28.03.1974
Neðri deild: 93. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3218 í B-deild Alþingistíðinda. (2894)

266. mál, viðskiptabankar

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Vegna ummæla hv. 1. þm. Sunnl. áðan, að ríkisstj. hefði lofað því, að mér skildist, að fækka bönkum, það hefði verið eitt af þeim loforðum, sem stæðu í málefnasamningnum, vil ég segja það, að í honum stendur að, vinna beri að sameiningu banka. Það er sú stefna, sem átti að vinna að, en það var ekkert loforð í því sambandi, og ég tel, að þó að af því verði ekki, þá hafi stuðningsmenn ríkisstj. ekki svikið neitt í sambandi við málefnasamninginn.

Það er alveg rétt, sem kom fram í ræðu hans og enn fremur sem kom fram í framsöguræðu hæstv, ráðh. um þetta mál, að' það eru einstakir þm. t.d. Framsfl., sem eru andvígir þessu frv. Hvað þeir eru margir, skal ósagt látið. En það er ýmislegt, sem ég hef að athuga við allt þetta mál.

Í fyrsta lagi var ég mjög undrandi, þegar ég sá, hvernig n. var skipuð í upphafi. Það voru 5 bankastjórar og einn framkvæmdastjóri, sem áttu að endurskoða og gera till. um banka, sparisjóði og sem sagt alla fjárfestingasjóði og banka, en það var enginn t.d. frá bændum, það var enginn frú útvegsmönnum, enginn frá viðskiptavinum bankanna, og það var enginn frá starfsfólki þessara banka eða bankamannasambandi. Ég hef alltaf haldið, að bankarnir væru ekki fyrst og fremst fyrir bankastjórana, heldur fyrir það fólk, sem þeir eiga að þjóna, og það hljóti að þurfa að hlusta á raddir þess. Því miður virðist, að það sé erfitt að ná eyrum þeirra, sem fara með þessi mál, og ég harma það mjög.

Þegar svo er farið að athuga um hver stefnan er í þessum málum og hver ráði þessari stefnu, sé ég ekki betur en það sé fyrst og fremst einn aðili, sem ræður stefnunni í þessum málum og hefur mótað bæði þetta frv. og í sjálfu sér álit bankamálanefndar. Það er Seðlabankinn, hann einn í sjálfu sér, enda hef ég átt viðræður við þá bankastjóra, sem voru í n., og þeir eru í mörgum atriðum ekki sammála, þótt þeir að vísu skrifuðu undir þetta, það er rétt. En þetta frv., sem hér liggur fyrir, er ekki grundvallað að öllu leyti á áliti bankamálanefndarinnar. En hvernig er með þessa samstarfsnefnd, eins og hún er byggð upp? Það er verið með þessu frv., og þessari stefnu — enda er það stefna Seðlabankans — að auka miðstjórnarvaldið í þessum málum. Er það það, sem við, t.d. dreifbýlismennirnir, höfum stefnt að? Er það þetta?

Það er ýmislegt fleira, sem er stefnt að, þó að þetta sé aðeins eitt skrefið. Það er stefnt að því að fækka sparisjóðunum, að leggja allar innlánsdeildir kaupfélaganna niður. Það er stefnt að því, að það verði aðeins eftir 30 sparisjóðir, þegar er búið að stofna 5–10 sparisjóði upp úr innlánsdeildunum. Og hvernig á að fara að fækka þessum sparisjóðum og þessum stofnunum? Á að gera það með því að skylda þá til þess að eiga vissa upphæð, 3 eða 5 millj. kr., eigið fé? Það gefur auga leið, að minni sparisjóðirnir í afskekktum byggðarlögum verða fyrstir til að hverfa, ef slík ákvæði væru sett, ekki þeir sparisjóðir, sem mættu helst hverfa, eins og t.d. hjá okkur á Akureyri eða hér í Reykjavík, heldur hinir, sem mega síst leggjast niður að mínum dómi. Á það að vera okkar stefna, sem höfum viljað færa valdið frá Reykjavík út á land, að styðja nú að því að færa þetta vald, fyrst og fremst allt fjármálavald, til Seðlabankans? Ég segi nei, það styð ég aldrei.

Því hefur verið haldið fram, að það, sem verið væri að stefna að, sé til sparnaðar og almenningi hefur verið talin trú um það. Ég man ekki betur en meira að segja Jóhannes Nordal seðlabankastjóri segði í útvarpi eða sjónvarpi, að það væri ekki umtalsverður ávinningur, kannske 10% eða eitthvað, sem hann minntist á, en viðurkenndi svo, að þetta hefði ekki verið kannað, það lægi alls engin könnun fyrir um það hvort t.d. að sameiningu þessara banka, Útvegsbankans og Búnaðarbankans, væri einhver sparnaður. Ég vil ekkert fullyrða um þetta, hvort það væri hægt að spara eitthvað. En eins og hefur komið fram hjá hv. þm., sem hafa talað hér á undan mér, er það ekki líklegt, miðað við það, að t.d. vinna við Landsbankann um 130 manns fleira en í Búnaðarbankanum og Útvegsbankanum samanlagt. Þó er litill munur á starfi þessara tveggja banka og Landsbankans, þannig að það er ekki hægt að reikna með því, að um sparnað mundi vera að ræða, enda alveg ósannað mál, hvað t.d. er hæfileg stærð á svona stofnun, til þess að hagkvæmni í rekstri sé sem best. Það er alveg ósannað mál.

