er rétt sagt, að þetta frv., þótt að l. verði, geri ekki ráðh. að húsbændum yfir Seðlabankanum. Ef Seðlabankinn hefur áður haft vald yfir hæstv. ríkisstj., þá heldur hann því valdi, þótt þetta frv. verði lögfest.

Hæstv. ráðh. skipaði n. til þess að endurskoða bankalöggjöfina. Þessi n. kvartaði ákaflega mikið yfir því, að hún hefði nauman tíma. Hún hafði svo nauman tíma til þess að starfa, þessi n., að hún gat ekki unnið starfið eins og hún ætlaði sér. Hún skilaði af sér í janúarmánuði 1973 til hæstv. viðskrh. Hæstv. ráðh. hefur sennilega rekið á eftir n. En það getur verið skaðlegt að reka það mikið á eftir, að þeir, sem eiga að vinna vandasamt verk, geti ekki lokið því vegna tímaskorts. Og nú er það svo, að síðan í janúar 1973 hefur hæstv, ráðh. haft þetta frv. á borði sínu og verið að hugsa sig um í meira en ár, hvort hann ætti að flytja það og styðjast við álit bankamn., sem hæstv. ráðh. fékk í byrjun ársins 1973, en er ekki hálfunnið, vegna þess að n. hafði ekki tíma til að ljúka störfum. Það er eins og hæstv. viðskrh. hafi gert sér það ljóst, að þetta verk var ekki að fullu unnið. Og hann er á báðum áttum, hæstv. ráðh., í meira en ár um það, hvort hann eigi að byggja á þessu áliti. En fyrir hæstv. ríkisstj., sem taldi nauðsynlegt að endurskoða bankakerfið allt og bankalöggjöfina, var náttúrlega skaðlegt að eyða þessum langa tíma í aðgerðaleysi. Það hefði verið betra fyrir hæstv. ráðh, að leggja fyrir hv. bankamn. að halda áfram störfum, gefa henni frest til þess að vinna t.d. þangað til í febrúar eða mars 1974. Þá hefði n. ekki kvartað um tímaskort. Þá er líklegt, að hún hefði getað gert sér grein fyrir því, hvert skyldi stefna og hvaða vinnubrögð þyrfti til þess að ná því markmiði, sem talið væri æskilegt.

Ég vil vitna hér í álit bankamálan. orðum mínum til stuðnings, þegar hún talar um, að hún hafi haft nauman tíma. Vegna tímaskorts gat n. ekki gert sér grein fyrir því, hvort það fælist sparnaður í því að sameina þessa tvo banka, og þarf ekki annað en vitna í nál. til þess að sannfærast um það, hvað n. hafi til málanna að leggja. Með leyfi hæstv, forseta, vil ég lesa hér upp örstutt ágrip úr nál. Þar segir:

„Ljóst er, að ef ákveðið yrði að sameina Búnaðarbankann og Útvegsbankann hlytu að skapast margvísleg og viðkvæm vandamál í sambandi við yfirtöku sameinaða bankans á starfsfólki frá bönkunum tveimur. Á þessu stigi málsins taldi n. ekki rétt að kanna nákvæmlega þann vanda, sem við yrði að etja í þessum efnum, en leggur áherslu á, að mjög er mikilvægt, að þessi mál verði tekin réttum tökum, ef til sameiningar kemur.“ — N. er í miklum vafa um það, hvort til sameiningar muni koma, en leggur áherslu á, að það verði kannað rækilega, hvað af þessu gæti leitt með starfsfólkið, ef úr sameiningunni yrði, en sjálf hafði n. ekki tíma til að kanna það. Þá telur n. sérstaka ástæðu til þess að vekja athygli á þeim vanda, sem fylgja mundi yfirtöku sameinaða bankans á starfsfólki í bönkunum tveimur.

Enn segir n.: „Samruni bankastofnana og einföldun fjármálakerfisins er stefna, sem framkvæma verður með fullri gát á hæfilega löngum tíma. Í þessu efni verður að eiga sér stað þróun fremur en bylting, ef ekki eiga að koma upp alvarleg vandræði og andstaða, sem mundi gera allar slíkar fyrirætlanir að engu.“ — Það er greinlegt, að n. ætlaðist ekki til, að hæstv. ráðh. flýtti sér í þessu efni.

