01.04.1974
Neðri deild: 96. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3320 í B-deild Alþingistíðinda. (3005)

3. mál, Þjóðhagsstofnun og Framkvæmdastofnun ríkisins

Frsm. 2. minni hl. (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Mér fannst lítill sannfæringarkraftur í ræðu hæstv. forsrh. hér áðan um þau mál, sem hann talaði um. Ég held, frómt frá sagt, að megnið af því, sem hann flutti í sinni ræðu, hafi undirstrikað það, að hagrannsóknadeildin hefur unnið sér traust allra, sem átt hafa við hana viðskipti, bæði aðila vinnumarkaðarins og annarra, á þeim grunni, sem hún hefur starfað á frá byrjun. Þess vegna segi ég, að sú stofnun hefur unnið ómetanlegt starf, og ég tek undir það, að hún hefur unnið ómetanlegt starf í þágu atvinnuveganna, og ég hygg, að allir beri fullt traust til þess manns, sem veitt hefur þeirri stofnun forstöðu. Allt þetta undirstrikar það, að það er út í hött að vera nú að kljúfa Framkvæmdastofnunina með því að taka hagrannsóknadeildina frá. Allt það traust, sem hagrannsóknadeildin hefur unnið sér, hefur hún unnið sér á því fyrirkomulagi, sem hún hefur starfað á, frá því að hún var sett á laggirnar. Það traust, sem hún hefur fengið, eru því meðmæli með því, að hún fái að halda áfram sem einn liðurinn af Framkvæmdastofnuninni, en verði ekki stíuð af.

Hv. 3. landsk. þm. varð undrandi yfir því, að ég og hv. 4, þm. Reykn. sem stjórnarsinnar værum á móti stjfrv. Ég held nú, að hv. 3. landsk. þm., ef hann rifjar upp í huganum, komist að raun um það, að ég hef áður verið andvígur, þó að hafi verið stjfrv. Það er ekkert nýtt.

Um það, hvort þingflokkur Framsfl. hafi séð þetta frv. eða ekki, skal ég ekki segja og blanda mér ekki í.

En að lokum: Forsrh. hæstv. viðurkenndi það, að eftir þessa breytingu væru allar líkur á því, að höfuðið, eins og hann orðaði það, á Framkvæmdastofnuninni yrði of stórt, og þess vegna segi ég, að þeir, þ.e.a.s. hæstv. ríkisstj., sem lögðu þetta frv. fyrir þingið, þeir hefðu átt, jafnhliða því sem þeir vilja þessa breytingu, að gera breytingu á því, sem eftir varð af Framkvæmdastofnunni, því að höfuðið er of stórt.