01.04.1974
Neðri deild: 96. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3289 í B-deild Alþingistíðinda. (2992)

298. mál, fjölbrautaskólar

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt aths. Um leið og ég lýsi fylgi mínu við þetta frv. og fagna því, að nú á að færa út kvíarnar varðandi fjölbrautaskóla og skapa möguleika til þess að setja þá upp víðar en hér í Reykjavík, þá vildi ég vekja athygli á einu atriði, sem vissulega er nokkuð mikilvægt, þegar fjallað er um fræðslumálin og skiptingu kostnaðar milli ríkis og sveitarfélaga á þessum vettvangi.

Umr. urðu nokkrar varðandi þetta atriði fyrir nokkrum dögum, þegar rætt var um skólakerfið, og eiga sjálfsagt eftir að halda áfram, þegar rætt verður um grunnskólafrv., þ.e.a.s. umr., sem snerta þann ágreining, þann skoðanamun, sem fram hefur komið um það, hvernig eigi að halda á þessum málum, hvernig vinnubrögðin eigi að vera, þegar teknar eru ákvarðanir um það, hvaða aðili eigi að hafa forustu í fræðslumálunum og hvernig kostnaðarskiptingin eigi að vera milli ríkis og sveitarfélaga í þeim efnum. Ég hef verið talsmaður þeirra sjónarmiða, að það sé nauðsynlegt, áður en ákvörðun sé tekin um tekjuskiptinguna eða um aukna tekjuöflun til handa sveitarfélögum, að þá liggi fyrir, hver eigi að vera hin raunverulegu verkefni sveitarfélaga á sviði fræðslumála. Af þessu máli, sem hér er lagt fram, má ráða, hversu mikið er til í þessum sjónarmiðum mínum, og ég lít svo á, að þetta frv. sé því til áréttingar, að nauðsynlegt sé, að fyrst séu teknar ákvarðanir um það, hvaða verkefni komi í hendur sveitarfélaganna, áður en ákvörðun um tekjuöflun eða tekjuskiptingu sé ákveðin. Þar af leiðandi hlýtur maður að draga þá ályktun, að um leið og Alþ. ákveður t.d. stofnun fjölbrautaskóla og áður en Alþ. tekur ákvörðun um tekjuskiptingu eða breytta tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga, eins og boðað er, að nú standi yfir, þá er vitaskuld bráðnauðsynlegt, að fyrir liggi áður vilji Alþ. um það, hversu mikið sveitarfélögin eigi að taka að sér á vettvangi fræðslumálanna.

Ég vildi aðeins koma þessu sjónarmiði hér á framfæri, vegna þess að ég tel það eiga erindi til n., þegar hún fer yfir þetta frv., með alveg sama hætti og það var nauðsynlegt fyrir menntmn. Nd. að leggja línurnar fyrst um það, hvað við viljum, að sveitarfélögin hafi með höndum varðandi grunnskóla, áður en ákvörðun er tekin um tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga.