28.03.1974
Efri deild: 91. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3230 í B-deild Alþingistíðinda. (2899)

289. mál, lántökuheimild fyrir ríkissjóð

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 596 er frv. til I. um lántökuheimild fyrir ríkissjóð. Ástæðan til þess, að þetta frv. er flutt, er sú, sem ég gerði grein fyrir í hv. Sþ. vegna svars við fsp. fyrir tveim dögum, en lántakan er bundin við sölu á ríkisskuldabréfum að fjárhæð allt að 600 millj. kr. vegna jarðeldanna í Vestmannaeyjum.

Um síðustu áramót eða fyrir þau kom upp sú hugmynd hjá Seðlabanka Íslands, að rétt væri að selja bætur þær, sem húseigendur í Vestmannaeyjum fengju fyrir hús sín sem verðtryggð skuldabréf, sem þeir keyptu til þess að halda þessum verðmætum sínum í samræmi við hreyfingu á verðlagi hér innanlands. Það fór svo, að þetta frv. var ekki fram borið fyrir síðustu áramót. Ég hafði þá rætt við formenn þingflokka stjórnarandstöðunnar um þetta mál og hafði hugsað mér að bera það upp þá einmitt. En það drukknaði í þeim önnum, sem Alþ. átti í seinni hluta desembermánaðar.

Í jan. sendi ríkisstj., eða fjmrh. og fjmrn., Viðlagasjóði bréf til þess að spyrja um, hvernig með bæturnar skyldi farið, hvort ríkissjóður ætti einn að greiða þær, eða til kæmi það, að Viðlagasjóður tæki að sér greiðslurnar. Formlegt svar barst ekki frá Viðlagasjóði við þessu bréfi. Hins vegar lét form. stjórnar Viðlagasjóðs það álit í ljós við mig, að þetta mál væri ekki orðið eins mikið nauðsynjamál og talið hefði verið á s.l. hausti, og ég gat ekki skilið það á annan veg en áhugi sá, sem fyrir þessum verðtryggðu bréfum væri, væri þá liðinn hjá. Hins vegar hefur bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum rætt þetta mál við mig síðar og gerði það nú fyrir stuttu, þar sem hann lýsti áhyggjum sínum yfir því, ef þetta frv. yrði ekki fram borið, að þá mundi verða hætta á því, að þeir fjármunir, sem þeir fengju sem bætur fengju greiddar, yrðu notaðar til þess að kaupa hús hér eða annars staðar utan Vestmannaeyja, en ekki í hinum raunverulega tilgangi að byggja Vestmanneyjar upp aftur. Ég skýrði honum málavexti og hvað hefði valdið því, að ekki hefði orðið af framkvæmd þessari, því að það liggur í augum uppi, að útgjöld verða vegna þessa máls, og ég hefði talið, að eðlilegt væri að skipta þeim að einhverju leyti.

Eftir nokkrar umr, um þetta mál varð niðurstaðan, að út í þetta skyldi farið, enda mætti gera ráð fyrir, að einhverjar tekjur kæmu upp í þessa fjárhæð vegna vaxtamismunar, sem væri á höfuðstólnum, þegar hann lægi á bankareikningi, og þeim bótum, sem væru greiddar í vöxtum, því að aðalbæturnar væru verðbætur. Það varð því niðurstaða mín að fara með málið í ríkisstj. og óska eftir heimild til þess að mega leggja fyrir Alþ. þetta frv. til þess að tryggja, að þessir fjármunir yrðu til þess, að byggt yrði upp í Vestmannaeyjum aftur, enda er það ákvæði bundið í lögum, og þetta kemur því aðeins til greiðslu með verðtryggingu, að það verði notað til húsbygginga í Vestmannaeyjum, og fyrsta útborgun kæmi til, þegar fyrir lægi fokheldisvottorð viðkomandi eiganda fjáreignarinnar.

Í öðru lagi hefði þetta þau áhrif að draga úr þenslu einmitt á því sviði hér, á höfuðborgarsvæðinu, því að einmitt Vestmannaeyjagosið og þeir fjármunir, sem fóru til kaupa á fasteignum á því svæði á s.l. ári, höfðu hér slík áhrif að auka mjög á þenslu og verðlag fasteigna. Enda þótt það sé ljóst, að ríkissjóður verði á tímabilinu að greiða einhverja fjármuni, — hversu miklir þeir kunna að verða er ekki hægt að segja á þessu stigi, — mundu þeir á þessu ári ekki verða veitt, sem teljandi væri, og þeir gætu dreifst á allt að fimm ár, þá var allt ríkisstj., að réttmætt væri, til þess að styðja byggð í Vestmannaeyjum, að verða við þeirri ósk að flytja þetta frv.

Um þetta mál hefur orðið algjör samstaða í hv. Nd., og vegna þess að útborganir til eigenda þeirra húsa, sem misstu hús sín í Vestmannaeyjum, ein greiðsla, er nú um næstu mánaðamót, verð ég að leyfa mér að fara fram á það við hæstv. forseta d. og hv. dm., að þeir taki þetta mál til þeirrar meðferðar, að það geti helst orðið að lögum í dag, því að nauðsyn ber til, að það verði komið til afgreiðslu nú n.k. mánudag, þegar útborganir hefjast.

Hv. fjhn: menn þessarar hv. d. sátu í dag fund með fjh.- og viðskm. Nd. Alþingis um þetta mál. Þar var einróma afgreiðsla á málinu, og hæstv. forseti getur því gert hlé á fundum, meðan n. athugaði málið.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.