02.04.1974
Sameinað þing: 72. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3322 í B-deild Alþingistíðinda. (3008)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það er rétt, sem hv. 5. þm. Reykv. sagði, að ég tjáði honum, að ég mundi ekki gangast fyrir því, að hér á Alþingi færu fram umr. um varnarmál. Til þess liggja nokkrar augljósar ástæður. Utanrrh. er þegar farinn úr landi og ekki væntanlegur heim fyrr en rétt um páskaleytið, og ég teldi mjög óviðeigandi, að það færu fram umr. um varnarmál og utanríkismál að honum fjarstöddum. Ég vona, að menn skilji það. Hins vegar tjáði ég hv. 5. þm. Reykv., að þótt ég vildi ekki beita mér fyrir þessu, þá væri að sjálfsögðu opin leið fyrir hann og hvern annan sem vildi að leita til forseta um það, að teknar væru upp umr. um þessi mál hér. Og ég fyrir mitt leyti mun ekki skorast undan því að taka þátt í þeim, ef mönnum þykir það eðlilegt, eins og á stendur.

Ég skil ekki, hvers vegna hv. 5. þm. Reykv. hefur þótt sérstök ástæða til þess að taka fram þann fyrirvara, sem hann gerði. Ég held, að það hafi ekki neinn látið að því liggja eða gefið í skyn, að farið væri með þessi drög að umræðugrundvelli í umboði Sjálfstfl., og það hafi alveg verið óþörf öryggisráðstöfun að taka það fram. Ég hygg, að hann hefði ekkert orðið bendlaður við það.

Hvað það varðar, að það hefði verið ástæða til þess að bera þessi drög að umræðugrundvelli undir Alþingi, áður en farið var til viðræðna, þá er ég hv. þm. ekki sammála um það. Í þessum drögum að viðræðugrundvelli felst ekkert annað en það, sem ríkisstj. hefur á sinni stefnuskrá og allir hafa vitað um langt skeið, að hún mundi vinna að. Það er ekkert nýtt í sambandi við þau drög.

En þá fyrst er auðvitað ástæða til þess að ræða þetta, þegar einhverjar ákveðnar ákvarðanir liggja fyrir. Því hefur verið lýst hér bæði af mér og utanrrh, og fleirum, að það verða engar endanlegar ákvarðanir teknar í þessum málum, fyrr en málið hefur komið til kasta Alþingis.

Ég hef engin gegnumlýsingartæki á hv. alþm. og get ekki kannað þeirra hjörtu eða nýru. En hitt veit ég, að þessi stjórn, þegar hún var mynduð, hafði meiri hl. að styðjast við, og í þessum málum hefur hún ekkert gert, sem ekki er samrýmanlegt þeirri stefnuskrá, sem þar var ákveðin.

Það má til sanns vegar færa, að þessi stjórn á í erfiðleikum að koma fram ýmsum sínum málum og á undir högg að sækja í því efni, þar sem heldur hefur gengið af henni hér fylgið varðandi sum atriði. En fyrst um sinn a.m.k. vil ég vona, að krosstré það, sem stjórnin studdist við ásamt öðrum í upphafi, bregðist ekki í þessu máli. Ég býð nú eftir yfirlýsingu um það a.m.k. Hitt er alveg rétt, að skoðanir eru skiptar um varnarmálin, og satt að segja fæ ég ekki skilið þá hugsun hjá hv. 5. þm. Reykv., að ríkisstj. ætli að nota varnarmálin til þess að tildra sér saman eða eitthvað því um líkt, eins og hann orðaði það. Ég hefði nú haldið, að það væri frekar annað mál, sem mundi verða til þess að sameina alla hv. alþm. heldur en varnarmálin. Vona ég, að reynt geti á það innan skamms.

Ég hafði einmitt ætlað mér í dag að tala við form. þingflokkanna um tilhögun þinghaldsins og skal ekki fara að ræða það hér. En m.a. vegna þess, hvernig það hefur verið hugsað,tel ég ekki hægt með góðu móti að koma því við að fara að eyða löngum tíma þingsins í umr. um varnarmál á þessu stigi.