29.03.1974
Neðri deild: 95. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3256 í B-deild Alþingistíðinda. (2959)

8. mál, skólakerfi

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Menntmn. Nd. hefur haft til meðferðar nú undanfarnar vikur og mánuði frv. til l. um skólakerfi og frv. til l. um grunnskóla. Mestur tími n. hefur farið í að yfirfara grunnskólafrv., og hefur líka niðurstaðan orðið sú, að þar hafa margvíslegar brtt. komið fram, bæði frá n. allri og einstökum nm. Hins vegar hefur minni tími farið í umr. um skólakerfi, og það frv. var nánast afgreitt sem formsatriði á síðasta fundi n, og þá shlj.

Það var skoðun mín og trú, að grunnskólafrv. yrði tekið til meðferðar í hv. d. á undan frv. til l. um skólakerfið. Ég leit svo á, að með þeirri málsmeðferð yrði skorið úr um það, hvort þd. léði samþykki sitt ýmsum brtt., og að nokkurn veginn lægi fyrir, hver væri afstaða d. til veigamikilla atriða, sem fram koma í þessum frv. Þar af leiðandi geri ég sem nm. í menntmn. ekki brtt. við frv. til l. um skólakerfið og skrifaði undir nál. með venjulegum fyrirvara. Ég sé, að þess fyrirvara er ekki getið í nál., og óska eftir því, að form. beiti sér fyrir því að breyta nál. á þá leið, vegna þess að það var samdóma álit nm., að þeir skrifuðu undir allir með venjulegum og eðlilegum fyrirvara. Þetta segi ég vegna þess, að úr því að sú málsmeðferð er viðhöfð hér að taka fyrst til meðferðar frv. til l. um skólakerfi, þá verður að taka afstöðu til a.m.k. eins ákvæðis í því frv., sem skiptir meginmáll, en þar á ég við 3. gr. frv., sem fjallar um skólaskylduna og lengingu hennar. Ég sé mig því til knúinn að leggja fram brtt. við þetta frv., ef ætlunin er að láta hv. d. taka afstöðu til skólakerfisfrv. á undan grunnskólafrv., og mun þá leggja fram brtt. og kynna hana hér síðar í máli mínu.

Ég mun ekki heldur við umr. um frv. til l. um skólakerfi fjalla ítarlega um þetta mál í heild sinni, þar sem ég mun áskilja mér rétt til þess að gera það við meðferðina og umr. um grunnskólafrv. sjálft, en víkja hér aðeins að einu atriði, þ.e.a.s. nefndri gr., nú þegar rætt er um frv. um skólakerfið.

Við sjálfstæðismenn hér á þingi höfum skoðað þessi frv. mjög ítarlega, rætt þau í okkar hópi og kallað til sérfróða menn til þess að veita okkur nánari upplýsingar, og í framhaldi af þeirri vinnu, sem við lögðum í að fara yfir þessi frv., komumst við að þeirri niðurstöðu varðandi lengingu skólaskyldunnar, að við gátum ekki mælt með þeirri lengingu. Í samræmi við þá niðurstöðu okkar lögðum við fulltrúar Sjálfstfl. í menntmn. fram brtt. í menntmn. Nd., sem hnígur í þá átt. Þær brtt. koma fram á þskj. 530 og eru kynntar sem till. frá mér, en ég vil gefa þá skýringu hér á því, að meðnm. minn, fulltrúi Sjálfstfl., hv. þm. Gunnar Gíslason, var um þær mundir, sem gengið var frá þessum þskj., frá þingi vegna veikinda og hafði ekki aðstöðu til þess að skrifa undir þessar brtt., og varamaður hans, hv. þm. Eyjólfur K. Jónsson, hafði ekki kynnt sér þetta mál til hlítar og af skiljanlegum ástæðum treysti sér ekki til að skrifa undir þessar brtt. Ég tek þetta fram til þess að undirstrika, að þetta er gert með vilja og vitund meðnm. míns, hv. þm. Gunnars Gíslasonar, og shlj. áliti hans.