Það er fróðlegt að athuga eitt. Það er verið að tala um, hvað þessir afgreiðslustaðir hér á okkar landi séu margir. Við vitum, að við erum fámenn þjóð í nokkuð stóru landi, og það er eðlilegt, að hér yrðu fleiri afgreiðslustaðir en t.d. í öðrum Norðurlöndum, ég tala nú ekki um Danmörku. En hvernig er þetta? Miðað við þær tölur, sem koma fram í bankamálaálitinu, eru 1410 íbúar á hvern afgreiðslustað í Danmörku og í Finnlandi 1430, en hér eru þeir 1646. Í Noregi eru þeir 1740 og í Svíþjóð um 1930. Ég held, að þessar tölur sýni, að það eru ekki óeðlilega margir afgreiðslustaðir, a.m.k. miðað við það, sem er á Norðurlöndum. Ég vil ekkert um það segja, hvort hægt sé að fækka þessum stöðum eitthvað. Þróunin hefur verið sú t.d. á undanförnum árum, að sparisjóðum hefur fækkað og innlánsdeildum. Það hefur verið þróunin. Og það hefur verið líka þannig á Norðurlöndum. En það á ekki lögþvinga þessa fækkun.

Það hefur komið fram áður, að bændasamtökin eru algerlega á móti þessari stefnu Seðlabankans. Þau eru algerlega á móti því t.d. að leggja niður innlánsdeildir samvinnufélaganna eða að skerða möguleika þeirra á nokkurn hátt. Þau eru á móti því að lögþvinga fækkun á sparisjóðum, og þau eru á móti því að sameina t.d. Búnaðarbankann og Útvegsbankann. Ég gæti lesið hér óteljandi fundarsamþykktir bænda í hinum ýmsu héruðum, en það þjónar engum tilgangi.

Ég ætla að láta nægja að lesa aðeins eina. Það er samþykkt, sem var gerð á Búnaðarþingi 1973. Till. var samþ. með 24 shlj. atkv., en eins og hv. alþm. vita, eiga aðeins 25 sæti á Búnaðarþingi. En samþykktin er svona:

„Búnaðarþing beinir því til stjórnar Búnaðarfélags Íslands að fylgjast sem best með þeirri endurskoðun, er nú stendur yfir á löggjöf um starfsemi banka og sparisjóða, og felur henni að beita sér gegn hvers konar aðgerðum, sem líklegar eru til að minnka lánsfé til landbúnaðarins eða skerða ráðstöfunarrétt dreifbýlisins yfir fjármagni því, sem þar myndast. Þingið bendir sérstaklega á nauðsyn þess að vera vel á verði í þessu sambandi, ef um það væri að ræða að breyta stöðu Búnaðarbanka Íslands svo og sparisjóða og innlánsdeilda kaupfélaga.“

Sams konar samþykktir hafa verið gerðar víða um land, í búnaðarsamböndum, á fundum bænda og annars staðar. Svo segir hæstv. viðskrh.: Ég geri mjög lítið úr andstöðunni eða a.m.k. andstöðu bænda í sambandi við þetta mál.

Það hefur verið dreift til þm. ýmsum umsögnum um þetta mál, t.d. frá Sambandi ísl. bankamanna og frá starfsmannafélögum bæði Útvegsbankans og Búnaðarbankans, og eins og hefur komið fram í ræðum hv. þm. á undan mér, eru allir þessir aðilar andvígir þessu frv., sem hér liggur fyrir. Og eftir því sem maður athugar þetta frv. meira, verður maður eiginlega meira undrandi á því, að þetta skuli vera ávöxtur þessa starfs, sem hefur verið lagt mikið í. Við höfum fengið hér tvær þykkar bækur, og hæstv. viðskrh. upplýsti, að þetta væri samið af Seðlabankanum. Það er ekki hægt að sjá annað en þeir starfsmenn Seðlabankans, sem hafa unnið þetta verk, séu alls ekki þeim vanda vaxnir að ganga frá svona frv.

Það þjónar engum tilgangi að tala hér langt mál að þessu sinni. Það kann að vera, að ég tali við 2. umr., ef þetta frv. kemur til 2, umr., sem ég vonast fastlega eftir að verði ekki. En ég vil segja frá því í lokin, að ég er hér með tilbúið frv. um breyt. á l. um Búnaðarbanka Íslands, og ef einhverjir hv. þm., sem hér eru, kynnu að vilja vera meðflm. með mér að athuguðu máli, þá er ég til viðræðu um það mál.