01.04.1974
Neðri deild: 96. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3290 í B-deild Alþingistíðinda. (2994)

292. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Með l. nr. 5 frá 28. febr. á þessu ári var ákveðið að leggja á sérstakt gjald, 1% á söluskattsstofn, og verja tekjum þessum til að draga úr kostnaði við upphitun íbúðarhúsnæðis með olíu. Þegar þessi lög voru sett, var því lýst yfir, að síðar yrði flutt frv. um það, hvernig þessu gjaldi skyldi ráðstafað til þeirra aðila, sem orðið hafa fyrir stórauknum útgjöldum vegna verðhækkunar á olíu. Á þeim tíma, sem liðinn er síðan þessi lög voru sett hér á hv. Alþ., hefur þetta mál verið til athugunar og af hálfu viðskrn. hefur verið haft samráð við stjórnmálaflokkana um till. varðandi það, hvernig þessum fjármunum skuli varið. Það frv., sem hér er nú lagt fram, hefur verið samið á þennan hátt og gerir ráð fyrir þeim till., sem greindar eru í þessu frv. varðandi ráðstöfun á þessu sérstaka gjaldi. En eins og fram kemur í frv., 2. gr., er lagt til, að þessum fjármunum verði varið þannig:

1) Til þess að styrkja þá aðila, eins og segir í 2. gr., sem nota olíu til hitunar íbúða sinna, og greiðist sama upphæð á hvern íbúa, sem býr við olíuupphitun. Olíustyrkur greiðist hverjum framteljanda til skatts og einnig vegna maka og barna, sem eru á framfæri hans og eigi eru sjálfstæðir framteljendur. Skal þessi styrkur ekki talinn til tekna við álagningu tekjuskatts og útsvars.

2) Gert er ráð fyrir því, að heimilt sé að veita þeim rafveitum í landinu styrk af þessu fé, sem nota að einhverju verulegu ráði olíu til þess að framleiða raforku til upphitunar húsnæðis.

Eins og fram kom, þegar l. nr. 5 frá 28. febr. 1974 voru sett, hefur farið fram nokkur athugun á því, hvað þeir aðilar séu margir í landinu, sem nú búa við olíuupphitun húsa sinna. Er talið, að þeir íbúar, sem þannig er ástatt um, séu um 100 þús. talsins. Einnig er álitið, að tekjur af þessu gjaldi, sem ákveðið var með l. frá í febrúar, muni á ársgrundvelli nema í kringum 800 millj. kr. Samkv. því væri hægt að greiða styrk samkv. þessu frv., sem næmi í kringum 8 þús. kr. á ársgrundvelli miðað við hvern einstakan fjölskyldumeðlim, þ.e.a.s. á ársgrundvelli gæti 5 manna fjölskylda, sem býr við olíuupphitun húsnæðis, fengið í styrk samkv. þessum till. í kringum 40 þús. kr.

Það er augljóst, að þó að öll þessi fjárhæð gangi á þennan hátt til þess að draga úr hitunarkostnaði með olíu og þá aðeins til upphitunar íbúðarhúsnæðis, þá yrði hér ekki um of mikla greiðslu að ræða til þessara aðila, nema síður sé, þannig að hætt er við því, að þeir, sem búa við notkun olíu í þessum efnum, yrðu eigi að síður að taka á sig nokkru meiri verðhækkun en þeir, sem búa við upphitun frá hitaveitu. Það er því ekki um það að ræða, að hægt sé í rauninni að nota þá fjármuni, sem hér er um að ræða, til annars en þess að draga úr þeim kostnaði, sem þeir verða fyrir, sem hita upp íbúðir sínar með olíukyndingu.

Það hefur af eðlilegum ástæðum nokkuð verið athugað, hvaða leiðir væru tiltækilegastar til þess að koma þessu gjaldi á á sem sanngjarnastan hátt til þeirra, sem verða fyrir þessum auknu útgjöldum. Fyrst hefur að sjálfsögðu verið athugað, hvort ekki væri hægt að greiða niður verð olíunnar, þeirrar olíu, sem notuð er til húsakyndingar. En í ljós hefur komið, að sú leið er ekki fær m.a. af þeim ástæðum, að hér er um að ræða upphitun á húsnæði, sem nær langt út fyrir það að vera aðeins íbúðarbúsnæði. Hér er um upphitun að ræða á margs konar húsnæði umfram íbúðarhúsnæði, eins og t.d. á skrifstofuhúsnæði, alls konar opinberum stofnunum, skólum, félagsheimilum, jafnvel ýmiss konar vinnustöðum, og verður ekki auðvelt að greina á milli þeirrar olíu, sem afhent er þeim, sem eru að hita upp íbúðir sínar með olíu, og hinnar, sem notuð er til upphitunar á öðru húsnæði. Væri farin sú leið að greiða niður verðið á þessari olíu, er mjög hætt við því, að hér yrði um mikla misnotkun að ræða og kæmi alls ekki þeim að fullu gagni, sem þó er ætlast til að fái þessa aðstoð, þ.e.a.s. þeim, sem verða að hita upp íbúðir sínar með olíukyndingu.

