29.03.1974
Neðri deild: 95. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3266 í B-deild Alþingistíðinda. (2963)

8. mál, skólakerfi

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls 1. nóv. s.l. gerði ég að umtalsefni bæði fræðsluskyldu og skólaskyldu, vegna þess, að öllum virðist ekki fyllilega ljóst, hvað við er átt, þegar gerður er þarna greinarmunur á. Með fræðsluskyldu er yfirleitt átt við það, að hið opinbera sé skyldugt til þess að sjá fyrir skólaaðstöðu unglinga á þeim aldri, sem um er að ræða, en með skólaskyldu er hins vegar átt við skyldu unglinganna til þess að sækja skóla. Í þeim umr., sem fram fóru 1. nóv., gat ég þess, að það væri skoðun okkar sjálfstæðismanna, að sjálf fræðsluskyldan, þ.e.a.s. skylda ríkis og sveitarfélaga, ætti að ná til þess, að séð væri fyrir skólaaðstöðu fyrir unglinga 7–16 ára 9 ár, þannig að allir á þessum aldri, sem vildu sækja skóla og afla sér fræðslu, ættu þess kost. Hins vegar væri nokkru meiri vafi, hvort ætti að skylda alla unglinga á þessum aldri til að sækja skóla, og ég lét í ljós þá skoðun ok'kar, að svo væri ekki. Það væri nær lagi að hafa skólaskylduna nokkru styttri, en hafa e.t.v. heimild í lögum fyrir sveitarfélögin sjálf til að lengja skólaskylduna, þannig að það væru heimamenn sjálfir, sem gætu um það fjallað og ákveðið.

Ég vil að öðru leyti um þetta atriði vitna til þess, sem kom hér mjög skýrt fram í ræðu hv. 5. þm. Norðurl. v., Pálma Jónssonar. Það hefði ekki átt að fara fram hjá hæstv. menntmrh., sem sjálfur lagði frv. fyrir og var að sjálfsögðu viðstaddur þessar umr., að þetta sjónarmið kom fram fyrir 5 mánuðum.

Hv. 5. þm. Norðurl. v, hefur líka svarað undrun hæstv. ráðh. út af afstöðu Sjálfstfl. í þessu máli. Þegar grunnskólafrv. var lagt fram vorið 1971, að vísu sem stjfrv., þá mun hafa komið skýrt fram, að það væri ekki ætlunin að afgreiða það mál á því þingi, það væri lagt fram, eins og oft er, til kynningar, án þess að einstakir stjórnarflokkar eða einstakir þm. hefðu tekið bindandi afstöðu um öll einstök atriði málsins. Það er því misskilningur hjá hæstv. ráðh. að telja, að Sjálfstfl. hafi verið að binda sig við lengingu skólaskyldunnar, þó að það frv. væri lagt fram á þinginu 1971 til kynningar. Í annan stað vil ég endurtaka, að strax í upphafi máls, þegar þetta frv. var nú til 1. umr., kom þetta sjónarmið skýrt fram. Það er því ekki hér um neina stefnubreytingu að ræða og undrun hæstv. ráðh, því ástæðulaus.

Það er annað atriði, sem ég vildi einnig gera að umtalsefni. Á þskj. 496, nál. menntmn., kemur það fram, að Ellert B. Schram gerði sérstaka bókun í upphafi nefndarstarfs, þar sem hann gerði það að till. sinni, að „við meðferð menntmn. á frv. til l. um grunnskóla verði gengið út frá þeirri forsendu, að sveitarfélögin og samtök þeirra annist fræðslumálin á skólaskyldustigi að öðru leyti en því, er varðar ákvörðun námsefnis og námseftirlit, sveitarfélögin standi undir stofnkostnaði og rekstri skóla á grunnskólastiginu, en ríkissjóður greiði kennaralaun,“ og þá að sjálfsögðu gert ráð fyrir, að tekjustofnalögum sveitarfélaga verði breytt í samræmi við þetta til að útvega þeim tekjustofna til þess að standa undir þessum kostnaði. Með þessari bókun Ellerts B. Schram er mótuð grundvallarafstaða Sjálfstfl. í þessu máli, og sú grundvallarafstaða kom fram strax í þessum umr. 1. nóv. Þetta atriði þarf því ekki heldur að koma á óvart.

Ég tel, að það sé mjög miður farið, að stjórnarflokkarnir skuli ekki hafa sinnt þessari á'kveðnu ábendingu. Það þýðir ekki að bera fyrir sig tímaleysi, að hér hafi verið ógerningur að vinna að því á þeim tíma, sem n. hefur haft málið til meðferðar. Þeir 5 mánuðir, sem liðnir eru, síðan þessu frv. var vísað til n., eru auðvitað ærið nógur tími til þess að marka og ákveða þá grundvallarstefnubreytingu, sem Sjálfstfl. hefur hér boðað, ef vilji væri fyrir hendi hjá stjórnarfl. til þess. En undirtektir stjórnarfl. undir þetta mikilvæga mál. er bæði varðar skólamál og sveitarstjórnarmál, bera þess ekki vott, að hugur fylgi máli, þegar stjórnarfl. telja sig hafa mikinn áhuga á því að færa verkefni frá ríkisvaldinu yfir til sveitarfélaganna og gefa þeim og samtökum þeirra aukið vald og verk. Tímaleysi er ekki hægt að bera fyrir sig. Ég held, að það sé fremur áhugaleysi eða framtaksleysi.

Ég vildi, að þessi tvö atriði kæmu hér skýrt fram, og tek þau sérstaklega fram að þessu gefna tilefni frá hæstv. menntmrh. Að öðru leyti vil ég vísa til þeirra brtt., sem Ellert B. Schram hefur lagt fram við frv. til l. um grunnskóla og skriflegrar brtt. við þetta frv. um skólakerfi, en vísa að öðru leyti til hans ítarlegu og ágætu ræðu.