01.04.1974
Neðri deild: 96. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3316 í B-deild Alþingistíðinda. (3003)

3. mál, Þjóðhagsstofnun og Framkvæmdastofnun ríkisins

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég vil aðeins lýsa því yfir, að ég get fallist á þær brtt., sem fram koma á þskj. 611. Ég tel þar ekki vera um að ræða mikilvægar breytingar, og í sannleika sagt, eins og kom fram hjá hv. frsm., er þar um að ræða staðfestingu á því, sem átt hefur sér stað í reyndinni, vegna þess að eins og sjálfsagt er, hafa bæði alþm. og þn. aðgang að hagrannsóknastjóra, og skýrslur, sem hann hefur gert, hafa verið sendar oftlega til alþm. Viðvíkjandi nafninu, þá sé ég ekki, að það sé svo veigamikið atriði, að gera þurfi neinn ágreining um það.

Ég skal ekki lengja þessar umr. Það komu skýrt fram rökin fyrir þessari breytingu hjá hv. frsm., auk þess sem ég rakti þau á sínum tíma í framsögu minni fyrir málinu. En ég vil geta þess, að þar sem hv. þm. Karvel Pálmason vitnaði mér til mikillar ánægju í ummæli, sem ég viðhafði, þegar ég fylgdi þessu frv. úr hlaði á sínum tíma, frv. um Framkvæmdastofnun ríkisins, þá hefði það líka mátt fljóta með, að ég tók skýrt fram, að það væri sjálfsgat, að reynslan gæti sýnt, að það væri þörf á því að gera breytingar á því skipulagi, sem þarna væri komið á fót. Það er nú einu sinni svo, að það er mannlegt að skjátlast, og það er jafnnauðsynlegt, að menn séu opnir fyrir því að læra af reynslunni, og hafi þeir lært af reynslunni og séð, að þeim hefur skjátlast, þá er best að gera leiðréttingar sem fyrst. Framkvæmdin hefur sýnt, að hagrannsóknadeildin á í raun og veru ekki heima í sambandi við þessar tvær aðrar deildir, sem þarna starfa, og það verður ljóst m.a. af því, að menn gætu farið yfir fundargerðir þeirrar stjórnar, sem er yfir þessari stofnun, og lesið þær frá orði til orðs, og mundi koma í ljós, að þar er aldrei, að ég hygg að mér sé óhætt að segja, vikið að málefnum hagrannsóknadeildar. Stjórn Framkvæmdastofnunarinnar hefur alls ekki skipt sér af verkefnum hennar, og má segja, að það sé í sjálfu sér vel, því að það er eðli málsins samkv., eins og hér var rakið áðan, að þau eru þess háttar, að sú pólitískt samsetta stjórn hefur ekki mikið um þau að segja og á ekki að hafa um þau að segja.

Hagrannsóknadeildin hefur verið mjög gagnleg að mínu viti, og hún er sérstaklega nauðsynleg. Það er ákaflega þýðingarmikið, að um hana sé þannig búið, að allir þeir aðilar, sem til hennar þurfa að sækja, beri og geti borið hið fyllsta traust til hennar. Það verður best gert á þann hátt, að hún sé sem óháðust og sjálfstæðust, og þess vegna var það, að þó að það væri aðeins hugsað um það í sambandi við þessa breytingu, að það gæti komið til mála að setja upp sérstakt rn., efnahagsrn., þá var horfið frá því einmitt með þeirri röksemd, að það mundi frekar vekja tortryggni í augum þeirra manna, sem við þessa stofnun þurfa að skipta. En það er t.d. — þori ég að fullyrða — alveg ómetanlegt starf, sem þessi stofnun hefur unnið fyrir aðila vinnumarkaðarins og í sambandi við það margslungna hlutverk, sem henni er ætlað, t.d. í sambandi við ákvörðun fiskverðs, þar sem samstarf hefur tekist með ágætum. Og það er áreiðanlega óhætt að fullyrða, að allir aðilar, sem þarna standa að, hvort sem þeir eru úr hópi launþega eða vinnuveitenda, úr hópi fiskseljenda eða fiskkaupenda, bera fyllsta traust til þess manns sem veitir þessari stofnun forstöðu. Ég held, að það fái ekki staðist, að það verði talin nein hætta á því, að stöðu sérfræðinga sé stofnað sérstaklega í hættu með því að breyta svona til og hún verði eitthvað óviss. Við höfum ekki of mikið af sérfræðingum, og reynslan af Framkvæmdastofnun, þar sem breytt var þó um kerfi, sannar, að það var yfirleitt alls ekki breytt um nokkra sérfræðinga, sem þar höfðu starfað áður. Ég hygg, að þeir hafi allir haldið störfum sínum áfram.

