29.03.1974
Neðri deild: 95. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3274 í B-deild Alþingistíðinda. (2969)

8. mál, skólakerfi

Frsm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Fyrst örfá orð um þá kveinstafi, sem hv. 9. landsk. hefur rekið hér upp yfir vinnubrögðum n. Það er ekki rétt, sem hann segir, að þetta mál hafi verið rætt einu sinni á einum fundi í n. Nefndarstarfið hófst með því, að við tókum þetta frv.: sem er grundvöllur að öllu málinu, til umr. Ágreinings varð ekki mjög vart, eftir að við höfðum farið í gegnum frv. og rætt það, og það var lagt til hliðar. Síðan hófust fundarhöld um grunnskólafrv., þegar sýnt þótti, að grundvöllurinn nyti stuðnings meiri hl. n. Síðan var málið tekið aftur í lokin til umr. og afgreiðslu, þannig að það var rætt á tveimur fundum og alls ekki einungis á síðasta fundinum, heldur fyrst og fremst á fyrsta fundinum efnislega.

Um það, að það sé óeðlilegt að taka fyrst fyrir til umr, frv. um skólakerfið, þá get ég ekki séð, hvernig hv. þm, fer að því að atilla þessu máli öllu á haus fyrir sér. Hann vill fyrst taka til að ræða um breyt. á fyrsta þætti skólakerfisins, grunnskólastiginu, áður en búið er að slá neinu föstu um kerfið sjálft. Þetta finnst mér að setja málið alveg á haus fyrir sér. Þess vegna taldi ég alveg sjálfsagt, að við ræddum fyrst um skólakerfið, og ef það hefði þingstyrk, þá auðvitað að fjalla um frv. um grunnskólann. Ekki meira um þetta.

Mér þótti þó helst kasta tólfunum, þegar hann fór að gera aths. við undirskrift sína. Ég hafði ekki haft neina hönd í bagga um hans undirskrift. Nál. frá minni hendi var ósköp stutt og laggott: „N. ræddi frv., kynnti sér umsagnir, sem borist höfðu um það, og varð sammála um að mæla með, að það yrði samþ. með þessari breyt.“ — og svo kom þessi eina breyt. sem hafði verið orðuð í n. og var tekin til greina. Ég skrifaði undir án fyrirvara. Ég átti ekki neinn rétt á því að hafa hönd í bagga um, hvernig hann hagaði sinni undirskrift. Sé eitthvað þar öðruvísi en hann ætlaði, þá verður hann að breyta því sjálfur.

Hér hefur hann talað um það, að hann vilji, að skólaskyldan nái ekki nema til 15 ára aldursins og ekki til lokastigs skólaskyldutímans samkv. frv. Það er rétt, hann gerði grein fyrir þessari skoðun sinni, og okkur var kunnugt um það. En hann varð að eiga það við sjálfan sig, hvort hann flytti brtt. um það eða ekki. Við rökræddum þetta líka, og það er sannarlega ástæða til þess að rifja upp þau rök. Hann vill, að sveitarfélögin fari sem mest með skólahaldið í landinu, og hann getur fært ýmis rök fyrir því, að hann vilji þannig auka áhrif og ábyrgð sveitarfélaganna. En rökin, sem komu fram gegn þessu, eru þau, að fjárhagsleg geta sveitarfélaganna er afskaplega misjöfn. Vilji sveitarstjórna til þess að fórna miklu af fjármunum sveitarfélagsins getur líka verið afskaplega misjafn. Það er því afskaplega hætt við því, að þegar í framkvæmdina kæmi, þá yrði mjög mismunandi framkvæmd á skólamálunum í landinu hjá fjársterkum, framfarasinnuðum sveitarfélögum og hins vegar félitlum sveitarfélögum, sem hefðu litla getu og e.t.v. líka lítinn vilja til að fórna meginkröftum sínum fyrir fræðslumálin. En rauði þráðurinn í þessu frv., sem hér liggja fyrir, er að jafna aðstöðu námsfólksins sem allra mest til þess að njóta sams konar aðstöðu til náms og mennta. Það þykir best gert með því, að það sé undir heildarstjórn rn. í gegnum þá aðila, sem koma nú við sögu, sem eru fræðsluskrifstofurnar og fræðslustjórarnir, sem eru millistig, sem er mjög á valdssviði sveitarfélaga að móta. Þar með er flutt mikið vald og mikil áhrif heim til sveitarfélaganna, án þess að þau taki á sig hina fjárhagslegu ábyrgð á framkvæmdinni.

Og svo eru önnur rök, sem ég legg ekki lítið upp úr, og þau eru þessi: Það er vitlaust kerfi, á hvaða sviði sem er, að ætla einum aðila framkvæmd og öðrum að leggja til peningana. Það er ekkert vit í því. Það væri algerlega eins og á vitlausraspítala. (EBS: Við leggjum það til.) Ég veit ekki til þess, að það séu till. uppi um annað hjá hv. 9. landsk. heldur en þungi skólastarfsins komi heim í sveitarfélögin og svo séu peningarnir útvegaðir af ríkinu. Er það ekki rétt? Er það ekki að ætla einum framkvæmdina og öðrum að leggja til peningana? Ég fæ ekki séð annað. Og ég segi, að mér líst aldrei á slíkt kerfi. Það eitt hefði nægt til þess, að ég væri á móti því. Þarna eru tvenn veigamikil rök gegn þessu, sem sjálfstæðismenn hafa verið að tefla hér fram sem sinni afstöðu, að meginvald yfir skólamálunum ætti að færast heim í héruðin, en fjárhagslega ábyrgðin að hvíla jafnt eftir sem áður á ríkinu.

