06.11.1973
Sameinað þing: 13. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í B-deild Alþingistíðinda. (299)

349. mál, áætlun um hafrannsóknir o.fl.

Fyrirspyrjandi (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Til þess að vernda og nýta skynsamlega auðlindir hafsins og hafbotnsins þarf án efa að afla miklu meiri vitneskju um hafsbotninn og hafið og fiskistofnana og lífið í sjónum yfirleitt en við Íslendingar höfum yfir að ráða eða getum aflað okkur þeim búnaði, sem til umráða er í þessu skyni. Hér við bætist svo sú þjónusta við fiskiskipaflotann, sem þarf að koma til í vaxandi mæli, svo að vel geti tekist til um nýtingu fiskimiðanna. Fyrir þessum skoðunum gerði ég nokkra grein, þegar ég flutti þáltill. 1971, sem er undirrót þessarar fsp. minnar nú. Eru engin tök á því að rekja hér nánar en með þessu móti þær ástæður, sem þá voru færðar fram, en þáltill. var samþ. að efni til árið 1971, og er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta gera þriggja ára áætlun um haf- og fiskirannsóknir við Ísland, enn fremur um fiskileit, veiðitilraunir og aðra slíka þjónustu við fiskiveiðiflotann. Áætlunin sé gerð af Hafrannsóknastofnuninni í nánu samstarfi við samtök sjómanna og útvegsmanna. Áætlunina skal leggja fyrir Alþ. svo fljótt sem verða má.“

Ég gerði fsp. um það í fyrra, hvernig vinnan við þetta mál gengi, og var hún alveg orðrétt, eins og hún er nú. Henni var svarað í nóv. í fyrra, og þá kom í ljós, að þáltill. hafði þá ekki enn verið framkvæmd. Leikur mér nú hugur á, að vitneskja fáist um það, hvernig til hefur tekist síðan með framkvæmd till.