02.04.1974
Sameinað þing: 72. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3331 í B-deild Alþingistíðinda. (3019)

282. mál, kjarabætur til handa láglaunafólki

Fyrirspyrjandi (Bjarni Guðnason):

Herra forseti. Svör hæstv. félmrh. voru nokkuð ógreinileg og erfitt að átta sig á þeim. Ég hef náð mér í nokkrar tölur um þetta efni, og ég vil biðja þingheim að leggja við hlustir.

Hækkun Dagsbrúnarkaups er metin að meðaltali ca. 18–19%. 3. taxti Dagsbrúnar hækkaði við samningana úr 163.90 í 186.46 eða um kr. 22.56, miðað við sömu vísitölu. Það er 13.7%, sem hækkunin er. Eftir úrtaksrannsóknum Kjararannsóknarnefndar er kaup trésmíða í uppmælingu í des. 1973 til febr. 1974 kr. 414.65 á tímann. Eftir samningana í febrúarlok fer tímakaupið upp í kr. 509.40. Hækkun á tímann er kr. 94.75 eða 22.84%. Samkv. tölum Kjararannsóknarnefndar um meðalkaup múrara er það í des. til febr. 1974 kr. 540.55 á tímann. Eftir samningana, miðað við sömu vísitölu, fer það í kr. 685.85 á tímann. Hækkun á tímann er kr. 145.30 eða um 26.88%, á meðan Dagsbrúnarverkamaður fékk 13.7%.

Það má benda á, að árið 1936 var tímakaup Dagsbrúnarverkamanns kr. 1.36, en þá var tímakaup trésmiða kr. 1.75 eða 28.9% hærra. Í dag er tímakaup trésmíða í uppmælingu 173.2% hærra en 3. taxti Dagsbrúnar. Í dag er tímakaup múrara í uppmælingu 267.8% hærra en 3. taxti Dagsbrúnar. Sambærilegt mánaðarkaup við tímakaup 3. taxta Dagsbrúnar er í dag kr. 343.20.

Ef miðað er við hækkun á kaupi samkv. 3. taxta Dagsbrúnar 1. mars s.l. og sambærilegt tímakaup trésmíða í tímavinnu, hækkaði 3. taxti um kr. 34.10 á tímann, en trésmíðakaupið um kr. 70.30 eða að krónutölu um rúmlega helmingi meira.

1936 greiddi verkamaðurinn fyrir þjónustu trésmiðs sem svaraði til 77 mínútna vinnu. 1974 greiðir verkamaðurinn fyrir útselda þjónustu trésmiðs, sem vinnur í tímavinnu, sem svarar til 131 mínútna vinnu. 1974 greiðir verkamaðurinn fyrir útselda þjónustu trésmiðs, sem er í uppmælingu, sem svarar til 236 mínútna vinnu. 1974 greiðir verkamaðurinn fyrir útselda þjónustu múrara í uppmælingu sem svarar til 318 mínútna vinnu. Og síðan kemur rúsínan í pylsuendanum: Ef verkamaður fær múrara í vinnu í 11/2 tíma, þarf verkamaðurinn að greiða það með heilu dagsverki. Ef verkamaður fær trésmið í vinnu í uppmælingu í 2 klst. þarf verkamaðurinn að greiða það með heilu dagsverki.

Svona eru hlutirnir. Sannleikurinn er sá, að Dagsbrúnarverkamenn, Iðjufólkið, verslunarfólkið og láglaunafólkið, sem hefur ekki kost á eftirvinnu, innan BSRB stendur verr að vígi eftir samninga en áður.

Hver verða áhrifin á byggingarvísitöluna með þessum gífurlegu hækkunum? Til gamans má geta þess, að það liggur frv. fyrir Alþingi um, að bensín skuli hækka í hlutfalli við byggingarvísitölu. Öll vitleysan er ekki eins. Og hvað á nú til ráðs að taka? Láglaunafólkið stendur eitt uppi. Forustumennirnir hafa brugðist og eru að reyna að breiða yfir þessa dæmalausu skyssu. Og sama gildir um ríkisstj. Það er ekki nema eitt eða tvennt til: Verkamannasamband þarf að myndast, sem stendur eitt og óháð utan við aðra þá hópa, sem hér um ræðir, því að það verður ekki tekið á efnahagsmálunum bara með því að píra sem mest af láglaunafólkinu. Það er ekki efnahagsstefna og verður ekki þolað til lengdar.

Svo er ein spurning: Er ekki kominn tími til að binda uppmælingartaxtann við ákveðið hámark, svo sem 50–60% álag á umsamið tímakaup? Við vitum, að þetta er ekki gott, hvorki fyrir viðkomandi vinnuaðila, sem verða útþrælkaðir langt fyrir tímann, né þjóðfélagið. Það þarf að taka í taumana. En þetta er feimnismál. Það þorir enginn að hreyfa þessu. Verkalýðsforustan talar ekki um hlutina, alltaf fram hjá hlutunum, og verkafólkið veit ekkert, um hvað það er að semja. Í raun og veru er ástandið í þessum málum óþolandi, — það verður ekki annað sagt, — og það er hörmuleg saga, að láglaunafólkið í landinu stendur miklu verr að vígi eftir en áður. Og því miður hefur það ekki áttað sig á því, að það er eitthvað að forustunni og eitthvað að ríkisstj.