02.04.1974
Sameinað þing: 72. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3334 í B-deild Alþingistíðinda. (3021)

282. mál, kjarabætur til handa láglaunafólki

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Hún er með eindæmum sú árátta, mér liggur við að segja sú ónáttúra, sem hv. 3. landsk. þm. virðist vera haldinn, að því er varðar afstöðuna og viðhorfin til forustumanna verkalýðshreyfingarinnar í landinu, eins og hann hefur margoft látið fram koma í ræðustól hér á Alþingi. Ég fer að halda, að það sé eins farið hans viðhorfum til verkalýðsforustunnar, — eins og hann er blindaður pólitísku ofstæki í garð ríkisstj., eins muni hann vera blindaður pólitísku eða persónulegu ofstæki í garð þeirra manna, sem farið hafa með verklýðsforustuna í landinu um árabil. Það er ekkert nýtt, að heyra ræður eins og hv. 3. landsk. þm. hér áðan í garð þessara manna. Ég var lengi fram eftir að halda, að hér væri maður á ferðinni, sem mælti svo vegna ókunnugleika í þessum málum, og ég veit, að það er rétt. En það er miklu meira, sem þar býr á bak við heldur en bara ókunnugleiki á þeim málum, sem hér er um fjallað. Það þurfti engan hálærðan mann á borð við þennan hv. þm. til þess að vita það, að út úr þeim samningum, sem voru gerðir fyrir rúmum mánuði, fengu þeir, sem eru hærra launaðir, meira en hinir, sem áttu að fá mest, hinir lægst launuðu. Hann talaði hér mikið um uppmælingarmennina, og ég tek undir það. En skyldi ekki þurfa að skyggnast víðar? Það eru fleiri stéttir í landinu, sem eru of hátt launaðir á borð við hina lægst launuðu í verkalýðshreyfingunni heldur en bara þeir menn í byggingaiðnaðinum, sem er hér um fjallað. Það ætti að taka fleiri hópa inn í, meira að segja einn til tvo, ef ekki þrjá hópa, sem þessi hv. þm. hefur tilheyrt og tilheyrir enn. Það eru ekki bara þessir aðilar, uppmælingarmennirnir, sem þarna ættu að koma til athugunar, það eru miklu fleiri hópar.