01.04.1974
Neðri deild: 96. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3303 í B-deild Alþingistíðinda. (2998)

292. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Ég er í rauninni ekkert hissa á þeirri ræðu, sem hér var að ljúka, vegna þess að ég hafði heyrt þennan hv. þm. tala í þessu máli áður, og þá kom það greinilega í ljós, að hann er algerlega á móti því, að gerðar séu ráðstafanir í þá átt, sem hér er verið að gera. Hann var þá æðistórorður og brýndi sína flokksmenn á því, að þeir væru heldur litlir karlar að nota nú ekki tækifærið og leggjast í veg fyrir þetta mál ríkisstj. eins og önnur og reyna að koma ríkisstj. frá. Þó að hann væri allstórorður þá, virtist enginn hans flokksmanna taka undir með honum, og létu þeir þetta eins og vind um eyru þjóta. Ég er því ekkert hissa á þessari ræðu. Hér er aðeins sá maður að tala, sem er í rauninni á móti því, að ráðstafanir séu gerðar til þess að létta undir með þeim, sem hafa orðið fyrir óvæntum og miklum útgjöldum, enda var alveg augljóst, að hann hafði ekkert efnislegt fram að færa máli sínu til stuðnings. Ég kem kannske nokkru nánar að ræðu hans síðar.

Ég ætlaði þó fyrst og fremst að ræða um það, sem kom fram í ræðu hv. 1. þm. Sunnl., Ingólfs Jónssonar, því að ég vil enn trúa því, að hann sé stuðningsmaður þess, að meginefni þessa máls nái fram að ganga. Það er í rauninni varla um annað að ræða en það, að hér sé um tvö ágreiningsefni að gera á milli þeirra, sem hér hafa talað á vegum Sjálfstfl., og t.d. mín, varðandi þetta mál. Annað er það, að þeir séu óánægðir með það fyrirkomulag, sem gert er ráð fyrir varðandi styrkjagreiðslu eða niðurgreiðslu á hinum aukna olíukostnaði, þ.e. varðandi fyrirkomulagið. En hvaða fyrirkomulag vilja þeir þá hafa? Hvers vegna koma þeir ekki með till. sínar? Jú, hv. 1. þm. Sunnl. nefndi einn möguleika, og ég ætla að víkja einmitt að þeim möguleika. Hann hugsaði sér það fyrirkomulag, að olíufélögin í landinu fengju þá upphæð, sem hér væri um að ræða, væntanlega þessar 900 millj., sem hann talar nú um, og svo ættu olíufélögin að sjá um það að öðru leyti, að þeir, sem hita upp húsnæði sitt með olíu, fengju að njóta lægra verðs. Hv. þm. viðurkenndi þó, að það væri augljóst mál, að það væri ekki hægt að nota þá upphæð þannig, — jafnvel þótt hann teygði hana upp í 900 millj. eða 1000 millj., sem auðvitað eru engin rök fyrir, — að hægt væri að láta alla þá, sem nota olíu til upphitunar húsa, búa við sambærilegt verð og þeir urðu að búa við að meðaltali á árinu 1973, hér væri um allt of litla upphæð að ræða. Og eins og ég hef sagt, ég vil ekki trúa því enn þá, að það sé raunveruleg skoðun Sjálfstfl. almennt, að hann telji ekki brýnni þörf á því að mæta þeim vanda, sem heimilin í landinu verða fyrir í þessum efnum vegna olíuverðhækkunarinnar, en að hlaupa undir með atvinnurekstrinum almennt, sem býr við allt aðra aðstöðu. Atvinnureksturinn hefur möguleika til þess að velta þessu af sér og er þegar búinn að fá að gera það. Auðvitað er það þannig með atvinnureksturinn, að í langflestum tilfellum gerir hann kröfu um að fá að velta þessu af sér út í verðlagið eða í sambandi við útselda þjónustu m.a. Það væri þá líka full ástæða til þess, ef ætti að fara að borga niður þennan rekstrarkostnað hjá atvinnurekstrinum, að líta á afkomuna hjá atvinnurekstrinum almennt. Þar eru ekki allir eins á sig komnir, t.d. þeir, sem reka verslun eða við skulum t.d. segja stórir olíunotendur í landinu, sem hafa notað olíu til alls konar verksmiðjurekstrar. Sumir þeirra geta fyllilega borið þessa olíuhækkun sjálfir og hafa ekki gert neina kröfu um, að þessu verði velt af þeim. En aðrir eru hins vegar í atvinnurekstri þannig á sig komnir, að þeir standa höllum fæti, og þyrfti kannske að rétta þeim hjálparhönd. En það er till. hv. 1. þm. Sunnl., Ingólfs Jónssonar, að olíufélögin í landinu fái alla upphæðina, 900 millj. kr., og svo eiga þau að úthluta þessari upphæð með verðlagningu, þannig að hún komi að öllu leyti til skila, t.d. til þeirra, sem hita upp íbúðarhúsnæði sitt með olíu. Ætli það mundi ekki fljóta eitthvað fram hjá? Er meiri ástæða til að trúa þessum aðilum til að úthluta þessari upphæð, þannig að engin undanbrögð séu, heldur en forustumönnum sveitarstjórnarmálefna á hverjum stað?