Og enn segir n.: „Sannleikurinn er sá, að hver stofnun á sér djúpar rætur í þeim jarðvegi, sem hún er sprottin úr. Þannig á hver bauki sinn hóp innstæðueigenda, lántakenda og starfsfólks, sem er annt um hag sinnar stofnunar og vill að hann sé ekki fyrir borð borinn í slíkri endurskipulagningu.“

Enn segir n.: „Eigi að stefna að einföldun og samruna innan bankakerfisins, er n. þeirrar skoðunar, að nauðsynlegt sé að taka alla þætti þess til endurskoðunar. Þótt n. sé þeirrar skoðunar, að stefna beri að verulegum samruna innan bankakerfisins og fækkun stofnana, vill hún eindregið vara við því, að þeirri stefnu verði fylgt án tillits til þeirra sögulegu og félagslegu sjónarmiða, sem mótað hafa þróun þessara mála hingað til. Má t.d. nefna, að þrír nýir hlutafélagabankar voru stofnaðir á undanförnum áratug með samþykki allra þingflokka.“

Enn segir n.: „Eigi að stefna að því, að ríkisbönkunum fækki úr þremur í tvo, virðist sú leið helst koma til greina, að það gerist við sameiningu Búnaðarbankans og Útvegsbankans“ helst koma til greina, en það er langt frá því, að n. vilji fullyrða, að það sé eðlilegt og það sé rétt að sameina þessa tvo banka. N. leggur þó áherslu á, að henni hefur ekki unnist tími til að kanna nægilega rekstrarlega hagkvæmni þeirrar sameiningar. N. hefur ekki unnist tími til að kanna það, hvort það er hagkvæmt að sameina þessa tvo banka. Hæstv. viðskrh. fullyrti það hér áðan, að í þessu mundi felast sparnaður. En bankastjórarnir 6, sem bankamn. skipuðu, sem störfuðu í n. í nokkra mánuði og flestum hnútum ættu að vera kunnugastir, segja í sínu áliti, að þeim hafi ekki unnist tími til þess að kanna það eða rannsaka, hvort sameiningin leiði til sparnaðar eða hagkvæmni. Og þegar þetta er athugað, þá held ég, að allir ættu að geta verið sammála um, að þetta frv. er ekki tímabært, að það er fljótfærni að flytja það og til allt of mikils ætlast, að alþm. samþykki frv., sem flutt er á skökkum forsendum og vantar raunverulega alla undirstöðu.

En n. segir meira. Hún segir m.a.: „Mat á rekstrarhagkvæmni bankakerfisins er mjög flókið mál, og taldi n, sér ekki fært að leggja fram fræðilega grg. um þessi efni. Sá stutti tími, sem n. var ætlaður til að ljúka störfum, leyfði hvorki öflun nægilegra gagna í þessu sambandi né úrvinnslu þeirra.“ — Hvaða meining er nú í þessu, að skipa n. og sníða henni það þröngan stakk, skammta henni það nauman tíma, að hún treystir sér alls ekki til þess að kanna það mál til hlítar, sem hún er að vinna? Hún treystir sér ekki vegna tímaleysis að safna nauðsynlegum gögnum. Og hæstv. ráðh. hefur þessi frumdrög að nál. hjá sér á annað ár. N. hætti störfum í janúar 1973, og eftir að hafa legið á þessu með aðgerðaleysi á annað ár, þá er frv. eins og þessu slengt inn í Alþ. Ég verð að fyrirgefa hv. 3. landsk., þótt hann tali um ræksni í sambandi við þetta frv. Þetta frv. er þannig til komið, að það er byggt á algerlega ófullnægjandi gögnum. Það er skipuð n., sem ekki fær að ljúka störfum, ekki fær tíma til þess að safna þeim gögnum, sem hún þarf til þess að geta skilað rökstuddu áliti.