Ég tel rétt að kynna strax þær brtt., sem varða lengingu skólaskyldunnar, sem lagðar hafa verið fram á þessu þskj., en þær eru við 1. gr. frv. um grunnskóla, og brtt. mín hljóðar svo, með leyfi forseta. 1. gr. verði með eftirfarandi hætti:

„Skylt er ríki og sveitarfélögum að halda skóla fyrir öll börn og unglinga á aldrinum 7–16 ára, eftir því sem nánar segir í lögum þessum. Skóli, sem fullnægir lögum þessum og reglugerðum settum samkv. þeim, kallast grunnskóli. Öllum börnum og unglingum á aldrinum 7–15 ára er skylt að sækja grunnskóla. Undanþágu má þó veita frá skólaskyldu, sbr. 5., 7. og 8. gr. Heimilt er sveitarfélagi að ákveða, að skyldunám skuli ná til 16 ára unglinga, enda samþykki hlutaðeigandi fræðsluráð ákvörðunina. Þegar tilgreindur er aldur nemenda í lögum þessum miðast hann við það almanaksár, er nemandinn nær nefndum aldri.“

Þessi brtt. er nánast orðrétt tekin upp úr núgildandi fræðslulögum. Eins og alkunna er, er skólaskyldan frá 7–15 ára samkv. núgildandi l. Við leggjum sem sagt til, að hún verði áfram óbreytt, en setjum jafnframt inn í brtt. okkar ákvæði, sem lúta að því, að sveitarfélög geti ákveðið, að skyldunám skuli ná til 16 ára unglinga, en það er shlj. núgildandi I. jafnframt. Ég vildi nú gera stutta grein fyrir þessum niðurstöðum okkar og þessum brtt.

Það er að sjálfsögðu óþarfi að taka fram, enda þótt þessi till. sé lögð fram af hálfu okkar sjálfstæðismanna hér í d., að þá má ekki túlka hana sem svo, að við séum ekki áhugamenn um að jafna námsaðstöðu í þessu landi, og það má enginn efast um hug okkar um, að vitaskuld viljum við sem mesta menntun landsmanna. Ég geri ráð fyrir því, að enginn væni okkur um það að vera ekki jafnáhugasamir um þessi mál og aðrir hv. þm., og ég geri ekki ráð fyrir því, að það verði frekar gert að umtalsefni. En það, sem býr að baki þessum niðurstöðum okkar, er í fyrsta lagi og aðallega það, að við erum þeirrar skoðunar, að það skuli færa ábyrgð og framkvæmd á skóla- og fræðslumálum meir út í hinar dreifðu byggðir, til fólksins í landinu og sveitarfélaganna og samtaka þeirra. Við álitum, að það sé fyrsta skrefið í þá átt að gera jákvæðar breytingar á fræðslul., að þetta vald sé fært út til sveitarfélaganna og þeim gefinn kostur á að hafa visst frumkvæði á því sviði. Það eru allir, sem fjalla um fræðslumálin, sammála um, að þar sem skórinn kreppir, og þá einkum úti í hinni dreifðu byggð, sé hin takmarkaða, vanbúna aðstaða, sem valdi því, að unglingar geti ekki sótt skóla eins og í þéttbýli og þeir heltist frekar úr lestinni en þeir, sem í þéttbýli búa. Í grg. með frv. til grunnskóla segir m.a.:

„Þrátt fyrir góðan vilja er mikil hætta á, að mismunandi fjárhagsgeta sveitarfélaga valdi því, að börn og unglingar fái misjafna aðstöðu til náms, ef ekki er kveðið skýrt á um skólaskyldu og skilyrði öll, sem skapa þarf til þess, að unglingarnir allir nái tilskilinni menntun á aldrinum 7–16 ára. Höfuðvandinn í þessu efni er að skapa sambærileg skilyrði í þéttbýli og dreifbýli.“

