18.10.1973
Sameinað þing: 4. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í B-deild Alþingistíðinda. (29)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Fyrstu orð mín skulu vera um landhelgismálið.

Frá upphafi hefur Alþfl. stuðlað að samstarfi um það mál. Hann hefur talið einingu þings og þjóðar vera sterkast og sigursælast vopn í baráttunni fyrir rétti okkar. Í þessu máli eiga ekki að vera til stjórnarflokkar og stjórnarandstöðuflokkar, heldur aðeins Íslendingar. Nú hafa þau stórtíðindi gerst í þessu máli, að ríkisstj. virðist vera að klofna. Til þess hefur ekki verið ætlast af þingflokki Alþfl., að hann hefði nú á þessari stundu lokið athugun sinni á málinu, enda hefur hann ekki gert það. Hið eina, sem ég get sagt um málið nú, er, að ég harma, að einn stjórnarflokkanna skuli hafa birt opinberlega afstöðu sina, meðan hann vissi, að málið var til athugunar h,já öllum hinum flokkunum.

Jafnnauðsynlegt og það er, að Íslendingar varðveiti sambug í landhelgismálinu, er eðlilegt, að um ágreining sé að ræða í hinu aðalviðfangsefninu, sem við er að etja á sviði utanríkismála, þ. e. a. s. varnarmálunum.

Segja má, að þrjú meginviðhorf séu uppi varðandi þá endurskoðun varnarsamningsins við Bandaríkin, sem nú fer fram. Fyrst nefni ég þá skoðun, að ekki eigi að gera neina grundvallarbreytingu á þeirri skipan, sem verið hefur undanfarna tvo áratugi á grundvelli varnarsamningsins frá 1951. Í öðru lagi er því haldið fram, að segja beri varnarsamningnum upp og láta engan nýjan samning koma í hans stað. Það eigi m. ö. o. að leggja niður alla þá starfsemi, sem nú fer fram í Keflavíkurstöðinni. Þriðja skoðunin er sú, að halda eigi áfram því friðargæslu- og eftirlitsstarfi, sem haldið hefur verið uppi og haldið er uppi frá Keflavíkurflugvelli, á grundvelli nýs samnings, sem um það yrði gerður, en kanna möguleika á því, að stöðin verði óvopnuð eftirlitsstöð með stóraukinni þátttöku Íslendinga í þeim störfum, sem þar þarf að vinna.

Þegar varnarsamningurinn var gerður árið 1951, var hann samþykktur af öllum þáv. þm. Alþfl., þótt flokkurinn væri þá í stjórnarandstöðu aðstæður allar voru þá ólíkar því, sem nú er. Stöðin var þá fyrst og fremst herstöð. Síðan hefur orðið mikil breyting á hernaðartækni, og staða Íslands í varnarkerfi Atlantshafsbandalagsins er önnur en þá var. Nú er stöðin fyrst og fremst eftirlitsstöð til öryggisgæslu á Norður-Atlantshafi og annast fjarskiptatengsl við hliðstæðar stöðvar í löndum báðum megin Atlantshafs. Af þessum sökum á gamli samningurinn ekki lengur við. Á hinn bóginn er það fráleitt sjónarmið að gera ráð fyrir því, að samningnum sé sagt upp, án þess að nokkuð komi í staðinn. Það hefði ekki aðeins í för með sér, að herliðið á Keflavíkurflugvelli hyrfi af landinu, heldur einnig, að allt eftirlitsstarfið, sem nú er rækt frá stöðinni, yrði lagt niður. Þetta starf er í þágu friðargæslu í Norðurhöfum, það er í þágu öryggis í þeim heimshluta, sem við byggjum.