Og n. heldur áfram að kvarta. Hún segir m.a.: „Gat n. ekki á starfstíma sínum kannað einstakar þessara leiða,“ — þ.e. um sparnað eða sameiningu í bankakerfinu, —„til fulls né haft um það nægilegt samráð við ýmsa aðila, sem þar eiga hagsmuna að gæta. Er óhjákvæmilegt, að þær ákveðnu leiðir til fækkunar stofnana, sem gerðar eru till. um, verði vel kynntar og nægilegs fylgis við þær aflað, áður en til framkvæmda kemur. Telur n. ekki óeðlilegt að reikna með, að 5–10 ár muni þurfa til að ná þeim samruna í bankakerfinu, sem stefnt er að með till.“ 5–10 ár. Það er eðlilegt, að n. telji, að það þurfi langan tíma, því að n, hefur alls ekki haft tækifæri til þess að sjá til botns í málinu og alls ekki getað gert till. um, á hvern hátt ætti að vinna að þessum málum, þannig að bankakerfið yrði einfaldara og ódýrara í rekstri.

Ég vænti þess, að hæstv, viðskrh. hafi lesið álit bankamn. En ég fer að halda, að það sé langt síðan hann hafi lesið það, að það sé mjög hæpið, að hann hafi stuðst við það, þegar hann flutti ræðu sína hér áðan, því að hæstv. ráðh. leyfði sér að fullyrða ýmislegt í sambandi við þetta frv., sem brýtur algerlega í bága við það, sem bankamálan, segir.

Frv. þetta um sameiningu Búnaðarbankans og Útvegsbankans er, eins og áður hefur verið sagt, flutt á skökkum forsendum. Það nær ekki þeim tilgangi, sem til er ætlast, að draga úr kostnaði. Það nær ekki þeim tilgangi, sem til var ætlast, að veita betri þjónustu. Það hefur verið minnst á útibúin, að það gæti verið sparnaður í því að sameina útibú Búnaðarbankans og Útvegsbankans. Aðeins einn staður hefur verið nefndur í því sambandi, það er Akureyri, að sameina útibú Búnaðarbankans og Útvegsbankans á Akureyri. Það má vei vera, að þetta gæti komið til greina. En ég efast mjög um það, að viðskiptamenn Útvegs- og Búnaðarbankans fyrir norðan teldu það vera heppilegt eða teldu það þjóna sínum hagsmunum. Viðskiptamenn Búnaðarbankans vilja gjarnan hafa viðskipti þar áfram. Og viðskiptamenn Útvegsbankans hafa verið þar, frá því að þetta útibú var stofnað á Akureyri, og óvíst, að þeir telji sér hag í því að breyta þar um, Þótt hægt væri að benda á sameiningu tveggja útibúa og einhver örlítill sparnaður kæmi þar til greina á kostnað þjónustunnar, þá nægir það ekki til þess að vera grundvöllur að sameiningu þessara tveggja banka.

Búnaðarbankinn var stofnaður með lögum 1930 til þess að þjóna landbúnaðinum sérstaklega. Bændur landsins vilja ekki leggja Búnaðarbankann niður. Stéttarsamband bænda mótmælir því, Búnaðarfélag Íslands mótmælir því einnig. Búnaðarsamböndin mótmæla því. Og ef talað er við einstaka bændur, þá eru þeir sama sinnis. Hæstv. viðskrh. sagði hér áðan, eða það mátti skilja hans orð þannig, að það skipti raunar litlu máli, hvað bændur segðu um þetta. Ég er á allt öðru máli. Ég tel, að það hafi mikið að segja, hvað bændur vilja um þetta segja. Bændastéttin vill hafa sinn banka, og Búnaðarbankinn hefur verið rekinn sem sjálfstæð stofnun og þróast vel. þróast þannig, að hann er annar stærsti bankinn í landinu. Búnaðarbankinn hefur ekki verið ómagi á ríkinu. Búnaðarbankinn hefur, um leið og hann hefur þjónað landbúnaðinum, haft viðskipti við aðrar stéttir og haft hin almennu viðskipti, sem hæstv. viðskrh. talaði um áðan, að bankar ættu að hafa.