Þá hefur einnig verið athugað, hvort hægt væri að fara þá leið að miða þessa niðurgreiðslu eða þessa styrkveitingu við stærð íbúðarhúsnæðis. Hefur við nánari athugun þótt vera sanngjarnara að miða þessa greiðslu við fjölda þeirra, sem eru í hverri fjölskyldu eða eru í hverri íbúð, fremur en miða við íbúðarstærð. Í allmörgum tilfellum mun það vera svo, að þeir, sem hafa hið stærra húsnæði, eru þá gjarnan efnaðri menn, þótt það sé ekki í öllum tilfellum, og má því búast við því, að í þeim tilfellum, þar sem margir eiga hlut að máli í heimili, en búa kannske við þrengra húsnæði, þá yrði þeirra hlutur lakari, ef miðað yrði við íbúðarstærð, heldur en þegar miðað er við fjölda þeirra, sem í fjölskyldunni eru. Við athugun á málinu hefur sem sagt sú niðurstaða orðið að telja, að það væri miklu sanngjarnara að miða við það, sem lagt er til að miða við í þessu frv., en að miða við rúmmál húsnæðis. Það er einnig talið, að það sé tiltölulega auðvelt og geti verið kostnaðarlítið að koma þessari aðstoð til réttra aðila, þegar þessi leið er valin, þar sem gert er ráð fyrir því, að hægt sé að greiða þennan styrk fyrir milligöngu bæjar- og sveitarstjórna á hverjum stað. Þær hafa tiltölulega greiðan aðgang að skýrslum um fjölda þeirra aðila, sem hér eiga hlut að máli í hverju einstöku tilfelli.

Þá hefur einnig þótt rétt að hafa í frv. almenna heimild um það, að hægt væri að verja nokkrum hluta af þessu fé til þess að styrkja þær rafveitur, sem óumdeilanlega verða að nota talsvert mikla olíu til framleiðslu á raforku, sem síðan er seld til íbúðarhúsahitunar. Í nokkrum tilfellum á þetta sér stað, og er full sanngirni í því, að styrkur sé veittur í slíkum tilfellum, þegar þá ekki hefur verið um hækkun á raforkunni að ræða til húsahitunar umfram það, sem önnur raforka hefur verið látin hækka um. En hér yrði þó greinilega um tiltölulega litlar fjárhæðir að ræða og fá tilfelli. en rétt þótti við athugun að hafa þessa heimild í frv.

Ég vil svo að lokum leggja á það áherslu, að ég hygg, að það sé full samstaða hér á hv. Alþ. um það, að hér er um nauðsynlega aðgerð að ræða. Þessum fjármunum þarf að koma til þeirra aðila í landinu, sem hafa orðið fyrir stórkostlega auknum útgjöldum. Það eru fyrst og fremst þeir, sem verða að hita upp híbýli sín með notkun olíu, og það er fyrst og fremst til þeirra, sem þessir fjármunir eiga að ganga. Vissulega hefði verið æskilegt, að hægt hefði verið að hafa í þessu skyni miklu hærri fjárhæð, nota hana þá til þess að greiða olíuna niður í verði almennt séð, þ.e.a.s. að veita stuðninginn einnig til margra annarra aðila, sem hafa með höndum margvíslegan rekstur. En þá hefði þurft að vera til miklu hærri fjárhæð en við höfum úr að spila, og eigi að teygja þessa greiðslu út til fleiri en þeirra, sem hita upp íbúðarhúsnæði, er augljóst mál, að þá verður það gert á kostnað þeirra, sem hita upp íbúðir sínar með notkun olíu.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða þetta öllu meira, því að málið er þegar allvel rætt og samráð hefur verið haft við flokkana um gerð þessa frv. Ég hygg, að ágreiningur sé ekki mikill um málið, þó að það geti verið eitthvað skiptar skoðanir um einstök atriði. Ég mun því ekki ræða málið frekar við þessa umr., nema sérstakt tilefni gefist til, en ég legg til. að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn, til fyrirgreiðslu.