01.04.1974
Neðri deild: 96. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3296 í B-deild Alþingistíðinda. (2996)

292. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Pétur Pétursson:

Herra forseti. Mig langar til að segja nokkur orð í þessum umr. Eins og kom fram hjá hv. 1. þm. Sunnl., vorum við kvaddir sem fulltrúar okkar flokka eitthvað tvisvar, þrisvar sinnum til að tala við embættismenn í viðskrn. Ég get tekið undir margt af því, sem hv. þm. Ingólfur Jónsson sagði um, að það væri vissulega æskilegt að geta gengið lengra en þetta frv. gerir ráð fyrir. Það væri vissulega æskilegt að geta aðstoðað ýmis fyrirtæki úti um landsbyggðina, sem þurfa nú að nota olíu, og eru þau af ýmsu tagi, eins og t.d. ýmis iðnfyrirtæki, sem þurfa að hita með olíu. Sannleikurinn er sá, að hvernig sem þessu máli verður velt fyrir sér, verður ákaflega erfitt að finna einhverja lausn, sem sé 100% rétt. Það verður að finna þær leiðir, sem menn telja sanngjarnastar, þrátt fyrir allt.

Þegar við vorum að ræða um þetta í rn., þá var okkur gefin sú forsenda, að við hefðum í raun og veru ekki nema 750 millj. kr. til ráðstöfunar í þessu skyni. En ef það kemur í ljós, sem hv. þm. Ingólfur Jónsson ræddi um áðan, að þessi upphæð er kannske 20% hærri, þá er ég sannarlega reiðubúinn til þess að ræða það aftur, hvort hægt er að færa þetta eitthvað til atvinnuveganna. Um það bil helmingur þjóðarinnar notar nú olíu til hitunar, og það er þessi helmingur, sem við erum að reyna með þessari löggjöf að aðstoða, þannig að misræmið á milli bitaveitu og olíuhitunar verði ekki meiri en það var á s.l. ári í stórum dráttum. Og þó er ég hræddur um, ef þetta verða ekki nema 750 millj. kr., að þá nái þessir endar tæpast saman. Ég held, að við höfum orðið nokkurn veginn sammála um það með embættismönnunum.

Það er svo annað mál, sem blandast beint inn í þetta, þó að það sé ekki þessu frv. viðkomandi, hvað er hægt að gera, — eða er eitthvað hægt að gera til þess að hraða framkvæmdum á hitaveitusvæðunum og nota rafmagn til hitunar? Ég geri mér grein fyrir því, að þetta er ekki verk, sem er unnið á stuttum tíma, en það er höfuðatriði, að þessar framkvæmdir hafi gjörsamlega forgöngu, vegna þess að þær koma. undireins að gagni fyrir margt fólk og þar með margs konar atvinnurekstur.

Milliþn. í byggðamálum ræddi þetta mál strax, þegar olíuhækkanirnar fóru að dynja yfir, og lagði til við ríkisstj., að einhverjar sérstakar ráðstafanir yrðu gerðar til að jafna þennan mismun. Ég verð að segja það, þótt ég sé ekki fullkomlega ánægður með fyrirkomulagið í afgreiðslunni, eins og það er, þá kem ég ekki auga á neina aðra sanngjarnari leið, og þá finnst mér sjálfsagt að fara þá leið, sem menn telja þó sanngjarnasta, og tel ég, að þetta frv. stefni að því. Hitt er svo nýtt viðhorf, ef olíusjóðurinn hefur umtalsvert fé umfram það, sem okkar forsendur voru, þegar við vorum að ræða þetta, og ég tek undir með hv. 1. þm. Sunnl., að ég vil mega treysta því, að sú n., sem fær málið til meðferðar, grandskoði það.