Ég hygg, að það megi segja nokkuð svipað um Útvegsbankann. Hafa útvegsmenn verið spurðir, hvort þeir vilji leggja Útvegsbankann niður? Ég held, að þeir hafi ekki verið spurðir. Ég held, að sjávarútvegurinn vilji einnig hafa Útvegsbankann í því formi, sem hann er. Þar er Fiskveiðasjóður, þar er fiskimálasjóður, og þar er einnig hin almenna bankastarfsemi undir nafninu útvegur, sem þýðir sjávarútvegur. Ég hef heyrt marga útvegsmenn tala um það, að þeir vilji hafa sinn banka.

Auk þess er Landsbankinn, sem er í dag, eins og hann var, þegar hann var stofnaður, alhliða banki fyrir alla atvinnuvegi landsmanna, og þess vegna heitir hann Landsbanki. Engum dettur í hug að breyta því nafni eða gera ráðstafanir til, að Landsbankinn starfi á öðrum grundvelli en hann nú gerir.

Ég tel það ekki aukaatriði, hvað þeir segja um þetta frv., sem hafa haft viðskipti sín í þessum bönkum, og hvað þær stéttir segja, sem þessir bankar voru sérstaklega stofnaðir til þess að þjóna. Ég tel það hreina fjarstæðu að ganga fram hjá því, hlusta ekki á það. Það er jafnmikil fjarstæða og að vilja ekki hlusta á það, sem Samband ísl. bankamanna segir, Starfsmannafélag Útvegsbankans segir eða Starfsmannafélag Búnaðarbankans segir. Öll þessi starfsmannafélög mótmæla þessu frv. algerlega, Þess vegna finnst mér það vera svona dálítið kaldhæðnislegt, þegar hæstv. viðskrh. gefur í skyn, að það skipti raunverulega engu máli, hvað það fólk segir, sem starfar við þessar stofnanir, það skipti ekki heldur neinu máli, hvað það fólk segi, sem skipti við bankana. Hvað sem það segir, þá skal það fram, þetta frv., sem er vanskapnaður og ekki nær neinum heilbrigðum tilgangi, hvorki til þess að draga úr kostnaði né til þess að bæta alhliða þjónustu.

En það var einhver, sem talaði um það, að hæstv. ríkisstj. hefði sett góða beitu á öngulinn. Það eru 400 millj. kr., sem fylgja þessu frv. Og það er ætlast til, að bæði Búnaðarbankinn og Útvegsbankinn gleypi þessa beitu, þetta fylgifé, sem fylgir óskapnaðinum, frv. um sameiningu bankanna. Hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj, vita það, að þeir, sem standa að Búnaðarbankanum, og margir af þeim, sem standa að Útvegsbankanum, eru á móti sameiningunni. En hæstv. ríkisstj. gerir sér vonir um, að með því að veifa 400 millj. kr. framan í þessa aðila verði kannske unnt að fá þá til þess að fallast á frv.

Ég held, að þeir, sem ráða Búnaðarbankanum, og bændurnir, sem hafa sótt fjármuni til hans, og útgerðarmenn og útvegsmenn, sem vilja hafa Útvegsbankann áfram sem sinn banka, átti sig á því, að þessar 400 millj. eru ekkert annað en tálbeita, tálbeita, sem endist skammt. Þeir munu einnig átta sig á því, að hæstv. ríkisstj. hefur hvorki umboð né efni á því að veifa þessari fjárhæð á Alþ. eða framan í landsmenn. Ég held, að alþm. og margir aðrir í landinu séu farnir að átta sig á því, að núv. hæstv. ríkisstj. kann ekki með fjármál að fara, og eins og sagt var hér áðan, hefur hæstv. ríkisstj. í það mörg horn að líta í sambandi við fjáröflun, að hún ætti að spara sér þessar 400 millj., sem hún þarf ekki að eyða. En ég spyr: Eru þessir bankar, Útvegsbankinn og Búnaðarbankinn, svo illa staddir fjárhagslega, að þeir þurfi að sækja um styrk til hæstv. ríkisstj. og fara í tóman ríkissjóð, til þess að þeir geti starfað áfram? Ég held, að sem betur fer megi segja nei við þessari spurningu. En það má vera, að það fylgi því mikill kostnaður að sameina bankana, og ég er reyndar alveg sannfærður um það. Það fylgir því mikill kostnaður. Og það á kannske að nota verulegan hluta af þessum 400 millj. til þess að standa undir þeim kostnaði.