Íslendingar eru aðilar að Atlantshafsbandalaginu, og yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga er án efa fylgjandi því, að við verðum það áfram að óbreyttu ástandi heimsmála, enda hefur það verið hornsteinn utanríkisstefnu allra ríkisstjórna á Íslandi, síðan Atlantshafsbandalagið var stofnað. Íslendingar þurfa að tryggja sér lágmarksöryggi á sviði varnarmála eins og aðrar smáþjóðir. Það gera þeir með aðild að Atlantshafsbandalaginu. Því fylgja vissar skyldur við sjálfa okkur og nágranna okkar. Héðan er auðveldast og ódýrast að stunda eftirlitsstörf á Norður-Atlantshafi með hagnýtingu þess tæknibúnaðar, sem til slíks er nauðsynlegur. Þau störf eru nú eingöngu í höndum Bandaríkjamanna. Þau eiga Íslendingar að taka að sér í sívaxandi mæli. En það þarf ekki að jafngilda því, að hér sé erlent herlið í venjulegum skilningi þess orðs. Það er þvert á móti orðið tímabært að kaupa, með hverjum hætti sé hægt að endurskipuleggja þau störf, sem unnin hafa verið af bandarískum hermönnum í stöðinni, þannig að þeirra verði ekki þörf. Það, sem gera þarf, er að breyta herstöð á Keflavíkurflugvelli í hreina eftirlitsstöð, þar sem yfirstjórn sé í höndum Íslendinga sjálfra. Þetta er kjarni þeirrar till., sem þm. Alþfl. hafa flutt um nýskipan varnarmálanna á Íslandi. Ef utanrrh. beitir sér fyrir slíkri stefnu í viðræðum sínum við bandarísk stjórnvöld, getur hann átt stuðning þingflokks Alþfl. vísan.

Þjóðin veit því miður ekki, hver verður stefna ríkisstj. í varnarmálum, en veit, hver hefur verið stefna hennar í efnahagsmálum. Af þeirri stefnu hefur þjóðin bitra og ömurlega reynslu. Þegar ríkisstj. tók við völdum fyrir rúmum tveim árum, efndi hún til dýrðlegrar veislu og lofaði öllum gulli og grænum skógum. Um margt minnti háttalag ríkisstj. á léttúð prestsins í Hruna í þjóðsögunni, sem allir Íslendingar þekkja. Hann vildi láta dansinn duna í Hruna. Hann sinnti ekki aðvörunum — ítrekuðum aðvörunum. „Einn hring enn“, sagði hann, „einn hring enn“. Auðvitað vonum við, að ekki fari fyrir þjóðarbúinu eins og kirkjunni í Hruna. En presturinn var á valdi ills afls. Það eru því miður líka til ill öfl í íslensku þjóðfélagi, en þau mega ekki fá að ráða ferðinni. Það verður að stöðva óheilladansinn, áður en í óefni er komið.

Ég veit, að málsvarar ríkisstj. spyrja, hvort mönnum finnist ekki allt standa í blóma. Er kannske ekki nóg atvinna, eru tekjur manna ekki háar, er gjaldeyrisvarasjóðurinn ekki stór? Allt er þetta rétt, svo langt sem það nær. En það, sem mestu máli skiptir, er, hvað fram undan er. Það, sem öllu máli skiptir, er, hversu traust undirstaðan sé, hvort afkoma okkar og hagur stendur á traustum fótum eða brauðfótum. Hver er sannleikurinn um það mál?

Eini undirstöðuatvinnuvegurinn, sem stendur í blóma, er fiskiðnaðurinn. Hann á velgengni sína auðvitað að þakka gífurlega háu verðlagi í Bandaríkjunum. Togararnir fá ríkisstyrk og þurfa aukningu hans. Þorskveiðarnar verða í ár reknar með tapi. Forvígismenn bæði einkaiðnaðar og samvinnuiðnaðar hafa lýst þeirri skoðun sinni, að iðnaðurinn í heild muni tapa á þessu ári. Þannig er komið fyrir atvinnuvegunum í mesta góðæri íslenskrar sögu. Hvernig má slíkt gerast? Ástæðan er auðvitað sú, að ríkisstj. hefur ekki tekist að efna það meginloforð, sem hún gaf, er hún tók við völdum, að sjá svo um, að verðbólga yrði hér ekki meiri en í nálægum löndum.

Í viðskiptalöndum okkar hefur verðbólgan yfirleitt verið á bilinu 5–10%. Hér hefur undanfarin tvö ár verið nær 15% en 10%, og er það meiri verðbólga en átti sér stað að meðaltali á ári á síðasta áratug. Síðustu 12 mánuði hefur verðbólgan vaxið meira en 20%. Samt er allt látið reka á reiðanum.

