06.11.1973
Sameinað þing: 13. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í B-deild Alþingistíðinda. (293)

10. mál, almenningsbókasöfn

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson) :

Herra forseti. Fsp. hv. 4. þm. Reykn. svara ég á þessa leið :

Hinn 18. sept. 1970 skipaði þáv. menntmrh., dr. Gylfi Þ. Gíslason, n. til þess að endurskoða gildandi l. um almenningsbókasöfn, nr. 22 frá 1963. N. var einnig falið að athuga um möguleika á framkvæmd hugmyndar um kaup á vissum fjölda eintaka íslenskra bóka til handa almenningsbókasöfnum. Í n. áttu sæti Stefán Júlíusson bókafulltrúi, formaður, Eiríkur Hreinn Finnbogason borgarbókavörður skipaður samkv. tilnefningu Sambands ísl. sveitarfélaga, Hilmar Jónsson bókavörður, tilnefndur af Bókavarðafélagi Íslands, Matthías Jóhannessen rithöfundur, tilnefndur af Rithöfundasambandi Íslands og Örn Marinósson deildarstjóri, tilnefndur af fjmrn. N, lauk störfum í lok aprílmánaðar 1971 og sendi menntmrn. frv. til nýrra l. um almenningsbókasöfn.

Lög um almenningsbókasöfn voru sett árið 1955 og endurskoðuð árið 1963. Guðmundur Gíslason Hagalín rithöfundur bar hita og þunga skipulagningar þessara mála, og hefur verið búið að þeirri gerð til þessa dags. En að því er varðar frv., sem n. frá 1970 samdi, má segja, að meginbreytingar þær, sem í hinu nýja frv. felast, séu fjárhagslegs eðlis, þótt fleiri séu þær, þ. á. m. að komið sé á fót embætti bókasafnsstjórn ríkisins og bókasafnadeild í menntmrn., sem þessi nýi embættismaður á að veita forstöðu samkv. frv.

Ég vil strax taka það fram, að því er þessa skipan varðar, að bókafulltrúi er nú einn af fulltrúum rn. og heyrir undir þá deild, sem fjallar um safnamál. þ. á m. málefni bókasafna, og verður ekki séð, að nauðsyn sé eða æskilegt að efna til annarrar og umfangsmeiri og kostnaðarsamari stjórnar þessara mála.

Menntmrn. sendi Sambandi ísl. sveitarfélaga og Bókavarðafélagi Íslands frv. til umsagnar. Umsagnir bárust frá báðum þessum aðilum, frá Sambandi ísl. sveitarfélaga 8. febr. 1972 og frá Bókavarðafélagi Íslands 11. febr. 1972. Báðir hafa aðilar þessir sitthvað við frv. að athuga, og m. a. segir í bréfi frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, að stjórn sambandsins telji mikilsvert, að lög, sem snerta samskipti ríkis og sveitarfélaga, séu sem auðveldust í framkvæmd, en stjórnin telji, að nokkuð skorti á slíkt í frv., ákvæði þess séu óþarflega margbrotin og falli ekki að öllu leyti vel að stjórnkerfi landsins, og síðan eru rakin nokkur dæmi um þetta, svo sem að bókasafnshverfi samkv. 3. gr. frv. séu mörg hver óháð öllum öðrum stjórnsýsluumdæmum landsins og engan veginn fastmótaðar reglur um stjórn þeirra, sbr. 15. gr. frv. Þá er talað um óljós hlutverkaskipti milli bæjarbókasafna og héraðsbókasafna, og reglur um fjárframlög ríkis og sveitarfélaga virðist nokkuð handahófskenndar. Einnig er talið ástæðulaust að kveða svo náið á um bókavarðastöður og ætla bókavörðum fríðindi umfram aðra starfsmenn sveitarfélaga. sbr. 13. gr. frv. Einnig telur stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga ástæðulaust að blanda sveitarfélögum í hagsmunamál rithöfunda, eins og t. d. með ákvæðum um framlög til ákveðinna bókakaupa og í tiltekna sjóði. Segir stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga, að eðlilegra virðist, að ríkið leysi þau mál og yrðu framlög til bókasafna lækkuð sem því nemur, og virðist sú tilhögun, sem gert er ráð fyrir í frv., leiða til óþarfa skriffinnsku. Þá segir enn fremur, að ástæða virðist til að haga fjárframlögum ríkisins til bókasafnsbygginga með svipuðum hætti og sé um framlög ríkisins til skálabygginga, en í frv. er gert ráð fyrir því í 9 gr., að bæir og sýslur sjái söfnunum fyrir viðunandi húsnæði, en fái sem nemur 1/3 hluta byggingarkostnaðar úr ríkissjóði. Þá telur stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga óeðlilegt að fastskorða svo mjög fjárframlög sveitarfélaga eins og frv. gerir ráð fyrir. Enn fremur er bent á, að nauðsynlegt sé að kanna, hvernig tengslum skólabókasafna og héraðsbókasafna verði best fyrir komið. Að lokum leggur stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga til, að frv. verði tekið til endurskoðunar með hliðsjón af framangreindum ábendingum.