Ég skal svo ekki rökstyðja þetta með fleiri orðum. Þetta er fyrst og fremst staðfesting á því, sem í reyndinni hefur verið. En ég vil segja það, að ég álít alveg sérstaklega nauðsynlegt fyrir hverja ríkisstj., sem hér starfar, að hafa sér við hönd slíka stofnun sem hagrannsóknadeildin hefur reynst.

Það má segja, að þetta mál sé aldrei of oft og vel athugað. En nokkur ofrausn finnst mér samt að ætla að vísa þessu máli til ríkisstj. núna, því að svo sérstaklega stendur á um það, að það var þegar samþ. s.l. vor af ríkisstj, að þetta frv. skyldi þá lagt fram, en vegna þess, hve þá var áliðið þingtíma, þótti ekki rétt að hverfa að því ráði, og það var látið bíða betri tíma. En þá lagði ég það á nýjan leik fyrir ríkisstj., og þá var það samþ. þar. Mér finnst nú óþarfi að ætla ríkisstj. að samþykkja bað í þriðja sinn.

Viðvíkjandi því, að það verði, eftir að þessi deild hefur verið tekin út úr stofnuninni, orðið of stórt höfuðið á henni, þá má það vel til sanns vegar færa. En það er samt ekki í raun nein breyting frá því sem er, því að hvorki stjórnin né framkvæmdastjórarnir hafa haft í framkvæmd afskipti af hagrannsóknadeildinni. Auðvitað hefur verið margvíslegt samstarf og samráð á milli hagrannsóknadeildar og framkvæmdastjóranna, og eftir sem áður er auðvitað gert ráð fyrir því, að Hagrannsóknastofnunin eða Þjóðhagsstofnunin, eins og hún á að nefnast, vinni grundvallarstörf fyrir Framkvæmdastofnunina, t.d. í sambandi við áætlanagerð. En ég vil segja það og endurtaka það, sem ég sagði, þegar ég lagði frv. um Framkvæmdastofnunina fram á sínum tíma, að auðvitað getur reynslan sýnt, að annað skipulag sé hentugra en við þá töldum rétt vera. Og ég tel, að það komi mjög vel til mála að endurskoða lög um Framkvæmdastofnunina að öðru leyti en þessu að fenginni reynslu. Það getur að mínu viti komið til skoðunar, hvort ástæða er til að hafa þrjá forstjóra fyrir þessari stofnun, hvort það er ekki nægilegt, að það sé einn forstjóri, sem starfi undir hinni þingkjörnu stjórn. Þetta allt álft ég, að geti komið til skoðunar, þó að það geti ekki orðið á þessu þingi.

Svo vildi ég aðeins skjóta því til n., að í frv. er gert ráð fyrir gildistöku laga þessara 1. janúar 1974, sem er miðað við það, að þetta er 3. málið, sem lagt var fyrir Alþingi. Ég vil biðja hana að taka til athugunar á milli 2. og 3. umr. að setja hæfilega dagsetningu þarna inn og vil þá gjarnan, að hún hefði samráð við hagrannsóknastjóra um það, hvert væri hæfilegt svigrúm til að gera þessa breytingu. Ég geri ráð fyrir, að það verði að vera nokkrir mánuðir, þannig að þessi skipulagsbreyting gæti þá væntanlega öðlast gildi eða komið til framkvæmda síðari hluta sumars eða með hausti.