01.04.1974
Neðri deild: 96. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3287 í B-deild Alþingistíðinda. (2985)

261. mál, dýralæknar

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 621 er frv. til l. um breyt. á l. nr. 31 frá 5. maí 1970, um dýralækna. Frv. þetta var lagt fram í hv. Ed., og er efni þess, að ráðh. setji reglur um framkvæmd eftirlits og nauðsynlegar ráðstafanir til að stöðva sölu á mjólk, sem vegna sjúkdóma eða óþrifnaðar gæti talist varasöm fyrir heilbrigði neytenda. Það hefur til þessa ekki varið talið ótvírætt í lögum, hver ætti að hafa þetta eftirlit. Þetta frv. er því flutt til þess, að það séu tekin af öll tvímæli um það, að dýralæknar eigi að hafa þetta eftirlit, eins og þeir eiga að hafa eftirlit um heilbrigði kúa og eftirlit með fjósum.

Í hv. Ed. var frv. breytt á þá leið, að málinu má skjóta til yfirdýralæknis, sem fellir fullnaðarúrskurð, ef til þess kemur. Þetta er gert til þess að tryggja það, að ekki geti orkað tvímælis um úrskurðarvald það, sem dýralæknir hefur í þessu tilfelli, og finnst mér réttmætt að setja þetta öryggisákvæði inn í frv.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta frv. fleiri orð, — það var um það samstaða í hv. Ed., — og legg til. herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. landbn.