06.11.1973
Sameinað þing: 13. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í B-deild Alþingistíðinda. (294)

10. mál, almenningsbókasöfn

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Seint á síðasta Alþ. bar ég fram fsp. sama efnis og hér er rædd. Sú fsp. var tekin nokkrum sinnum á dagskrá, en kom aldrei til umr. Því fagna ég þeirri fsp., sem hér er fram borin og hefur nú verið svarað.

Það er kunnugt, að lög um almenningsbókasöfn voru fyrst sett árið 1955. Síðan voru l. endurskoðuð, og nú gilda um þau efni l. frá 1963.

Það er óþarfi að fara mörgum orðum um gildi almenningsbókasafna fyrir allan almenning í landinu og þjóðina í heild. En vegna þess að l. eru orðin þetta gömul, má geta nærri, að fjárveitingar eru orðnar langt á eftir tímanum. Ég man, að um svipað leyti og ég bar fram fs. á síðasta þingi, komu út bókasafnstíðindi. Ég ætla að leyfa mér að lesa upp örfáar setningar úr grein á forsíðu þeirra til að sýna, hvað þessi mál eru talin komin í illt efni. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Enginn ráðh. hreyfir legg eða lið þessu til leiðréttingar. Enginn alþm. lætur sig þetta skipta. Enginn í stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga beinir hug að þessum efnum. Væru ekki enn til atorkusamir áhugamenn, sem líta á almenningsbókasöfn sem þýðingarmiklar menningarstofnanir, yrðu vafalaust fleiri eða færri þeirra að leggja upp laupana með ári hverju. Raunar má segja, að allvíða sé þess skammt að bíða, ef svo fer sem horfir.“

Í þessu efni má geta þess, að framlag til húsabóta hefur verið á fjárl. mörg undanfarin ár 727 þús. kr., og má geta nærri, hversu lítið fé það er, miðað við það, að mörg almenningsbókasöfn hafa lagt í gífurlegan kostnað við að koma upp dýrum byggingum.

Ég hef þessi orð ekki fleiri, en fagna því einungis, að þessari fsp. hefur nú verið svarað og frv. er væntanlegt um þetta efni.