Dómurinn um störf ríkisstjórnar hlýtur fyrst og fremst að byggjast á samanburði á því, hvað hún segist ætla að gera eða hefur áður sagt, að gera ætti, annarsvegar og því, hvað hún gerir, hins vegar. Stjórnarflokkarnir sögðust ætla að takmarka verðbólguvöxtinn. Hvað hefur orðið? Hann hefur aldrei verið meiri. Þeir sögðust ætla að treysta rekstrargrundvöll undirstöðuatvinnuveganna. Þeir ýmist tapa nú þegar eða sjá fram á taprekstur. Þeir sögðust ætla að lagfæra skattakerfið. Hvað gerðu þeir? Þeir þyngdu skatta á launafólki og meira að segja gamalmennum, auk þess sem þeir gerðu skattkerfið ranglátara. Þeir höfðu áður talið fullar vísitölubætur á laun ófrávíkjanlega nauðsyn launastétta. Hvað hafa þeir gert? Þeir hafa oftar en einu sinni skert vísitölubætur, og raunar hefur ríkisstj, ætlað að gera það enn oftar, en það strandaði á eigin stuðningsmönnum og andstöðu launþegasamtaka. Þeir sögðust ekki ætla að beita gengislækkun sem hagstjórnartæki með hliðsjón af því, sem t.d. ráðh. voru áður búnir að segja um gengislækkun. Munu margir hafa búist við því, að slíkt létu þeir sig þó aldrei henda. En nei og ónei, þeir hafa lækkað gengið, ekki einu sinni, heldur oftar. Þeir lofuðu vaxtalækkun. Skyldu þeir hafa efnt það? Nei, þeir hafa hækkað vexti. Muna menn ekki ræðurnar, sem haldnar voru til að sýna fram á, hversu stórskaðleg innlánsbinding Seðlabankans væri? Hljóta þeir ekki að hafa dregið úr henni? Ekki aldeilis, þeir hafa aukið hana. Eru þeir búnir að gleyma árlegum ræðum núv. ráðh. um nauðsyn aukins sparnaðar í opinberum rekstri ríkisins? Skyldu þeir hafa sparað? Árið áður en þeir tóku við stjórnartaumum var upphæð fjárlaga 11 milljarðar króna. Fjárlagafrv. fyrir næsta ár nemur 27 mill,jörðum. Auðvitað hefur verðlag hækkað, og hér er ekki einvörðungu um eyðslusemi að ræða, heldur er svið fjárlaganna nú nokkurt víðtækara en áður. En hitt er satt og rétt, að eyðslusemi þessarar ríkisstj. hefur verið ótrúleg og fjölgun starfsliðs hjá hinu opinbera gífurleg. Muna menn nokkuð eftir því, að einhvern tíma hafi verið talin nauðsyn á sparnaði í utanríkisþjónustunni, jafnvel að leggja niður sendiráð? Skyldi þetta ekki hafa verið gert? Hver hefur orðið var við það? Og skyldu menn vera búnir að gleyma ræðunni um, hversu stórhættulegt væri að semja við svissneskt auðfélag um atvinnurekstur á Íslandi? Þarf nokkur að vera hissa á því, þó að þeir menn séu nú til á Íslandi, sem finnst það meira en lítið skrýtið, að nú skuli það vera orðið stórkostlega hagkvæmt að semja við bandarískan auðhring um fjárfestingu á Íslandi?

Ég læt hér staðar numið. Þessi dæmi nægja til þess að sýna, að þessi ríkisstj. hefur gert allt annað en hún sagði, að gera þyrfti, meðan forustumenn hennar voru í stjórnarandstöðu, og allt annað en hún sagðist sjálf ætla að gera, þegar hún tók við völdum, burt séð frá því, að það er ekki beinlínis göfugmanalegt að gera sjálfur það, sem búið er að ráðast á aðra fyrir að gera, og ekki beint heiðarlegt að breyta gegn því, sem menn hafa lofað.

