06.11.1973
Sameinað þing: 13. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í B-deild Alþingistíðinda. (300)

349. mál, áætlun um hafrannsóknir o.fl.

Sjútvrh (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Svar Hafrannsóknastofnunarinnar við þessari fsp. er á þessa leið:

„Vegna fsp. rn. um ofangreint málefni vil ég taka fram eftirfarandi:

Sérfræðingar stofnunarinnar eru nú í þann veginn að ljúka við grg. sínar hver á sínu sviði. Liggja þegar fyrir nokkrar álitsgerðir, en aðrar eru rétt ókomnar. Ég gat um það í bréfi mínu til rn., dags. 21. sept. s. l., að þessari áætlun mundi verða lokið fyrir næstu áramót í seinasta lagi. Eftir er að samræma hin einstöku sjónarmið og ræða málið endanlega í stjórn og ráðgjafarnefnd stofnunarinnar.

Virðingarfyllst,

Jón Jónsson

forstöðumaður Hafrannsóknastofnunar.“

Til viðbótar við þetta svar vil ég taka það fram, að þegar eftir þá fsp., sem fram kom frá hv. fyrirspyrjanda um þetta mál á síðasta þingi, ræddi ég ítarlega við forstöðumenn Hafrannsóknastofnunarinnar, — en í því starfi var ekki alltaf sami maðurinn, — um það, að unnið yrði að þessari áætlunargerð, og nokkrum sinnum síðan hefur verið gengið eftir því, að áætlunin yrði samin. Niðurstöðurnar eru sem sagt þær, sem hér er greint frá og ég geri mér vonir um, að hægt verði að afhenda alþm. þessa áætlunargerð nú um áramótin.