02.04.1974
Sameinað þing: 72. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3323 í B-deild Alþingistíðinda. (3009)

Umræður utan dagskrár

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Núv. ríkisstj. er sérstæð að því leyti til, að hún hefur ekki þingstyrk til þess að stjórna landinu, en neitar þó að víkja. Hvað eftir annað hefur ríkisstj. orðið að láta í minni pokann og sætta sig við það, að Alþingi hefur knúið hana ýmist til undanhalds eða til þess að breyta málum sínum í verulegum atriðum. En hversu alvarleg sem þessi mál hafa verið, — það má nefna fjáröflun fyrir ríkissjóð og skattlagningu, — hefur ríkisstj. ekki gert neitt þeirra að fráfararatriði.

Nú brá svo við fyrir nokkrum dögum, að hæstv. forsrh. kom skyndilega auga á mál. sem ríkisstj. ætlar að gera að fráfararatriði og hefur nú gert að fráfararatriði með yfirlýsingu hans, en það eru varnarmálin. Þetta vakti sérstaka athygli, vegna þess að forsrh. tók svo skýrt fram og þurfti að láta endurtaka það tvo daga í röð í Ríkisútvarpinu, að ef ríkisstj. hefði ekki meiri hl. í varnarmálunum, mundi stjórnin fara frá.

Nú er það svo, að mikilvægir samningar um varnarmálin eru u.þ.b. að hefjast. Á sama tíma hefur verið dregið mjög í efa, bæði í þingsölunum og utan þeirra, að ríkisstj. hafi meiri hl. fyrir stefnu sinni í varnarmálunum á Alþingi. Ég verð að líta svo á, að hin óvenjulega yfirlýsing forsrh. um, að þetta mál verði gert að fráfararatriði, sé ekki tilefnislaus. Annaðhvort hefur hann einhverjar grunsemdir um það sjálfur, að það þurfi að herða upp vissa liðsmenn eða þá a.m.k. að bann tekur þær fullyrðingar, að stjórnin hafi ekki meiri hl. í varnarmálunum á Alþingi, svo alvarlega, að hann telji ástæðu til að gefa yfirlýsingu um, að þau verði gerð að fráfararatriði.

Með tilliti til alls þessa er það glæfraspil að leggja út í alvarlega milliríkjasamninga án þess að kanna, hvort stefna ríkisstj. nýtur stuðnings meiri hl. Alþingis. Það er hægt að láta slíka könnun fara fram á margan hátt. En það er í hæsta máta furðulegt, að ríkisstj. skuli, jafnframt því sem hún loksins gerir eitt mál að fráfararatriði, halda áfram á erlendum vettvangi, án þess að kanna, hvort hún hefur þennan meiri hl. Þetta eru einkennileg vinnubrögð, sem lofa ekki góðu í þessu máli.