Það væri ekki ástæða til þess að finna að gerðum ríkisstj, ef það stefndi yfirleitt í rétta átt. En því miður er langt frá, að því sé að heilsa. Engri íslenskri ríkisstj., hvorki fyrr né síðar, hefur mistekist stjórn efnahagsmála jafnhrapallega og þessari. Þetta er flestum ljóst en þeim, sem höfðu vantrú á ríkisstj. frá upphafi. Fjölmörgum stuðningsmönnum ríkisstj, hefur smám saman verið að verða þetta ljóst. Meira að segja einum þm., sem hvað ákafast studdi ríkisstj. við myndun hennar, virðist hafa orðið þetta ljóst nú á þessu ári, og á ég þar við Bjarna Guðnason prófessor. Hann hefur, eins og kunnugt er, sagt sig úr þingflokki SF. Undir lok síðasta þings gaf hann það í skyn, að hann gæfi ekki talist skilmálalaust stuðningsmaður ríkisstj. lengur, og bar því réttilega við, að hún hefði engin tök á stjórn efnahagsmála. Frá því var skýrt opinberlega í sumar, að ríkisstj. hafi ætlað að gefa út brbl. um nýja skattlagningu vegna hallarekstrar hjá ríkissjóði. Ríkisstj. má ekkert atkvæði stuðningsmanna sinna missa í hvorugri þd., þá er hún ekki örugg um meirihluta. Þegar skattlagningaáformin voru borin undir Bjarna Guðnason, er talið, að hann hafi lýst sig þeim andvígan. Þess vegna hætti ríkisstj. við útgáfu brbl. Á s. l. sumri skapaðist m. ö. o. það ástand, að ríkisstj. missti raunverulegan meirihl. sinn á Alþingi. Undir öllum venjulegum kringumstæðum hefði forsrh. átt að draga þá ályktun af þessum atburðum að biðjast lausnar fyrir ríkisstj. Skrif Bjarna Guðnasonar í blað hans í sumar benda eindregið til þess, að honum sé orðið það ljóst, að ríkisstj. hefur ekki ráðið við efnahagsvandamálið. Og hann er áreiðanlega ekki einn um þá skoðun meðal þeirra, sem upphaflega studdu stjórnina. Ef það er rétt, að Bjarni Guðnason sé orðinn andsnúinn ríkisstj. varðandi stjórn efnahagsmála, þá er grundvöllur stjórnarsamstarfsins brostinn, rúmlega tveim árum eftir að til þess var stofnað.

Fyrir dyrum standa allsherjar launasamningar í landinu. Það gerist nú í fyrsta skipti, að launþegasamtökin gera kröfur um breytingar á skattalögum að einu meginatriði kröfugerðar sinnar. Órækari sönnun er ekki hægt að fá fyrir því, að ríkisstj. hefur stefnt skattamálum þjóðarinnar í algert óefni. Launþegarnir telja skattabyrðina orðna óeðlilega þunga og skattheimtuna rangláta, þess vegna krefjast þeir breytinga. Það er tvímælalaust rétt, að engum lögum er nú nauðsynlegra að breyta, og breyta þegar í stað en skattalögunum. Þingflokkur Alþfl. hefur rætt þessi mál ítarlega að undanförnu. Hann mun leggja tillögur um gagngera breytingu á skattakerfinu fyrir fund flokksstjórnar Alþfl., sem haldinn verður um næstu helgi, og mun flokksstjórnin taka endanlega ákvörðun um tillöguflutning varðandi þetta mál. Þingflokkurinn er þeirrar skoðunar, að tímabært sé orðið að láta ekki lengur sitja við lagfæringar á gamla skattkerfinu, heldur eigi að breyta sjálfum grundvelli þess. Sannleikurinn er sá, að stighækkandi tekjuskattur þjónar ekki lengur því hlutverki, sem honum var ætlað að þjóna á sínum tíma, þ. e. a. s. að vera aðaltæki ríkisvaldsins til tekjuöflunar. Þegar meginþorri launþega greiðir frá þriðjungi til helmings tekna sinna í skatt til ríkisins, er ekki lengur um áhrifamikið tæki til tekjuöflunar að ræða. Að slíkum markmiðum er nú fyrst og fremst keppt með kerfi almannatrygginga, ókeypis eða ódýrri þjónustu á ýmsum sviðum, fyrst og fremst í skólamálum og heilbrigðismálum,. og niðurgreiðslu á nauðsynjavörum. Sporið, sem nú ætti að stíga í skattamálum, er að fella beinlínis niður alla skattheimtu tekjuskatts af tekjum einstaklinga upp að allháu marki, en láta menn greiða gjöld til hins opinbera í formi óbeins skatts, söluskatts eða öllu heldur virðisaukaskatts í staðinn. Þm. Alþfl. telja, að ríkið ætti að hætta að innheimta tekjuskatt af tekjum, sem hjá hjónum nema 750 þús. kr., og breytist þessi upphæð í hlutfalli við fjölskyldubyrði. Með þessu móti mundu allar venjulegar tekjur vera tekjuskattsfrjálsar, jafnvel þótt þær væru í hærra lagi. Með þessari breytingu er stefnt að stórfelldri lækkun á heildartekjuskatti einstaklinga, — lækkun, sem ætlað væri að nema um 2/3 hlutum. Hins vegar væri ekki rétt að lækka. tekjuskatt af hærri tekjum, en mætti þó aldrei vera hærri en hann gerist nú hæstur hlutfallslega. Þá er rétt að halda áfram með stighækkandi tekjuskatt af atvinnurekstri. Í því sambandi er þó sjálfsagt, að skattfrelsisreglurnar gildi um einstaklinga, sem hafa tekjur að eigin atvinnurekstri, ef hann byggist fyrst og fremst á vinnuframlagi þeirra sjálfra.

