02.04.1974
Sameinað þing: 72. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3332 í B-deild Alþingistíðinda. (3020)

282. mál, kjarabætur til handa láglaunafólki

Félmrh. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég held, að þær tölur, sem ég fór með, séu gerðar eftir bestu vitund og þeim bestu upplýsingum, sem fáanlegar eru, og verði ekki vefengdar, þó að mér virtist, að hv. fyrirspyrjandi væri að gera því skóna, að hér væri um einhverjar tilbúnar tölur að ræða. Hitt er alveg rétt, að tölur eru vandmeðfarnar og það getur ýmislegt falist á bak við þær, sem ekki liggur í augum uppi við fyrstu sýn. Ég get tekið alveg undir það með honum, að varðandi kaup uppmælingarmanna, þó að gefin sé upp hækkun á reikningstölunni, þá gefur hún ekki rétta hugmynd um hlutfallið við verkamannakaupið. Og það er vafalaust alveg rétt, að í krónutölu, — einmitt vegna þess, hvernig það kerfi er upp byggt og hefur falið í sér möguleika til þess að hafa margfalt verkamannakaup á hverja klst., — þá kemur hækkun, sem er svipuð að prósentu, út þannig í krónutölu, að ekki er um mikið réttlæti að ræða og jafnvel misréttið aukið frá því, sem áður var. Það er því miður það, sem hefur gerst í meira eða minna mæli í sambandi við þá kjarasamninga, sem nú hafa verið gerðir.

Hins vegar er það alveg út í loftið hjá hv. fyrirspyrjanda að halda því fram, að ríkisstj. hafi átt hér einhvern hlut að máli. Það vita allir, að kjarasamningarnir núna snerust fyrst og fremst um tvö atriði: annars vegar um kauphækkanir, sem voru gerðar sameiginlega af verkalýðshreyfingunni og samið var um við vinnuveitendur, og hins vegar um nokkur atriði, sem sneri beint að ríkisvaldinu að leysa. Þau hafa verið leyst að dómi hv. fyrirspyrjanda þannig, þau mál. sem sneru að ríkisstj., að þar hafi verið um dæmalaust hneyksli að ræða, og benti þar á skattkerfisbreytinguna. Ég held, að þetta sé ekki rétt hjá hv. þm., hér hafi ekki neitt hneyksli skeð, heldur hefur það miklu frekar skeð, að þarna hefur ríkisvaldið gengið lengra en raunverulega hafi verið fyllilega fært og svo fullkomlega staðið við þau loforð og meira til, sem gefin voru og samninganefnd verkalýðsfélaganna sætti sig við.

Hitt er annað mál, að ég get vel lýst því sem skoðun minni í sambandi við þessi mál. að það hafi ekki verið farið að með þeirri gát í sambandi við kjaramálin, sem hefði þurft að gera, hvorki af hálfu ASÍ og samninganefndar þess sem heildar né af hálfu vinnuveitenda. Og mér er alls ekki grunlaust um, að einmitt það, sem mest er gagnrýnt í sambandi við þessa samninga, þ.e.a.s. þessar miklu hækkanir til uppmælingarmanna, hafi fyrst og fremst átt rætur hjá atvinnurekendum, sem í raun og veru eru engir atvinnurekendur, heldur aðeins milliliðir um að selja vinnu manna og hafa þeim mun meiri hagnað sem taxtarnir eru hærri.

Ég fylgdist ofurlítið með þessum samningum, og ég vissi ekki betur en það væri á einu stigi samninganna ákveðið, að uppmælingin skyldi hvorki fá 8% né 1200 kr., heldur skyldi það aðeins koma á tímakaup iðnaðarmanna, og mér er nær að halda, að meira að segja forustumenn samtakanna, bæði ASÍ og Vinnuveitendasambandsins, hafi ekki verið hafðir á nokkurn hátt með í ráðum, þegar þetta var allt í einu komið inn á uppmælingataxtann, sem ég tel mjög miður.

Að það ráð sé við þessu, að það eigi að takmarka kaup uppmælingarmanna með lögum, það er sérmál. sem ég held, að við ræddum nú ekki til hlítar hér í fyrirspurnatíma. Ég bendi á, að við búum í landi frjálsra samninga. Það auðvitað felur það í sér, að það getur verið hætta á því, að það sé gert ýmislegt, sem betur hefði mátt fara. En ég held nú samt, að verkalýðshreyfingin og við almennt hljótum að halda okkur við það kerfi í lengstu lög. Hitt er auðvitað annað mál. að það er ekkert nýtt, hvorki hjá okkur né öðrum, sem búa við slíkt kerfi, að stjórnvöld verða að taka staðreyndirnar eins og þær eru, þegar frjáls samningsgerð hefur farið fram, og haga aðgerðum sínum í samræmi við það, sem þar hefur gerst, hvort sem það hefur verið með hennar vilja eða gegn hennar vilja.