Þá hefur stjórn Bókavarðafélags Íslands sitthvað við frv. að athuga og telur, að misráðið hafi verið að fela n. þeirri, er samdi frv., að fjalla einnig um þann vanda íslenskra rithöfunda og útgefanda, sem bókakaupatillaga rithöfundaþings haustið 1969 var sprottin af. Sé það afar óaðgengilegt fyrir almenningsbókasöfn í landinu, að vandi íslenskra rithöfunda og útgefenda sé leystur á þann hátt, að á söfnin sé lögð þröng bókakaupakvöð með auknum fjárframlögum, er söfnin sjálf teldu e. t. v. betur varið öðruvísi. Telur stjórn Bókavarðafélagsins grundvallaratriði, að bókaval sé í höndum safnanna sjálfra og miðað við þarfir þeirra á hverjum stað. Sé það meginviðmiðun í rekstri góðs bókasafns, að það skuli sinna þörfum notenda og engra annarra, og megi minna á, að þau söfn, sem vel séu rekin, veigri sér meira að segja við því að taka við bókagjöfum, ef þær eiga ekki erindi við safnnotendur.

Telur stjórn Bókavarðafélagsins veigamesta atriði frv. miðað við gildandi lög, að frv. geri ráð fyrir verulegri aukningu fjárframlags frá ríki og sveitarfélögum til almenningsbókasafna. Heyrist þess oft getið, að það, sem einkum standi almenningsbókasöfnum fyrir þrifum hér á landi, sé fjárskortur. Þetta sé rétt, eins langt og það nái, en þó varla sannleikurinn allur. Einnig þurfum við að gefa gaum að því, hvernig aukinni fjárveitingu verði varið af sem mestri kunnáttu, svo að hún megi koma að sem bestum notum og verða til að auka verulega þjónustu safnanna. Telur stjórn Bókavarðafélagsins, að þurft hefði að hyggja sérstaklega að þessu við endurskoðun l., og til þess að tryggja gagnsemi aukinna fjárveitinga telur stjórnin, að tvenns þurfi einkum við:

1. Að söfnin verði betur tengd í samvirkt kerfi, þar sem stærri söfnin, miðbókasöfnin, hefðu mun ríkari þjónustuskyldu við hin smærri en nú er, og fælist þetta bæði í miðlun á starfsþekkingu, upplýsingaþjónustu og láni á farandsöfnum til tímabundinna nota.

2. Að til miðbókasafna geti ráðist bókaverðir með staðgóða kunnáttu til safnstarfa. Þeir gætu öðrum fremur stuðlað að því, að söfnin yrðu ekki rykfallnar bókageymslur, heldur lifandi þjónustustofnanir.

Telur stjórn Bókavarðafélagsins, að fyrrgreindar ábendingar gætu gefið tilefni til þess, að gerðar yrðu meiri háttar breytingar á frv., en beina tillögugerð í þá átt ekki vera í sínum verkahring að sinni, þótt hún sé fús til viðræðna um það, ef til komi.

Af framansögðu má greina, að þessum tveimur umsagnaraðilum, sem báðir áttu þó fulltrúa í n., sem frv. samdi, virðist ýmissa breytinga þurfa við, og er að sjálfsögðu rétt og nauðsynlegt að hlusta á þær raddir. Enn bætist eitt við, og það er í rauninni meginástæðan fyrir því, að ég hef ekki látið hraða vinnu við þetta frv., en það er, að æskilegt er að sjá, hvaða ákvæði verða samþ. um skólabókasöfn í frv. til l. um grunnskóla, sem liggur fyrir hv. Alþ., en í X. kafla þess frv. er fjallað um bókasöfn og lesstofur fyrir nemendur og kennara og einnig heimildarákvæði um sameiningu almenningsbókasafna og skólabókasafna, ef forráðamenn beggja safna telja slíkt æskilegt og menntmrn. samþykkir. Í umræddu frv. um almenningsbókasöfn er hins vegar ekki fjallað um skólabókasöfn, sem segja má, að sé ekki nauðsynlegt, ef ákvæði grunnskólafrv., er að þessu lúta, verða samþ. Verði það hins vegar ekki gert, er óhjákvæmilegt að fjalla um þau efni, annaðhvort í frv. um almenningsbókasöfn eða í sérstöku frv. Ég taldi því hyggilegt að bíða með frv. um almenningsbókasöfn, þar til skýrar lægi fyrir um skólabókasöfnin, sem er afar þýðingarmikið mál, eins og gerð er grein fyrir í umsögn um 75. gr. grunnskólafrv., og eru opnaðar leiðir til samvinnu milli almennra bókasafna og skólabókasafna. Ég tel rétt, að frv. um almenningsbókasöfn verði fyrst endurskoðað og komi síðan fyrir Alþ. og verði frv. athugað m. a. í ljósi þeirra aths., sem stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga og stjórn Bókavarðafélags Íslands hafa gert og með tilliti til sameiningar eða samvinnu almenningsbókasafna og skólabókasafna.