Þarna er áréttað, sem er hafið yfir alla gagnrýni, að höfuðástæðan fyrir því, að nú er lagt til að lengja skólaskylduna, er, hversu misjöfn aðstaða er til náms eftir því, hvort um er að ræða dreifbýli eða þéttbýli. Þeir, sem nú mæla með lengingunni, telja, að lenging skólaskyldunnar leysi þetta vandamál að verulegu eða öllu leyti. Í þessu atriði er ég ekki sammála þeim flm. og talsmönnum lengingar skólaskyldu, því að ég tel þarna byrjað á öfugum enda. Það á að bæta aðstöðuna fyrst og sjá svo til, hvort það dugir ekki til þess; að unglingar sæki skóla jafnt í þéttbýli sem dreifbýli. Þjóðfélagið þarf að laga það misræmi, sem er í aðstöðunni í þéttbýlinu og dreifbýlinu, og er vissulega fyrir hendi, og það getur þjóðfélagið gert með því að veita sveitarfélögum möguleika til þess að byggja upp þessa aðstöðu. Það er mín bjargfasta skoðun, að þegar sú aðstaða er fyrir hendi, þurfi ekki að verða svo miklar umr. um það, hvort skólaskyldan eigi að verða 8 eða 9 ár, vegna þess að það leysist af sjálfu sér, og börn og unglingar munu þá sækja skóla jafnilla eða vel. hvort sem þau búa í þéttbýli eða dreifbýli.

Meginkjarninn í öllum þeim brtt., sem við sjálfstæðism. leggjum til. að verði samþykktar á grunnskólafrv., hnígur í þá átt að auka möguleika sveitarfélaga til þess að byggja upp aðstöðu, byggja upp fræðsluaðstöðu úti í héruðunum, úti í hinum dreifðu byggðum. Það gerum við með því að benda á, að völdin þurfi að vera heima í héraði, þ.e.a.s. möguleikar á því að taka ákvarðanir, og ekki skuli allir þræðir liggja til rn. hér í Reykjavík. Við leggjum líka til, að sveitarfélögunum sé útvegað fjármagn til þess að byggja upp þessa aðstöðu, en þar haugir náttúrlega miklu meira á spýtunni.

Í upphafi þessa þings boðaði hæstv. forsrh., að áður en þingi lyki, mundi skila áliti nefnd, sem hann hafði skipað og fjallar um endurskoðun á verkaskiptingu ríkis- og sveitarfélaga, og n. hefur það markmið, eftir því sem hæstv. forsrh. tjáði okkur hér í hinu háa Alþ., — hefur það meginmarkmið að auka sjálfsforræði sveitarfélaga. Nú efast enginn um það og er augljóst mál, að fræðslumál eru einn veigamesti þátturinn í samskiptum ríkis og sveitarfélaga, og ef á að auka sjálfsforræði sveitarfélaga, hlýtur athyglin fyrst að beinast að þessum verkefnum og þessu sviði. Ég get því ekki ímyndað mér annað en sú n., sem forsrh. talaði um, hafi fjallað mjög rækilega um fræðslumálin og breytta verkaskiptingu, og að sjálfsögðu, með tilliti til verkefnis n., hlýtur hún að marka stefnu og leggja fram brtt., sem hníga í þá átt, að sveitarfélögin fái aukna möguleika til þess að byggja upp fræðsluaðstöðu heima í héraði. Mér þykir kominn tími til, að hæstv. forsrh. eða hæstv. ríkisstj. upplýsi þingheim um það, hvað líði þessum nefndarstörfum, og geti eitthvað upplýst um það, hvort ekki sé fjallað um fræðslumálin í þessari n. Það var mat okkar sjálfstæðismanna, að nú, þegar menntamálin væru til meðferðar í n. Alþingis, mundu þær n., menntmn. Nd. og helst jafnframt menntmn. Ed., fara yfir þessi frumvörp og leggja til, hvernig þær teldu æskilegast að haga þessum málum í þá átt að auka sjálfsforræði sveitarfélaga, og leggja þær till. sínar og hugmyndir fyrir þá n., sem hæstv. forsrh. hefur vitnað til. Með þessu töldum við okkur ekki vera að tefja fyrir málinu, ekki vera að leggja stein í götu þess, heldur þvert á móti að reyna að vinna jákvætt að því, að samræmi væri í störfum þingsins og nefnda, sem skipaðar eru á vegum ríkisstj. og þingsins, þannig að samræmd niðurstaða fengist. Þetta hefur því miður ekki verið gert. Á sama tíma og allir eru á einu máli um, að auka þurfi sjálfsforræði sveitarfélaga og færa völdin út í hin ýmsu héruð, þá eru stjórnvöld nú að afgreiða hér þetta mál og ýmis fleiri, sem stefna í gagnstæða átt. Ég tel þetta miður og ekki vera vinnubrögð, sem séu til fyrirmyndar.

