29.03.1974
Neðri deild: 95. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3274 í B-deild Alþingistíðinda. (2968)

8. mál, skólakerfi

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Mér er gersamlega hulið, hvaða ummæli í þeim fáu orðum, sem ég viðhafði hér áðan, hafa getað orðið hv. 5. þm. Norðurl. v. tilefni til að segja, að ég hafi dróttað því að sjálfstæðism., að að baki afstöðu þeirra búi eitthvað, sem sé til hins verra fyrir skólaæskuna, eða 4. þm. Vesturl. að segja, að ég hafi dróttað því að sjálfstæðismönnum, að þeir láti sig fræðslumál minna varða en skyldi og sinni þeim lítt. Þvert á móti fór ég einmitt viðurkenningarorðum um þann þátt, sem ýmsir sjálfstæðismenn, — ég nefndi bæði skólamenn og stjórnmálamenn, — hefðu átt í því að fjalla um fræðslumál. bæði fyrr og síðar.

En aðalerindið mitt í ræðustól að þessu sinni er að gera að umtalsefni þau ummæli hv. 9. landsk. þm., sem hann hefur ítrekað hér, að frv., sem hér liggur fyrir, stefni í þveröfuga átt við það markmið að auka sjálfsforræði sveitarfélaganna. Þessi ummæli eru tilefnislaus, og þau stangast við staðreyndir. Þetta atriði verður að meta út frá því, hver eru gildandi lagaákvæði annars vegar og hver lagaákvæðin yrðu, ef frv. þetta og annað frv., um grunnskóla, yrðu samþ., eins og þau liggja fyrir. Það orkar ekki tvímælis, að þessi frv. bæði gera ráð fyrir stórauknum hlut sveitarfélaganna og stjórna þeirra í bæði umfjöllun skólamálanna og þó sérstaklega í stjórnunarþættinum. T.a.m. er horfið frá því, að ráðh. skipi formenn skólanefnda. Þá eiga sveitarstjórnirnar að velja eins og aðra skólanefndarmenn. Og ég minni á fræðsluráðin, sem eiga um land allt að taka í sínar hendur mjög veigamikla þætti þessara mála, sem nú eru í höndum menntmrn. Það er því yfir allan vafa hafið, að þessi frv. stefna að auknu sjálfsforræði sveitarfélaganna í skólamálunum. Annað mál er hitt, að það má kannske ganga lengra. Menn getur greint á um það, hvort hér sé nógu langt gengið. En það er mjög torvelt að taka mið af till. og hugmyndum, sem hvergi liggja fyrir og eru í mótun, eins og hér hefur glöggt komið fram.