Það hefur verið talað um gjaldeyrisréttindi Búnaðarbankans, hann hafi ekki fengið gjaldeyrisréttindi. En með því að hann sé lagður niður og sameinaður öðrum banka, eru Búnaðarbankanum veitt gjaldeyrisréttindi. Ég hygg nú, að þeir, sem stjórna Búnaðarbankanum og fylgjast nokkuð með þessum málum, láti sér ekki detta í hug, að þeir þurfi að gleypa agn frá núv. hæstv. ríkisstj. eða ganga að einhverjum þvingunarsamningi til þess að fá gjaldeyrisréttindi. Ég er alveg sannfærður um það, að Búnaðarbankinn, annar stærsti banki landsins, fær gjaldeyrisréttindi án þess að gera óheiðarlegan verslunarsamning um slíkt. Ég er alveg sannfærður um það. Það þarf ekki að gera óheiðarlegan verslunarsamning, til þess að Búnaðarbankinn fái gjaldeyrisréttindi. Ég held, að þetta frv. sé enn ein spegilmynd þess, hvernig núv. ríkisstj. efnir loforð sín, sem oft er vitnað til, samkv. Ólafskveri.

Hæstv. forsrh. hefur gefið út tilkynningu um, að ef hann geti ekki staðið við eitt loforð í málefnasamningnum, að láta varnarliðið fara, þá muni hann segja af sér. En ef kverið væri nú lesið og loforðalistinn skoðaður, þá mætti sjá, að hæstv, ríkisstj. hefur staðið við fátt af því, sem í loforðalistanum er. En hæstv. ríkisstj. hefur ekki haft orð á því að segja af sér út af þeim atriðum í sáttmálanum. Og jafnvel þótt hæstv. ríkisstj. fengi þetta frv. samþ., dytti engum í hug, að ríkisstj. væri með því að efna loforðið um að endurskoða bankakerfið allt og draga úr kostnaði og hnekkja valdi Seðlabankans, eins og hennar meining var, þegar hún settist fyrst í valdastólana. Þótt þetta frv. væri samþykkt, er bankakerfið í heild eftir sem áður óendurskoðað. Hagkvæmni í bankakerfinu hefur ekki aukist þrátt fyrir þetta, heldur miklu fremur gæti það átt sér stað, að kostnaður mundi aukast við þessa sameiningu. Er í rauninni hægt að búast við því, að sameinaði bankinn, Búnaðarbankinn og Útvegsbankinn, eftir að sameinaði bankinn er orðinn jafnstór og Landsbankinn, að sameinaði bankinn hafi til lengdar færra fólk en Landsbankinn, sem væri álíka stór? Getur ekki verið, að sameining þessara banka leiði til fjölgunar starfsfólks? Bankanefndin treystir sér ekki til að fullyrða neitt um það.

Ég held, að það sé ekki nema um eitt að ræða í sambandi við þetta frv., þ.e. annaðhvort að vísa því frá, vegna þess að það er illa undirbúið, eða beinlínis að fella það. Ég skal engu spá um það, hver örlög frv. verða á hv. Alþ. Þetta er stjfrv. og hæstv. ráðh. minntist á, að einstakir þm. hefðu áskilið sér rétt til að vera á móti því. En það kom ekki fram, hversu margir þeir eru úr stjórnarliðinu. Ef þeir eru mjög fáir, kannske bara einn eða tveir, þá má reikna með, að þetta frv. hafi meiri hl. og verði að lögum, þótt það sé slíkt skrípi sem augljóslega má sjá, ef það er lesið og skoðað niður í kjölinn. En ég vil vænta þess, að hv. þm. lesi frv. vandlega og lesi álit bankamálan., sem hæstv, viðskrh. vitnaði mikið til áðan. Með því að lesa álit n, sannfærast þm. best um, að málið er óundirbúið og bankamálanefndin hefur ekki treyst sér til að fullyrða neitt um það, að þetta frv. geti leitt til sparnaðar eða velfarnaðar á neinn hátt.