Forsenda hvers konar breytinga eða lengingar á skólaskyldu eða yfirleitt á skólasókn unglinga er vitaskuld, eins og ég margoft hef tekið fram, sú, að aðstaða sé fyrir hendi. Ef það er ójöfnuður í námi unglinga í dag, þá er þar um að kenna mismunandi aðstöðu. Við eigum þess vegna að ráðast á það vandamál. Það á að vera okkar fyrsta verk að bæta úr á því sviði, og það er hægt að gera, án þess að taka ákvörðun um lengingu skólaskyldunnar. Við eigum ekki að ákveða það á þessu stigi málsins, heldur reyna að bæta úr vandamálinu, þar sem það raunverulega er fyrir hendi, og sjá svo, hvaða afleiðingar og áhrif það hefur.

Hitt meginsjónarmið okkar sjálfstæðismanna, þegar við tökum þessa afstöðu, er að sjálfsögðu einstaklingurinn sjálfur, nemandinn, unglingurinn. Við erum ekki vissir um, að það sé nauðsynlegt að skylda unglinga með lögum að sækja skóla í 9 ár eða til 16 ára aldurs, hvernig sem á stendur og hvað sem það kostar. Samkv. upplýsingum, sem fylgja frv. til grunnskóla, segir, að skólasókn sé um 82% hjá þeim, sem sækja eiga 3. bekk gagnfræðastigs eða á 9. skólaárinu, og eru þá þessar tölur teknar af skólaárinu 1968 –1969. Athyglin beinist því að þeim 18% unglinga, sem ekki sækja skólann, og segir í grg. frv., að hlutfallslegur meiri hl. þeirra sé búsettur í dreifbýli. Hér er enn komið að aðstöðunni. Samkv. þessum tölum er skólasókn miklu meiri og reyndar mjög eðlileg, þar sem aðstaða er fyrir hendi, þ.e.a.s. hér í þéttbýlinu. Þá er hún yfir 90%, og verður það að teljast eðlilegt. Ég vek athygli á því, að sú mikla skólasókn á sér stað, þrátt fyrir það að ekki sé skólaskylda hjá unglingum á 9. árinu Þeir sækja þetta 9. ár af frjálsum vilja. Enn kemst ég því að þeirri niðurstöðu, að ef aðstaðan yrði bætt annars staðar í dreifbýlinu, þá ætti skólasókn að vera eðlileg og vera með sama hætti og hér í þéttbýlinu. Annarri niðurstöðu er ekki hægt að komast að. Þess vegna, frá þessu eina sjónarmiði, tel ég ástæðulaust að lengja skólaskylduna.

