29.03.1974
Neðri deild: 95. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3268 í B-deild Alþingistíðinda. (2965)

8. mál, skólakerfi

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka til máls í umr. um frv. til l. um skólakerfi og ætla því ekki að ræða frv. efnislega. Ég hef því ekki óskað eftir frestun á fundinum, þótt svona fáir séu viðstaddir. Hins vegar kvaddi ég mér hljóðs vegna þess, að mér þóttu umr. um mál þetta vera farnar að taka allfurðulega stefnu, þar sem farið var að ræða um vinnubrögð menntmn. og gagnrýna þau. Þar komu fram ásakanir, sem ég tel mér rétt og skylt að svara og vísa á bug.

Ég vil fyrst víkja að atriði, sem kom fram í ræðu hv. 9. landsk. þm. Hann hélt því fram, að afgreiðsla n. á frv. til l. um skólakerfi hefði nánast verið formsatriði og ekkert annað. Mér kemur það mjög undarlega fyrir sjónir, að hann sem nm. í menntmn. skuli hafa getað fjallað um gunnskólafrv. á fleiri en 20 fundum, án þess að hafa frv. til l. um skólakerfi til hliðsjónar. N. fjallaði um skólakerfisfrv. sérstaklega á einum fundi sínum, og kom ég þá fram með hugmynd um breytingu, sem n. tók til greina, og ég fæ ekki séð, hvers vegna hv. 9. landsk. þm. hefur ekki getað haft sama hátt á. Hann hefur verið seinni að átta sig. En það er undarlegt að kenna allri n. og vinnubrögðum hennar um, þó að hann hafi ekki áttað sig á hlutunum.

Í öðru lagi gagnrýndi hann það, að menntmn. hefði ekki lagt hugmyndir hans um skólamál fyrir n. þá, sem fjallar um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Ég held, að tilmæli af þessu tagi hljóti að vera einsdæmi, og ef þannig hefði átt að fara að, hefði ekki bara þetta mál, heldur fleiri mál orðið að bíða, ekki eingöngu næsta þings, heldur kannske í nokkur ár enn.

Með þessu tel ég mig jafnframt svara gagnrýni hv. 5. þm. Reykv., Gunnars Thoroddsens. Það var helst á honum að skilja, að eitthvert tímahrak hefði komið í veg fyrir, að n. hefði haft þennan hátt á. Ég leyfi mér að fullyrða, að á sjónarmið hv. 9. landsk. hafi n. hlustað fyllilega og rætt þau á fleiri en einum fundi. Til þess að koma til móts við óskir hans var framkvæmdastjóri Sambands ísl. sveitarfélaga boðaður á fund, og hann var af því tilefni spurður um þetta atriði. Hann var inntur eftir tillögum um verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, sem menn hugðu, að hefðu komið fram á ráðstefnu, sem haldin var s.l. sumar á Höfn í Hornafirði. Magnús Guðjónsson framkvstj. tók það skýrt fram á fundi með n., að það væri ekki um neinar till. að ræða, hér væri aðeins hægt að tala um lauslegar hugmyndir. Ég tel mig muna þetta alveg orðrétt eftir honum. Ég hefði gjarnan viljað vita, hvort hv. 5. þm. Reykv. teldi það þingleg vinnubrögð, að þn. biði endalaust með að afgreiða mál í þeirri von, að lauslegar hugmyndir yrðu einhvern tíma að formlegum till. Það kom fram hjá Magnúsi Guðjónssyni, að þessar hugmyndir ætti eftir að senda til sveitarstjórnarmanna og hreppsmanna víðs vegar um land og þeir hefðu ekki enn sagt álit sitt á þessum hugmyndum, sem komu fram á ráðstefnunni. Það er þetta, sem liggur að baki því, sem stendur í nál. menntmn. og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Meiri hl. nm. taldi vonlaust, að hægt yrði að afgreiða grunnskólamálið á þessu þingi, ef bylta ætti því um samkv. framanskráðu og m.a. bíða eftir breytingu á tekjustofnalögum sveitarfélaga og lagasetningu um landshlutasamtök sveitarfélaga.“

Þannig stendur í nál., og hef ég nú gert grein fyrir, hvað liggur að baki þessari klausu.

Þá held ég, að það sé rétt að fara nokkrum orðum um n., sem fjallar um landshlutasamtökin og verkefnaskiptingu milli þeirra og ríkisins, þá n., sem hv. 9. landsk. þm. gerði að umræðuefni í upphafi ræðu sinnar. Það er vitað mál og eru hæg heimatök fyrir þm. að kynna sér, hvernig mál standa þar, en n. er alls ekki farin að ræða einstök verkefni eða verkefnaskiptingu. Hún er á þessu stigi eingöngu að ræða uppbyggingu landshlutasamtakanna og hvernig sú uppbygging skuli vera í framtíðinni. Það er álit sumra nm., að áður en ákvörðun sé tekin um einstök verkefni, sem fengin séu landshlutasamtökunum, verði að fást trygging fyrir því, að þessi samtök verði lýðræðislega upp byggð.

Ég vænti þess, að gagnrýni á vinnubrögð menntmn. sé með þessu svarað, og þykir afar undarlegt, að einn nm., sem tekið hefur þátt í störfum n., skuli leyfa sér að ásaka n. um það, að hún hafi ekki hirt um eða viljað taka til greina sérstöðu hans.