Meginorsökin fyrir því, að rétt sé að hverfa að verulegu leyti frá innheimtu jafnhás tekjuskatts og nú er í framkvæmd, eru þau, að þessi óhóflega skattheimta er í mörgum tilfellum orðin fjötur á framtakssemi og vinnuvilja og þess vegna beinlínis hemill á heilbrigðan og eðlilegan vöxt þjóðartekna. Þetta er orðið vandamál víða í nálægum löndum. Enginn vafi er á því, að svipaðar breytingar verða gerðar á næstu árum í ýmsum löndum. Mætti Íslendingum verða það ánægjuefni að vera hér í fararbroddi.

Miðað við árið í ár mundu tekjur ríkissjóðs lækka um 21/2 milljarða kr. við slíka breytingu. Þeirrar fjárhæðar þarf að sjálfsögðu að afla ríkissjóði. Það væri hægt með því að halda þeirri söluskattshækkun, sem nú rennur í Viðlagasjóð, og hækka söluskattinn til viðbótar um 2–3 stig.

Til þess að auka tekjur þeirra, sem vegna þessarar breytingar mundu greiða meira í söluskatt en þeir hefðu greitt í tekjuskatt, er nauðsynlegt að stofna sjóð, sem vera ætti þáttur í almannatryggingakerfinu, og verður það einn liður í tillögugerð þingflokks Alþfl. um þessi efni. Á það má og benda í þessu sambandi, að í væntanlegum launasamningum væri hægt að semja um sérstaka launahækkun til handa þeim, sem eru í lægri tekjuflokkunum, þannig að tryggt væri, að samfara breytingum beinu skattheimtunnar í óbeina yrði kaupmáttur launa þeirra varðveittur, auk þeirrar launahækkunar láglaunastétta, sem nauðsynleg væri vegna tekjujöfnunarsjónarmiða.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að undanbrögð undan skatti, bæði söluskatti og sköttum af tekjum, eru eitt helsta þjóðfélagsmein á Íslandi. Sérhver hækkun söluskatts gerir aukið skatteftirlit æ nauðsynlegra, og leggur þingflokkur Alþfl. sérstaka áherslu á þetta atriði. Undanbrögð undan greiðslu tekjuskatts og útsvars hafa í mörgum tilfellum verið svo augljós, að telja verður til hinnar alvarlegustu þjóðfélagsmeinsemdar. Ef greiðendum tekjuskatts fækkar stórlega, eins og hér er rætt um að gera, ætti að vera miklum mun betra tækifæri. til þess að líta eftir framtölum hinna, sem tiltölulega háar tekjur hafa og stunda atvinnurekstur. Þingflokkur Alþfl. telur nauðsyn þess, að þessir aðilar greiði það, sem þeim ber að greiða, eitt mesta nauðsynja- og réttlætismál, sem úrlausnar bíður í íslenskum stjórnmálum.

Í þessu sambandi er og rétt að minna á fyrri tillögur þm. Alþfl. um að gera allar konur að sjálfstæðum skattþegnum, hvort sem þær eru giftar eða ógiftar og hvort sem þær afla sér tekna með vinnu utan heimilis eða ekki. Hér er um að ræða réttlætismál, sem fyrr eða síðar hlýtur að komast í framkvæmd og því fyrr því betra.

Þessar hugmyndir þingflokks Alþfl. um skattamál falla saman við þá stefnu, sem verkalýðshreyfingin hefur markað í þessum efnum, en gera ráð fyrir grundvallarbreytingu á skattakerfinu sjálfu. Með þessum hugmyndum er boðuð ný stefna í skattamálum á Íslandi. Í því felst, að umbætur í skattamálum séu nú brýnasta verkefnið í íslenskum fjárhagsmálum og réttlátari skattheimta besta leiðin til þess að bæta kjör launþega og auka réttlætið í efnahagsmálum. Ég þakka þeim, sem hlýddu.