01.04.1974
Neðri deild: 96. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3288 í B-deild Alþingistíðinda. (2991)

298. mál, fjölbrautaskólar

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Þegar frv. til l. um fjölbrautaskóla, sem varð síðar að l. nr. 14 frá 1973, var undirbúið, voru aðeins uppi fyrirætlanir um stofnun eins skóla með því sniði hér í Rvík. Það var ástæðan til þess, að ákvæðin um skiptingu kostnaðar af slíkri skólastofnun voru aðeins miðuð við þær aðstæður, sem taldar voru ríkja í Rvík. Skv. áætlun um nemendafjölda og skiptingu hans á námsbrautir var talið, að réttmæt skipting á kostnaði milli ríkis og Reykjavíkurborgar væri þannig, að ríkissjóður skyldi greiða 60% stofnkostnaðar, en Reykjavíkurborg 40%. Þetta ákvæði hélst óbreytt í l., enda þótt í meðförum Alþ. kæmi í ljós, að áhugi var víðar en hér í höfuðborginni á að koma upp skólastofnunum með fjölbrautasniði, og því var sett í lögin heimild, sem gerði stofnun fjölbrautaskóla færa, hvar sem er á landinu.

Síðan hafa athuganir farið fram á stofnun fjölbrautaskóla á ýmsum stöðum, og fyrirætlanir eru mislangt komnar um að vinna að því, að sú skólagerð taki til starfa í ýmsum landshlutum. Hér má nefna til staði eins og Austurland með skólastofnanir á Egilsstöðum og Neskaupsstað, Sauðárkrók, Selfoss og Keflavík, og stefnt er að því að koma á fjölbrautanámi í Kópavogi og Hafnarfirði.

Við athugun á aðstæðum á þessum stöðum hefur komið í ljós, að ákvæðin um kostnaðarskiptingu, sem miðuð eru við aðstæður í Rvík, eiga miður vel við á öðrum stöðum með allt annan nemendafjölda og þar sem önnur samsetning námsbrauta í fjölbrautaskóla er fyrirhuguð. Því þykir nauðsyn til bera, að í lagaákvæðunum sé nægur sveigjanleiki, til þess að kostnaðarskiptingin geti farið eftir aðstæðum og skilyrðum á hverjum stað. Til þess er þetta frv. flutt. Í því felst breyt. á 6. gr. l. um fjölbrautaskóla, og er kveðið svo á, að kostnaðarskipting skuli fara eftir samkomulagi milli menntmrn. og mótaðila. Sú kostnaðarskipting skal gerð með hliðsjón af gildandi l. um það nám, sem í boði verður innan fjölbrautaskólans, sem verið er að stofna.

Ég legg svo til, herra forseti, að eftir þessa umr. verði málinu vísað til hv. menntmn.