01.04.1974
Neðri deild: 96. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3318 í B-deild Alþingistíðinda. (3004)

3. mál, Þjóðhagsstofnun og Framkvæmdastofnun ríkisins

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Ég get ekki varist að segja hér örfá orð. Þó að í raun og veru liggi fyrir vilji þingsins í þessu efni, þykir mér hér það merkilegt mál á ferðinni, að ég tel mér skylt að leggja nokkur orð í belg.

Hv. 7. landsk. þm., sem mælti fyrir nál. á þskj. 454, færði mörg og ágæt rök gegn því að stýfa Framkvæmdastofnun ríkisins á þann hátt, sem hér er lagt til. Ég get tekið undir eiginlega allt það, sem hv. þm. sagði. Það, sem ég vil leggja meiri áherslu á, speglast í orðtakinu: „Ekki verður feigum forðað né ófeigum í hel komið“. Framkvæmdastofnun ríkisins var óskabarn þessarar ríkisstj. Hún var sett á laggirnar fyrir djörfung, sem þessi ríkisstj. ætlaði að starfa af í atvinnumálum og efnahagsmálum þjóðarinnar. Þá gerist það, að tveimur árum síðar á að kippa í raun og veru grundvellinum undan þessu óskabarni þjóðarinnar, þ.e.a.s. hagrannsóknadeildinni, án þess að séu til þess nokkur meginrök.

Í grg. með frv. sekir, að ástæður fyrir breytingunni séu tvær. Annars vegar er talið æskilegt, að almenn hagrannsóknastarfsemi hafi svo óháða stöðu sem kostur er. Við þessu er það að segja, að mér er ekki kunnugt um, að nokkur hér á Alþ. eða við aðrar stofnanir hafi talið, að hagrannsóknadeildin væri undir annarlegum sjónarmiðum. Það hefur hvergi verið dróttað að hagrannsóknadeildinni, að hún ynni eftir pólitískum línum, og ég fæ því ekki séð, að hér sé nokkur röksemd fyrir slíku. Hagrannsóknadeildin hefur óháða stöðu og hefur unnið samkv. því, og það hefur ekki verið dregið í efa af neinum.

Hin röksemdin samkv. grg. er svo hljóðandi: „Hins vegar er sú staðreynd, að verkefni deildarinnar, einkum það að fylgjast með árferði og afkomu þjóðarbúsins, ráðuneyti við ríkisstj. í efnahagsmálum og almenn upplýsingaþjónusta á sviði efnahagsmála, eru afar umfangsmikil og falla að miklu leyti í sjálfstæðan farveg, sem er óháður annarri starfsemi Framkvæmdastofnunarinnar.“

Ég sé ekki, að þetta séu nein sérstök rök, því að auðvitað má efla starfsemi hagrannsóknadeildarinnar, þó að hún sé formlegur hluti af Framkvæmdastofnuninni. Það kom fram, ef ég man rétt, í ummælum hv. 7. landsk. þm., að það væru starfandi 16 eða 17 manns eða 18 við þessa hagrannsóknadeild, þannig að hún hefur nokkuð öflugt starfslið á okkar vísu. Ég sé satt að segja ekki nein skynsamleg rök til þess að fara að stýfa Framkvæmdastofnunina á þessa leið. Hins vegar skil ég það vel, að stjórnarandstöðuflokkarnir tveir, Sjálfstfl. og Alþfl., fagni þessu, því að bæði var Sjálfstfl. andvígur stofnun Framkvæmdastofnunar frá upphafi og Alþfl. var tvístigandi, en mun að sjálfsögðu fagna frv., því að ríkisstj. er beinlínis að slá undan í veigamiklu stefnumáli sínu frá upphafi, þannig að það er engin furða, þó að þetta mál fái töluvert brautargengi, þótt röksemdirnar séu ekki nægilegar. Það, sem líka vekur athygli mína er, að hæstv. forsrh. segir, að ríkisstj. standi að þessu frv. Það má vel vera. Hitt kemur mér þó spánskt fyrir sjónir, að tveir hv. þm. í fjh.- og viðskn., hæstv. forseti þessarar deildar og hv. 7. landsk. þm., sem báðir teljast til tveggja stjórnarflokka, skuli leggjast gegn þessu frv., og ég get ekki annað en dregið þá ályktun, að þetta frv. hafi í raun og veru aldrei verið rætt í stjórnarflokkunum. En það er náttúrlega stjórnarinnar mál. hvernig hún vinnur að þessu. Ég blanda mér ekki inn í það. En það sýnir bara dálítið vinnubrögðin, sem felast hér að baki. Og ég hef það líka eftir góðum og gegnum framsóknarmanni, að þingfl. framsóknarmanna hafi ekki séð þetta frv., áður en það kom inn í þingið. Menn geta svo sem dregið sínar ályktanir af því.

