28.03.1974
Efri deild: 93. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3237 í B-deild Alþingistíðinda. (2916)

262. mál, mat á sláturafurðum

Frsm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Á undanförnum árum hefur staðið yfir bygging og breyting á sláturhúsum landsins, og var á sínum tíma ráðgert að ljúka því verki á skemmri tíma en raun hefur á orðið. Framkvæmdir þessar eru mjög kostnaðarsamar, og auk þess er alltaf að koma til ný tækni, sem verið er að prófa í sláturhúsunum. Það er þegar búið að byggja upp 8 sláturhús, sem eru útbúin nýjustu og bestu tækni, sem völ er á á þessu sviði, og er það á eftirgreindum stöðum: Borgarnesi, Búðardal, Hólmavík, Blönduósi, Sauðárkróki, Húsavik, Kirkjubæjarklaustri og Selfossi. Eftir er þá að byggja álíka mörg sláturhús, en mörg þessara húsa eru gömul og verður að lagfæra þau flest árlega, og slíkt viðhald hlýtur að vera mjög kostnaðarsamt.

Frv. þetta fjallar um það, að veita undanþágu frá aðalreglum og kröfum um útbúnað sláturhúsa, en þó aðeins í eitt ár í senn. Þeir, sem meta ásigkomulag húsanna, eru hlutaðeigandi héraðsdýralæknir og yfirdýralæknir, og undanþágur þessar eru oftast veittar gegn því, að sláturleyfishafar uppfylli sett skilyrði. Frv. þetta gerir svo ráð fyrir, ef að lögum verður, að tímamörkin gildi til ársloka 1976, en þau herða vafalaust á því, að byggð verði upp sláturhús þau, sem verst eru á vegi stödd. En tæplega er þess að vænta að þau 8–9 bús, sem ráðgert er að byggja, verði öll komin upp á næstu þremur árum.

Landbn. mælir með því, að frv. þetta verði samþ. óbreytt, eins og fram kemur í nál.