Það er rétt, að hv. 9. landsk. lét snemma uppi sínar sérskoðanir, og ég bauð honum, áður en ég gekk frá nál., að færa hans bókun í nál., og það er þar. Ég held, að hann hafi ekki undan neinu að kvarta um það. Hans afstaða kom þar skýrt fram. En fram að þessu höfðu menn ekki orðið varir við það, að Sjálfstfl. hefði þá afstöðu, sem hann hefur túlkað í n. Ég skal ekki draga menn neitt í pólitíska dilka, þá, sem hafa unnið að undirbúningi þessa máls á ýmsum stigum, en ég hygg þó, að þar hafi sjálfstæðismenn, sem mikil afskipti hafa haft af skólamálum, komið við sögu, meðan frumvörpin voru í myndun og mótun hjá bæði fyrri og síðari n. Ég held, að það fari ekki á milli mála, að Kristján J. Gunnarsson skólastjóri Langholtsskóla sé sjálfstæðismaður og merkur skólamaður. Hann var einn af höfundum upphaflega frv., og hann skrifaði ekki undir nál. með fyrirvara um, að hann hefði gerólíka stefnu við meiri hl. Nei, það var enginn ágreiningur þar. Jónas B. Jónsson, fræðslustjóri Reykjavíkurborgar þáv., er einn af höfundunum. Hann markaði ekki heldur neina sérstöðu um þetta. Ég tek því undir það með hæstv. menntmrh., að það er alveg áþekkt fram að starfinu núna í vetur, að Sjálfstfl. hafi þá stefnu, sem nú er verið að túlka hér sem grundvallaratriði. Og á síðara stigi tekur þátt í endursamningu frv., bæði þessa frv. um skólakerfi og grunnskólafrv., Páll Líndal borgarlögmaður Reykjavíkur. Ekki kom hann með þessi sjónarmið. Þetta er nýfætt fóstur. En það getur verið alveg eins merkilegt að veita því athygli fyrir það. Það er rétt, sem hæstv. menntmrh. hefur sagt, þetta er nokkuð nýtilkomið. Þessa hefur ekki orðið vart, þessa ágreinings um sjálft skólakerfið, fyrr en þá nú á þessu síðasta stigi. Þetta var því aðeins ástæða til þess að gera að umtalsefni, að þessi atriði hafa hér verið vakin upp og leidd inn í umr.

Það er verið að tala um að auka vald sveitarfélaganna, og ekki skal ég sporna gegn því. En það er líka gert með þessu frv. Það er aukið vald sveitarfélaganna á sviðum menntamála og fræðslumála. Það er í þessu frv. lagt til að fela samtökum sveitarfélaganna, landshlutasamtökunum, veigamikinn þátt, t.d. varðandi fræðslur skrifstofurnar og fræðslustjórana. Þar er mikið vald fært heim í héruðin, einmitt til landshlutasamtaka sveitarfélaga, sem þó er ekki búið að lögfesta.

Ég held, að það sé ekki til neinn skoðanamunur, síst af öllu miðaður við flokka, um frv. um skólakerfi, og það eitt er til umr. núna, og þess vegna sé alveg ástæðulaust að teygja umr. á langinn um það. Ég get hins vegar búist við því, að það verði geysimiklar umr, um mótunina á fyrsta þætti þess skólakerfis, sem að lokinni afgreiðslu þessa frv. verður stefnt að, af því að það er þegar ljóst, að það verða milli 80 og 90 brtt. frammi og kannske þó enn fleiri í uppsiglingu. Við megum halda vel á spilunum, þegar svo er áliðið þings sem nú er, ef við eigum ekki að stofna afgreiðslu málsins alls í hættu með mjög sundurleitum og harkalegum skoðanamismun um brtt. okkar. Þær eru margar hverjar smávægilegar hjá okkur öllum, bæði hjá meiri hl. n, og einstökum nm. En það eru líka mjög þýðingarmiklar brtt., sem þarna er um að ræða, og ég tel, að það sé mikil nauðsyn, að Alþ. beri gæfu til að afgreiða þessi mál, um skólakerfið og um grunnskólann, á þessu þingi, því að það er versta útkoman af því öllu saman að velkjast enn þá eitt ár eða kannske lengur í vafa um það, hvort eigi að byggja í aðgerðum og framkvæmdum í skólamálum á núv. skólalöggjöf eða komandi löggjöf. Það er það versta. Gallalaus verður þessi löggjöf sjálfsagt ekki. Hún getur vel orðið meira eða minna gölluð, en við verðum bara að fela reynslunni að sverfa þá agnúa af. Við verðum að verða reynslunni ríkari. Frá þessari löggjöf á að ganga nú á þessu þingi að mínu áliti, og það er ekki rétt að bregða fæti fyrir það. Hv. 9. landsk, vék þó einmitt að þessu. Hann taldi eðlilegt, að fyrst væru afgreidd tekjustofnalög sveitarfélaganna og það væri beðið með afgreiðslu þessa máls eftir endurskoðun sveitarstjórnarlaga, þannig að það sæist, hversu mikið aukið vald sveitarfélögin ættu að fá samkv. þeirri löggjöf. Honum fannst öfugt að farið að afgreiða núna þessa löggjöf og svo verði kannske að breyta henni. Það er svo með sérhverja löggjöf, sem Alþ. setur. Ef breytist löggjöf frá því, að hún er sett, þá verður að horfast í augu við það að breyta viðkomandi löggjöf. Það er ekkert víst um þetta mál. En ef hv. þm, telur ótímahært að afgreiða málið ná, þá er auðvitað ein þingleg aðferð sjálfsögð, og hún er sú að bera fram till., ekki efnisbreytt., heldur till. um það, að málinu verði frestað. En það hefur hann ekki gert. Þess vegna álít ég, að allt hans tal um þetta sé út í hött.