En það er annað, sem kemur mér til að rísa hér upp, og það er, eins og hv. 7. landsk. þm. benti á, að eftir standa þá tveir stofnar í Framkvæmdastofnun ríkisins, þ.e.a.s. áætlanadeild og launadeild, og þar eru starfandi 22 menn með 10 manna yfirstjórn. Þetta er skrímsli. Hér lagði ríkisstj. í upphafi mikla áherslu á þá þrjá kommissara, sem svo eru nefndir, og var barist ósleitilega fyrir því, og mun eitt fyrsta frávik frá núv. ríkisstj., að ég neitaði að gangast inn á þrjá kommissara, en var þó svo blauður, að ég sat hjá af vesaldómi, sem aldrei skyldi verið hafa. En maður lærir af reynslunni, og hún er líka komin í ljós, 10 manna „apparat“ yfir 22 manna starfsliði, og þetta á að halda áfram og láta eins og ekkert hafi í skorist. Mér skildist á hæstv. forsrh., að hann hefði haft góð orð um, að það væri nú vert að athuga stjórn Framkvæmdastofnunarinnar, þ.e.a.s. tvo þriðju, og fer vel á því. En ég er bara ansi hræddur um það, að núv. stjórn gefist ekki neinn tími til þess að skarka meira í þessum málum. Það er nú komið þannig, að óskabarnið, Framkvæmdastofnunin, var stofnuð í upphafi stjórnarferilsins, og svo dettur ríkisstj. í þá gröf að drepa sitt eigið afkvæmi, og það er líka tákn um endalok ríkisstj. Þetta er bara sannleikurinn. En eins og ég sagði, ekki verður feigum forðað né ófeigum í hel komið.

Ég skal ekki hafa um þetta mörg orð. Þm. vita gjörla, að þegar mynduð er ný stofnun, þá vex hún og tútnar út, verkefnin vaxa, og þess vegna eykst líka kostnaðurinn. Mönnum hefur blöskrað kostnaðurinn við Framkvæmdastofnun ríkisins. En hvað verður, þegar komin er sérstök stofnun, sem heitir Þjóðhagsstofnun eða eitthvað því um líkt? Auðvitað kemur þar aukinn kostnaður, auðvitað vex þetta, og hér eru svo þm. að prédika sýknt og heilagt útþenslu ríkisbáknsins, aukinn kostnað. Síðan koma menn með frv. af þessu tagi og taka ekkert tillit til, hvað það muni kosta. Að sjálfsögðu er í frv. ekki gert ráð fyrir því, að þetta hafi í för með sér aukinn kostnað, en við þekkjum það af reynslu, að það gerir það. Þetta á eftir að aukast og tútna út. Ný stofnun þarf að fá fínni stól. Hún þarf að fá finna húsnæði. Hún þarf svigrúm. Hún þarf líklega meira af öllum þægindum. Síðan koma tveir, þrír deildarstjórar, svo utanferðir. Þetta þekkjum við allir. Mér er alveg óskiljanlegt, hvernig svona hlutir geta gerst, en eins og ég segi, ekki verður feigum forðað né ófeigum í hel komið.