Annað er líka það, að stærstur hluti þeirra unglinga, sem heltast úr lestinni, hvort sem það eru 18% eða innan við 10%, er unglingar, sem ekki hafa vilja, hæfileika eða löngun til þess að stunda bóknám meira en í þessi 8 ár. Hugur þeirra stendur til einhvers annars. Hæfileikarnir nýtast betur á öðrum sviðum. Og þar kemur þáttur hins verklega náms, þátttakan í atvinnulífinu, til athugunar. Það er augljóst, að þeir, sem sömdu frv. um grunnskóla og semja frv. að þessari löggjöf, eru sammála um, að það þurfi að auka hið verklega nám, það þurfi að tengja betur saman nám skólans og störfin í þjóðfélaginu. Þessi stefna kemur mjög ljóslega fram í frv., og ég fagna henni, og það er enn þá betur hnykkt á þessari stefnu í áliti menntmn. Með brtt., sem lagðar eru fram af hálfu n. og allir nm. eru meira og minna sammála um, er ótvírætt og mjög áberandi viðurkennt það mikilvægi, sem hið verklega nám felur í sér. N. er eindregið þeirrar skoðunar, að hafa skuli fulla hliðsjón af atvinnulífinu og þátttöku skólafólks í því. Staðreyndin er nefnilega sú, að kennsla á skólabekk er ekki ætíð mesti lærdómurinn, og það er ekki alltaf vísasti vegurinn til þroska og manndóms fyrir unglingana að sitja yfir bóknámi sem allra lengst. Í þessu sambandi verður að sjálfsögðu að taka mið af þörfum og högum einstaklinganna sjálfra, og við megum ekki setja svo einstrengingslega löggjöf, að hún verði kvöð fyrir unglinga. Skólinn á ekki að vera pínubekkur eða stofnun, sem þröngvað er upp á unglinga, heldur aðsetur, sem laðar þá að. Auðvitað eru allir meðmæltir undirstöðumenntun, og ég held, að allir geti verið sammála um það, að miðað við þá skólalöggjöf, sem við höfum haft í þessu landi, hefur það skyldunám, sem nú er fyrir hendi, veitt þessa undirstöðumenntun, og það hefur ekki valdið því, að ungt fólk á Íslandi hafi ekki hneigst til náms, síður en svo. En þjóðin hefur ekki heldur tapað á því, þótt unglingar hafi stundað atvinnu og ekki haldið áfram námi um stundarsakir, þegar skyldunámi lýkur. Þjóðin hefur ekki tapað á því að hleypa ungu fólki út í atvinnulífið.

Ég tel, að með breytingum á framhaldsskólastigi megi gefa mönnum tækifæri til áframhaldandi náms, ef hugur þeirra beinist að því seinna meir, og það sé engin vissa fyrir því, að undirstöðumenntun verði meiri eða nám verði merkilegra eða meira, þótt skólaskyldan sé lengd nú um eitt ár. Þegar þetta er athugað, þetta tvennt, sem ég hef rakið, annars vegar bætt aðstaða í hinum dreifðu byggðum og það tillit, sem verður að taka til þátttöku skólafólks í atvinnulífinu og að hæfileikar fólks liggi annars staðar en að sitja áfram á skólabekk, má enn gera ráð fyrir því, að viss hluti unglinga heltist úr lestinni af einhverjum öðrum ástæðum, og þar held ég, að sé um að ræða hóp, sem alltaf þarf sérstakrar meðferðar við. Það geta verið afbrigðileg börn eða seinþroska, börn eða unglingar, sem þurfa á sérstakri meðferð að halda, eru af ýmsum ástæðum öðruvísi en fólk er flest og hafa ekki löngun eða getu til þess að sitja á skólabekk. Þetta vandamál verður áfram í þjóðfélaginu og þarf að leysa með sérstökum hætti og er, að ég held, ekki til umr. hér og ekki heldur meiningin, að lenging skólaskyldu nái beint yfir slíka aðila.

Það, sem ég hef nú rakið, má segja, að séu meginástæðurnar fyrir þeirri afstöðu, sem sjálfstæðismenn hér á þingi hafa tekið varðandi lengingu skólaskyldunnar. Við viljum ekki á þessu stigi málsins láta lengja skólaskylduna. Við viljum ekki láta taka ákvörðun um þá kerfisbreytingu nú og láta þau lög og þá ákvörðun ganga yfir þjóðina. Við viljum frekar laga námið og skólana að því meginatriði, að undirstöðumenntun náist og þegnarnir nýtist sem best fyrir þjóðfélagið og unglingarnir fái að ganga þá braut, sem hæfileikar þeirra hneigjast til. Hér er verið að taka ákvörðun, sem hefur víðtækar afleiðingar. Það hefur áhrif á líf hvers unglings í þessu landi, og þingið má ekki flana að neinu í þeim efnum.