Ég fyrir mitt leyti dreg enga dul á það, að ég trúi ekki olíufélögunum eða umboðsmönnum þeirra til þess að úthluta þessari upphæð á þennan hátt, og ég tel, að þá væri farið út á háskabraut og verið að skapa hér hið herfilegasta misrétti. Hins vegar er afar einfalt fyrir forustumenn í sveitarstjórnum að gefa það upp, t.d. á þriggja mánaða fresti, til opinherra aðila, hvaða íbúar í þeirra umdæmi búa við olíukyndingu og hafa búið við hana á þeim liðna tíma, næstliðnum þremur mánuðum, og forustumenn sveitarfélaganna taki síðan að sér að afhenda þeim, sem búið hafa á liðnum tíma við olíunotkun þær fjárhæðir, sem um er að ræða. Þetta er ekki mikið verk, og mér finnst langeðlilegast að trúa forustumönnum sveitarfélagsins á viðkomandi stað fyrir því að afhenda fólkinu, sem orðið hefur fyrir þessum auknu útgjöldum, þessa fjárhæð. En að afhenda í þess stað umboðsmönnum olíufélaganna allt þetta fé og láta þá deila því á milli þeirra, sem olíu fá, er alveg fráleitt. Ég vil segja það, að það er ekkert við því að segja, ef það er svo, að allur Sjálfstfl. er á þessari skoðun, að það ætti fremur að velja þessa leið, þar sem þarf að láta suma aðila fá þetta fjármagn, sem nota olíuna til húsakyndingar, en aðra ekki, vegna þess að sumt af olíunni gengur til þess að hita upp íbúðarhúsnæði, annað gengur til þess að hita upp skrifstofuhúsnæði, verslunarhúsnæði, atvinnurekstrarhúsnæði o.s.frv. Er það virkilega svo, að Sjálfstfl. almennt trúi í þessum tilfellum olíufélögunum og umboðsmönnum þeirra betur til þess að deila út svona fjármagni en forustumönnum sveitarfélaganna? Ef það er, þá er málið afskaplega einfalt, þá á hv. 1. þm. Sunnl. fyrir hönd sjálfstæðismanna að flytja hér till. um þetta. Síðan reynir á það hér á Alþ., hvort það er meiri hl. fyrir þessari till. Ég segi fyrir mig, að ég vil gjarnan fá þessa till. fram og bókaða, en að menn séu ekki aðeins að tala lauslega um hana. Það má gjarnan sjást, ef það er svo, að Sjálfstfl. sé á þessari skoðun og allur þingflokkur hans vilji styðja þessa till. Ég trúi því ekki, fyrr en ég tek á því. En þennan vanda ættum við að geta gert upp hér á hv. Alþ. á þann einfalda hátt, að Sjálfstfl. flytji till. um það, hvaða fyrirkomulag hann vill hafa á því að koma þessum fjármunum til réttra aðila.

Þeir embættismenn, sem ríkisstj. fól að semja þetta frv., hafa valið þá leið, sem kemur fram í þessu frv. Ég hef sagt það áður í þessum umr., að ég hafði fyrst aðra skoðun, ég hafði þá skoðun, að líklega ætti að deila þessum fjármunum út miðað við íbúðastærð. En embættismennirnir, sem áttu að vinna verkið, sannfærðu mig um það, að þetta væri einfaldari leið, sem hér er valin, réttlátari leið, sem hér er valin, og því styð ég þann. Vitanlega er hér ekki í eðli sínu um neinn flokkspólitískan ágreining að ræða. Og það samráð, sem lofað var og haft var við fulltrúa flokkanna, ég vísa því algerlega frá, að það hafi verið vikið frá því á nokkurn hátt. Það var, að fulltrúar Sjálfstfl. og Alþfl. fengju fulla aðstöðu til þess að ræða við þá menn, sem unnu að því sem embættismenn að semja þetta frv. Hefði náðst samkomulag þeirra á milli, þá býst ég við, að það hefði einnig orðið samkomulag við okkur hina. Við vildum aðeins reyna að velja þá leið, sem væri tiltölulega einföldust og réttlátust, til þess að dreifa út þessu fjármagni. En þarna er annað ágreiningsefnið. Það er um formíð á því, hvernig á að koma þessum fjármunum, hvort sem það eru 800 eða 900 millj., til þeirra, sem hafa fengið á sig þessi auknu útgjöld. Það er formið.

