29.03.1974
Neðri deild: 95. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3263 í B-deild Alþingistíðinda. (2961)

8. mál, skólakerfi

Frsm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð. — Ég tel það óumdeilanlega rétt, að fyrst sé gengið frá þingvilja um afstöðu til frv. til l. um skólakerfi, áður en tekið sé fyrir, hvernig skuli haga fyrsta stigi þess kerfis, um það getur varla verið ágreiningur. Þegar við gengum frá nefndarstörfum í hv. menntmn., var ljóst, að engar brtt, höfðu verið gerðar við þetta frv., nema þessi eina við 7. gr., sem ég gerði rækilega grein fyrir, og er þó frekar orðalagsbreyt. en efnisbreyting. Nál. um þetta frv. um skólakerfi var undirritað af öllum nm. án fyrirvara, svo að ég átti engra breyt. von við þetta frv., en gat búist við því, að það yrði e.t.v. gerð grein fyrir þeim skoðanamun, sem komið hafði fram varðandi afgreiðslu á frv. um grunnskóla. Þó held ég, að þeir, sem ætla sér að flytja brtt. við grunnskólafrv. varðandi skyldunámið, hvort það skuli vera 8 ára eða 9 ára skólaskylda þurfi vegna ákvæða 3. gr. frv. um skólakerfi að flytja brtt, einnig við þetta frv., ef hinar eiga ekki að stangast á við þessa löggjöf. Í 3. gr. segir nefnilega, með leyfi hæstv. forseta:

„Grunnskóli er fyrir börn og unglinga á aldrinum 7–16 ára, og er þeim skylt að sækja hann.“ Þarna er skólaskyldunni í 9 ár slegið fastri.

Þeir, sem ætla sér að flytja brtt. um þetta við grunnskólafrv., sem ylli þá árekstri við ákvæði þessarar gr., verða fyrst að hafa fengið að vita um afstöðu þingsins til þessa ákvæðis í skólakerfislögunum. En ágreiningsatriðið er nokkuð stórfellt. Menn eru andvígir því í Sjálfstfl., að því er virðist, að skólaskyldan verði 9 ár. Ég fyrir mitt leyti hef aldrei verið ginnkeyptur fyrir því eða talið það bjarga miklu að lengja skólaskylduna úr hófi fram, nema því aðeins að máttur sé fjárhagslegur og á annan hátt til þess að fylgja því vel eftir og með fjölbreytni skólalífsins líka, þannig að öllum nemendum henti og þeirra mismunandi hæfileikum til náms. En ég vil benda á það, að við höfum gert veigamiklar breytingar á grunnskólafrv. í tveimur atriðum. Við höfum gert till. um styttingu vikulegs starfstíma nemendanna, og við höfum í annan stað opnað heimild til styttingar á árlegum kennslutíma skólanna. Þegar við tökum þetta með í reikninginn, — þá veitir kannske ekki af, til þess að ekki verði rýrnun á námi, að bæta einu skólaárinu við. En út af hinu atriðinu, að ofþjaka ekki nemendum með of löngum vikulegum vinnutíma og opna möguleika til tengsla við atvinnulífið með heimild til styttingar skólaársins, vildi ég vinna þetta til.

Auk þess höfum við svo gert þriðju verulegu breytinguna á grunnskólafrv., og hún er sú að opna leiðir til þess að viðurkenna verklegt nám og starf í þágu atvinnuveganna sem nám. Þetta atriði í viðbót styður að því, að skólarnir eiga að geta verið í framkvæmd hæfari menntastofnun fyrir þá nemendur, sem eru ekki sérstaklega hæfir til bóklegs náms. Það er ætlunin með breytingum okkar að víkka svið skólanna þannig, að einnig henti þessum nemendum, sem einna helst hafa haldið sig utan við námið til 16 ára aldurs, af því að skólarnir hafa að verulegu leyti sem bókskólar, einstrengingslegir bókskólar, ekki hentað þeim eða hæfileikasviði þeirra.

Það er með tilliti til þessa, sem ég vil minna á, að það er minni ástæða til þess að forðast lengingu skólaskyldunnar, meiri þörf á að viðurkenna hana en ef frv. hefði komið til meðferðar þd. óbreytt.

Ég átti þess aldrei von, að það yrðu ekki deilur um þetta mál. En hinu kvíði ég, ef hv. þm. ætla ekki að una í þingsalnum, á meðan er verið að ræða grunnskólamálið. Þá vita þeir lítið, hvað þeir eru að afgreiða, þegar að lokum kemur, því að það eru á milli 80 og 90 brtt. við frv., og ef þeir ætla að vera þar í algjöru ábyrgðarleysi um að afgreiða það einhvern veginn, þá held ég, að það væri hollara fyrir þá að fylgjast með umr.