Ég held, að allir séu sammála um það, að frv. til laga um grunnskóla sé að mörgu leyti draumsýn. Það eru í því frv. ákaflega mörg merkileg nýmæli, sem ljóst er þó að á sér langan tíma, áður en þau koma til framkvæmda, og það er ljóst, að það líður langur tími, áður en þetta frv. verður endanlega komið til framkvæmda í þjóðfélaginu. Aðbúnaður og aðstæður eru allar ófullnægjandi, fjármagn skortir, starfsfólk með menntun og ýmis fleiri skilyrði skortir. Við verðum að vera fullkomlega vissir í okkar sök, þegar við erum að ræða um lengingu skólaskyldunnar, og ég held, að það sé skynsamlegra að reyna að hrinda í framkvæmd ýmsum ágætum nýmælum, sem felast í þessu frv., en reyna að framkvæma þá skólalöggjöf, sem er hér í landinu, áður en við tökum ákvörðun um lengingu skólaskyldu. Sú ákvörðun getur beðið um nokkurn tíma, og þjóðfélagið og fræðslukerfið ætti ekki að skaðast á því. Ég efast ekki um, að það sé góður vilji fyrir hendi hjá höfundum þessa frv., þegar þeir leggja til lengingu skólaskyldunnar. En það er bara svo, að það má ekki ráða hér eingöngu mat skólamanna sjálfra. Hér verður þjóðin sjálf að fá að segja sitt, jafnt lærðir sem leikir, og ég vil ekki trúa því, að þjóðin sé enn þá tilbúin til þess að fallast á þessa lengingu, sem hér er gert ráð fyrir. Hv. frsm. menntmn. sagði áðan, að við skyldum stiga fyrsta skrefið með því að samþykkja þessi frv. En sá er ekki alltaf hraðskreiðastur, sem stígur stærsta skrefið. Við skulum stiga fyrsta skrefið varlega og taka eitt í einu. Við skulum ekki reyna að stiga svo stórt skref, að við hrösum á þessum spretti.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, leyfa mér að leggja fram skrifl. brtt. við þetta frv., sem hér er til meðferðar og er á dagskrá, þ.e.a.s. frv. til l. um skólakerfi, en það er brtt. við 3. gr. frv. Þar segir, með leyfi forseta:

„Grunnskóli er fyrir börn og unglinga á aldrinum 7–16 ára, og er þeim skylt að sækja hann. Grunnskólinn veitir almenna undirstöðumenntun og býr undir nám á framhaldsskólastigi.“

Með hliðsjón af þeim brtt., sem ég hef lagt fram við grunnskólafrv. og í samræmi við þá brtt. legg ég til, að þessi gr. orðist svo:

„Grunnskóli er fyrir börn og unglinga á aldrinum 7–16 ára. Grunnskólinn veitir almenna undirstöðumenntun og býr undir nám á framhaldsskólastigi.“

Er þá sleppt úr gr. orðunum „og er þeim skylt að sækja hann“. Ég vek athygli hv. d. á því, að þarna er um að ræða eitt meginatriði í meðferð þessara frv., lengingu skólaskyldunnar, og ef á að taka ákvörðun um þetta meginatriði, áður en grunnskólafrv. kemur til umr. á þingi, þurfa hv. þm. að vera búnir að gera upp hug sinn varðandi þetta atriði. Ég tel hins vegar, að við getum afgreitt frv. til l. um skólakerfi hér úr d. án þess að taka beinlínis afstöðu til lengingar skólaskyldunnar og látið það bíða efnislegrar umr. um grunnskólafrv., sem kemur væntanlega til umr. síðar í dag eða næstu daga. Með þessari brtt. er raunverulega engu haggað í þessu frv. til l. um skólakerfi. Það er bara slegið á frest þeirri ákvörðun, sem þarf að taka um lengingu skólaskyldunnar. Við erum allir sammála um, að grunnskólinn eigi að vera fyrir börn og unglinga á aldrinum 7–16 ára, en við skulum bíða með að taka ákvörðun um skólaskylduna. Ég leyfi mér, herra forseti, að bera fram skrifl. brtt., sem ég mun leggja fram hér á eftir.