Hver er svo hinn ágreiningurinn? Hinn ágreiningurinn, sem ég held, að sé hinn raunverulegi ágreiningur, er um það, að við aðhyllumst það, að þetta takmarkaða fjármagn verði notað einvörðungu til þess að lækka kyndingarkostnaðinn við íbúðarhúsakyndingu, af því að fjármagnið sé ekki meira en svo, að það þurfi að nota það allt í því skyni. En þá koma nokkrir fulltrúar Sjálfstfl. og tala í sífellu um að nota þetta fjármagn, þótt það sé svona takmarkað, einnig til þess að lækka kyndingarkostnað almennt séð í atvinnurekstri allra þeirra, sem þurfa að nota olíu til húsnæðiskyndingar eða við annan rekstur. Ég segi einnig um þetta, — ég hef sagt það nokkrum sinnum áður, m.a. við hv. 1. þm. Sunnl., Ingólf Jónsson, ég trúi því ekki heldur fyrr en ég tek á því, að Sjálfstfl. almennt séð hér á Alþ. ætli að standa fast á því að gera niðurgreiðslurnar til íbúðarhúseigenda í landinu eða þeirra, sem þurfa að kynda upp íbúðir sínar, minni en þær þurfa nauðsynlega að vera til þess að kroppa af þessu nokkra upphæð og afhenda atvinnurekstrinum þá fjárhæð. Ég trúi því ekki. En ef þeir eru á þessari skoðun, eiga þeir líka að koma fram með till. um þetta, að niðurgreiðslan til að hita upp íbúðarhúsnæði skuli vera minni en við leggjum til, en aftur að sjálfsögðu meiri til hinna, sem nota olíuna í sinn almenna atvinnurekstur. Það er vitanlega engin leið út úr þessu að halda þannig á málinu, eins og hv. 1. þm. Sunnl., Ingólfur Jónsson, gerði hér, að þegar áætlanir liggja fyrir um það, að sú fjárhæð, sem um er að ræða, muni vera 800 millj., þá byrji hann að teygja og toga þessa upphæð, teygja hana fyrst upp í 900 millj., síðar segir hann, að muni seinna á árinu vera hægt að teygja hana upp í 1000 millj., og hann ætlar að spila úr einhverri svona teygðri upphæð. Þetta er vitanlega alveg óraunhæft og kemur þeim auðvitað ekki að neinu gagni, sem þurfa að búa að þessu fé.

Ég tel, að eftir sé að leysa þann vanda, sem snýr að atvinnurekstrinum almennt og reyndar ýmsum öðrum aðilum en þeim, sem flokkast undir það að hafa atvinnurekstur með höndum. Við vitum t.d. um það, að útgerðarmenn í landinu hafa til bráðabirgða leyst sinn vanda varðandi olíuverð með því að taka af sínum eigin fjármunum ákveðna upphæð og borga niður olíuverðið til fiskiskipa, þar til kemur fram í júnímánuð. Enn er alveg óráðið, hvernig verður farið með olíukostnað fiskiskipa á síðari hluta ársins, og er alveg sama að segja um ýmsa aðra aðila. Það er enn ekki búið að leysa þann vanda, hvernig á að mæta auknum olíukostnaði í margvíslegum atvinnurekstri og í margvíslegri þjónustu. Sumir hafa þó fengið, eins og ég sagði, að velta þessu af sér, fengið að taka þetta inn í sinn rekstrarkostnað, hækka sín þjónustugjöld, hækka sitt verðlag, vegna þess að olían hefur hækkað í verði hjá þeim. En ef menn væru hins vegar á þeirri skoðun, að það ætti að reyna að láta allan atvinnurekstur og alla þjónustustarfsemi í landinu búa við óbreytt olíuverð frá því, sem var fyrir olíuhækkunina, þá þarf auðvitað að afla miklu meira fjár en hér hefur verið aflað. Og ég er hræddur um, að það komi ósköp lítið til, þó að menn haldi áfram þessari lönguvitleysu, sem hér hefur verið spiluð að undanförnu, að vísa alltaf á það, að það sé hægt að skera niður á fjárlögum, ríkið geti bara tekið þetta á sig. Menn vitanlega sleppa ekki út úr vandamáli eins og þessu með því að hlaupa svona út undan sér. Hér er hreinlega um það að ræða, hvort á að hlaupa undir bagga með þeim, sem hér hafa orðið harðast úti, eða ekki. Ég vil alveg sérstaklega segja það, að það er búið að draga afgreiðslu þessa máls allt of lengi hér á Alþ., og það er í rauninni ekki sæmandi, að hér skuli koma fram hv. þm., sem talar í nafni Sjálfstfl., og að þeir geti nú, þegar komið er fram í aprílmánuð, lagt til, að enn sé farið að skoða málið betur. Það er kominn tími til þess að fara að greiða því fólki nokkrar bætur, sem hefur búið við stórhækkandi olíukostnað það sem af er árinu.

Það er mesti misskilningur, að þetta mál hafi orðið þá fyrst til hjá ríkisstj., þegar Sjálfstfl. skrifaði ríkisstj, bréf og tilkynnti, að hann vildi gjarnan hafa samstarf við hana um að leysa þetta vandamál. Ég var búinn að gefa hér a.m.k. einu sinni, ef ekki oftar yfirlýsingu á Alþ., áður en þetta bréf kom, að það væri unnið að því í ríkisstj. að finna leiðir út úr þessu vandamáli. Og ríkisstj. var búin að samþykkja það, og það var bókað hjá ríkisstj., að hún hefði tekið ákvörðun um það, hvernig hún vildi leysa þetta mál í aðalatriðum, áður en bréf Sjálfstfl. var dagsett. Auðvitað var bréfi Sjálfstfl. vel tekið af ríkisstj. Þar kom stór flokkur hér á Alþ., sem vildi vinna að því með öðrum að leysa þennan sérstaka vanda, og ég hef viljað trúa því, að hvað svo sem skoðun hv. þm. Ellerts B. Schram líður, sem sýnilega er á móti sínum flokki í þessu máli, þá meini Sjálfstfl. það almennt séð, að hann vilji reyna að leysa þennan vanda. En það er ekki rétt leið að tefja málið úr hófi fram, því að það er búið að liggja svo lengi fyrir, að það ætti að vera hægt að gera það upp á einfaldan hátt. Ef það er svo, að það sé engin leið að finna milliveg milli þeirra sjónarmiða, sem hér hafa komið fram, verða vitanlega atkv. að skera úr. Við erum margir á þeirri skoðun, að þessi niðurgreiðsla eigi fyrst og fremst að ganga til þeirra, sem þurfa að nota þessa dýru olíu til þess að kynda upp íbúðir sínar, fyrst fjármagnið er svona takmarkað, og önnur notkun á olíu verði þá að bíða, það verði að athuga það þá alveg sérstaklega í hverju tilfelli, hvernig eigi að leysa þann vanda.

Hv. 9. landsk, þm., Ellert B. Schram, var hér mjög stórorður um það, að ríkisstj. hefði svikið sín fyrirheit og hún hefði ekkert samráð haft við stjórnarandstöðuna o.s.frv. Allt er þetta auðvitað hreinn þvættingur. Ríkisstj. hefur leitað eftir því við fulltrúa stjórnarandstöðunnar, að þeir segðu til um sína skoðun á þessu máli. Það hefur verið leitað eftir því að reyna að ná samkomulagi. En það er rétt, að á meðan hér er ekki um meira fjármagn að ræða en fyrir liggur, þá verður ekki auðvelt að fá hér fram meiri hl. á Alþ. fyrir því, jafnvel þó að einhverjir menn úr Sjálfstfl. krefjist þess, að þetta takmarkaða fjármagn verði látið að verulegu leyti fara til stuðnings við atvinnurekstur, á meðan það er ekki nægilegt til að leysa vanda þeirra, sem þurfa að hita upp íbúðarhúsnæði sitt. Ef það er algert skilyrði til þess að ná nokkurri samstöðu í Sjálfstfl., að svona sé haldið á málinu, þá auðvitað fæst ekkert samkomulag.

Hv. 9. landsk. þm., Ellert B. Schram, reyndi að mála hér upp, vegna þess að hann er á móti málinu, ýmiss konar fjarstæður í sambandi við framkvæmd málsins. Hann sagði, að hér væri verið að koma upp risavöxnu styrkjakerfi. Ja, sér er nú hvað: risavöxnu styrkjakerfi. Og hann sagði, að líklega yrði þetta þannig, að hér yrði öllum greitt og jafnvel yrði þeim greitt, sem alls ekki væru staddir á landinu, heldur væru einhvers staðar annars staðar staddir og hituðu því ekki upp húsnæði sitt. Auðvitað er þetta hrein fjarstæða. Eins og ég sagði, er hugmyndin að sjálfsögðu sú að leita til forustumanna sveitarfélaga á hverjum stað og fá þá til þess að gefa upp skýrslu um það, hverjir í þeirra umdæmi hafi t.d. á liðnum þremur mánuðum orðið þar á staðnum að kynda upp íbúðarhúsnæði sitt, og síðan mundu stjórnvöld, eftir að hafa haft þá athugun í frammi á þessum skýrslum, sem stjórnvöld telja nauðsynlega, greiða til sveitarstjórnanna þá fjárhæð, sem þangað á að fara samkv. þeim bestu upplýsingum, sem fyrir liggja, þannig að það á að vera tryggt, þar sem þetta verður greitt eftir á, að það verði aldrei greitt neinum nema þeim, sem hefur þurft að kynda upp húsnæði sitt á liðnum tíma með hinu háa verði. Auðvitað er gert ráð fyrir því, að sú hreyfing verði áfram, eins og hefur verið, að þeir, sem kyntu upp íbúðir sínar með olíu, geti hætt að kynda þær með olíu. Það getur jafnvel komið hitaveita í þeirra hús eða þá þeir taka upp rafmagnsupphitun o.s.frv. eða þá að íbúðin hverfur með öllu úr íbúð, það er hætt að búa í henni. Af því er gert ráð fyrir því að greiða þessar bætur eftir á samkv. skýrslum og athugunum þeirra manna, sem verður að trúa fyrir framkvæmd slíkra mála og ég get ekki jafnað saman á neinn hátt við það að trúa almennt umboðsmönnum olíufélaganna fyrir því að segja til um, hvort tiltekin olíuafhending hefur farið til þess að kynda upp íbúðarhúsnæði eða hvort hún hefur farið til þess að kynda upp skrifstofuhúsnæði. Það er vafasöm leið að ætla að fela slíkum aðilum að segja til um, hvernig eigi að fara með þessa framkvæmd.

Ég vil nú vænta þess, að þetta mál fái fljóta og greiða fyrirgreiðslu, úr því sem komið er, hjá þeirri n., sem fær málið til athugunar. En ég vil samt lýsa því yfir, að enn er ég reiðubúinn til þess að leita eftir samkomulagsleið við alla varðandi framkvæmdir á þessu máli. Það eitt vakir fyrir mér í þessum efnum að reyna að nota þá peninga, sem hér er um að ræða, á sem hagkvæmastan hátt til þess að draga úr þeim stórkostlega aukna kostnaði, sem hefur fallið á þá, sem þurfa að kynda upp íbúðir sínar með olíuorku. Ef það reyndist svo, að menn vildu miklu fremur velja þá leið að greiða þetta til þessara aðila miðað við stærð íbúðanna, fremur en miðað við fjölda fjölskyldumeðlima, þá er sjálfsagt að skoða það. En eins og ég sagði áður, hef ég nú sannfærst um það, að sú leið, sem hér er lögð til og er komin inn í þetta frv. frá þeim sérfræðingum, sem unnu að því að semja frv., sé réttlátari og hagkvæmari og einfaldari. Stærð íbúða er býsna flókið mál að fá fram á hverjum og einum stað, og má lengi deila um það, en um hitt verður ekki deilt, hvað þau höfuð eru mörg, sem hér eiga hlut að máli.

Ég vil svo að endingu leggja áherslu á, að málið verði afgreitt fljótlega, af því að það er í rauninni þinginu til vansæmdar að draga það enn í langan tíma að koma þessum greiðslum í gang. Það er búið að draga það nógu lengi, m.a. vegna þess, að menn hafa í sífellu verið að óska eftir því að fá að athuga málið, fresta málinu, þó að málið sé í rauninni mjög einfalt.